32 Grindvíkingurinn Dedrick Basile var stigahæstur allra í Smáranum í gærkvöld og fer hér fram hjá Valsmanninum Ástþóri Atla Svalasyni.
32 Grindvíkingurinn Dedrick Basile var stigahæstur allra í Smáranum í gærkvöld og fer hér fram hjá Valsmanninum Ástþóri Atla Svalasyni. — Morgunblaðið/Óttar Geirsson
Þriðja árið í röð þarf oddaleik til að útkljá baráttuna um Íslandsmeistaratitil karla í körfuknattleik. Það lá fyrir í gærkvöld eftir að Grindavík lagði Val að velli eftir gríðarlega spennu í Smáranum í Kópavogi þar sem Dedrick Basile skoraði…

Körfuboltinn

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Þriðja árið í röð þarf oddaleik til að útkljá baráttuna um Íslandsmeistaratitil karla í körfuknattleik. Það lá fyrir í gærkvöld eftir að Grindavík lagði Val að velli eftir gríðarlega spennu í Smáranum í Kópavogi þar sem Dedrick Basile skoraði sigurkörfuna, 80:78, með þriggja stiga skoti þegar fimm sekúndur voru eftir af leiknum.

Þriðja árið í röð eru Valsmenn á heimavelli í oddaleiknum. Þeir unnu Tindastól 3:2 vorið 2022 og töpuðu á sama hátt fyrir Skagfirðingunum eftir ótrúlega spennu fyrir ári. Næsta miðvikudagskvöld mæta Grindvíkingar á Hlíðarenda og þar fer Íslandsbikarinn á loft í leikslok.

Fjórði leikhlutinn í gærkvöld var sveiflukenndur og bæði lið náðu þar fimm stiga forskoti sem hvarf jafnharðan. Grindavík var í vænlegri stöðu, 73:68, þegar rúmar þrjár mínútur voru eftir en Valsmenn komust hins vegar yfir með körfu Kára Jónssonar, 78:77, þegar 23 sekúndur voru eftir.

DeAndre Kane fór ásamt Basile fyrir Grindvíkingum og seiglaðist hálfhaltur í gegnum lokakaflann en hann skoraði 20 stig í leiknum og tók 8 fráköst. Basile skoraði hins vegar 32 stig og átti sjö stoðsendingar. Ólafur Ólafsson skoraði 15 stig.

Taiwo Badmus skoraði 19 stig fyrir Valsmenn, Frank Aron Booker 16 og þeir Kári Jónsson og Justas Tamulis 11 hvor.