Fjölskyldan Frá áttræðisafmæli Sigurgeirs, frá vinstri aftasta röð: Þórir, Hólmgeir, Böðvar, Hrefna og Hólmgeir; frá vinstri miðröð: Þorgerður, Þórarinn, Katla, Úlfar, Lára og Rakel; fremst: Sigurgeir og Hólmfríður.
Fjölskyldan Frá áttræðisafmæli Sigurgeirs, frá vinstri aftasta röð: Þórir, Hólmgeir, Böðvar, Hrefna og Hólmgeir; frá vinstri miðröð: Þorgerður, Þórarinn, Katla, Úlfar, Lára og Rakel; fremst: Sigurgeir og Hólmfríður.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurgeir Hólmgeirsson fæddist 27. maí 1939 á bænum Völlum í Reykjadal og ólst þar upp með foreldrum sínum, systkinum og tveimur fóstursystrum. Það var alltaf nóg af fólki á Völlum og allir velkomnir þótt húsið væri ekki stórt

Sigurgeir Hólmgeirsson fæddist 27. maí 1939 á bænum Völlum í Reykjadal og ólst þar upp með foreldrum sínum, systkinum og tveimur fóstursystrum. Það var alltaf nóg af fólki á Völlum og allir velkomnir þótt húsið væri ekki stórt. Þegar Sigurgeir varð eldri komu svo systkinabörnin í heimsókn í sveitina til ömmu og afa.

Sigurgeir vann heima við búið en tók einnig að sér ýmis störf utan þess. Fór til dæmis á vertíð í Vestmannaeyjum árin 1961 og 1962 og var á bátnum Farsæl. Hann vann 25 haust á Sláturhúsinu á Húsavík. Svo fór hann ásamt vini sínum Stebba í Hólkoti á milli bæja og rúði kindur fyrir aðra bændur, voru þetta skemmtilegar ferðir og margar sögur sagðar frá þeim tíma. Sigurgeir var líka í sveitarstjórn fyrir gamla Reykdælahrepp.

Hann var virkur í félagslífi og var meðal annars í Lionsklúbbnum Náttfara, ungmennafélaginu Eflingu þar sem hann var bæði með í íþrótta- og leikstarfi og söng í Karlakór Reykdæla. Svo var hann einn af stofnendum hjálparsveitarinnar í Reykjadal og vann lengi í þeirri starfsemi. Nú á efri árum hefur hann róast aðeins í félagsstörfunum og var síðast í Félagi eldri borgara í Þingeyjarsveit.

Sigurgeir er afbragðsbrennijárnsmiður og smíðaði brennijárn í 68 ár fyrir fólk alls staðar af landinu en er nú hættur smíðunum.

Sigurgeir giftist Hólmfríði Garðarsdóttur úr Lautum 27.5. 1972. Hún flutti í Velli og þau bjuggu þar félagsbúi með foreldrum Sigurgeirs þar til eldri hjónin hættu búskap sökum aldurs og þau yngri tóku alfarið við búinu. Sigurgeir og Hólmfríður eignuðust þrjú börn á mjög stuttum tíma og var svo stutt á milli að talað var um, á tímabili, að þau ættu heimsmet í barneignum.

Sigurgeir hélt áfram að vinna utan búsins og var eftirsóttur í alls konar byggingarvinnu þar sem hann var verklaginn, vandvirkur og skipulagður. Hann var líka bóngóður og fljótur til þegar einhvern vantaði hjálp. Þessu hefði hann þó ekki getað sinnt nema fyrir góða hjálp heima, eins og hann segir sjálfur, en konan og börnin sáu um búið á meðan hann var í þessum aukastörfum. Hann vann oft fyrir Þjóðminjasafnið með vini sínum Áskeli Jónassyni, ábúanda á Þverá í Laxárdal, við varðveislu gamla bæjarins þar enda hefur hann mikinn áhuga á varðveislu gamalla muna og bæja.

Sigurgeir átti í mörg ár litla gröfu og var verktaki með hana, t.d. að taka grafir í kirkjugörðum sveitarinnar, og einnig vann hann dálítið fyrir Landsvirkjun og svo ýmsa einstaklinga hér í kring. Sigurgeir og Hólmfríður hættu búskap árið 2002 og þá var meiri tími fyrir alls konar frístundir. Sigurgeir fór í jeppaferðir með vinum sínum um hálendið því hann hefur alltaf haft mikinn áhuga á ferðalögum um Ísland og hálendi þess en hafði ekki tíma sem skyldi fyrir það fyrir bústörfum og öðru.

Hann fór á útskurðarnámskeið hjá Jóni bróður sínum og uppgvötvaði að honum fannst gaman að vinna í tré. Hann skar aðeins út en var mest duglegur við að smíða hluti eins og smjörhnífa, skóhorn, bakklórur og sleifar af öllum stærðum og gerðum og margt fleira. Smjörhnífarnir og skóhornin hans hafa verið afar vinsæl til að gefa enda falleg og nytsamleg gjöf.

Fæðingarstaður móður Sigurgeirs er Vellir í Þistilfirði og á Sigurgeir part í jörðinni ásamt fleiri afkomendum. Fjölskyldan er dugleg að fara þangað á sumrin og njóta þess að veiða úti á sjónum eða í vatninu sem fylgir jörðinni. Sigurgeir hefur alltaf haft áhuga á vatnaveiðiskap og nýtur þess að komast út á bát og veiða í soðið eða í reyk og finnst fátt betra en nýveiddur silungur. Einnig hefur verið hægt að komast á sjóinn og veiða þorsk og ýsu í víkinni við bæinn. Á veturna hefur hann verið duglegur að fara á dorg eða veiða í gegnum ís og tekið þátt í nokkrum Íslandsmeistaramótum í dorgveiði.

Í mörg ár á haustin reykti Sigurgeir kjöt og silung fyrir sjálfan sig og aðra í gömlu Smiðjunni sem er gamalt torfhús þar sem pabbi hans smíðaði skeifur og fleira en er núna aðeins notað til að reykja kjöt og þykir húsið mjög gott reykhús.

Í dag búa hjónin á dvalarheimili aldraðra Hvammi á Húsavík og líkar vel vistin þar.

Fjölskylda

Eiginkona Sigurgeirs er Hólmfríður Garðarsdóttir, f. 27.5. 1941, fv. starfsmaður í mötuneyti og bóndi á Völlum í Stafnshverfi í Þingeyjarsveit. Foreldrar Hólmfríðar voru hjónin Þorgerður Glúmsdóttir frá Vallakoti, f. 1.8. 1915, d. 14.10 1979, og Garðar Jakobsson frá Hólum, f. 8.4. 1913, d. 12.3. 2003. Þau reistu nýbýlið Lautir og voru bændur þar.

Börn Sigurgeirs og Hólmfríðar eru 1) Þorgerður, f. 21.4. 1973, húsgagnasmiður, leikskólaliði í Barnaborg, Þingeyjarskóla. Maki: Þórir Már Einarsson, f. 7.10. 1974, skólaliði í Þingeyjarskóla. Þau eru búsett á Völlum; 2) Hólmgeir, f. 8.1. 1974, rafeindavirki, vinnur hjá Rarik. Maki: Lára Kristín Jónsdóttir, f. 27.8. 1982, hjúkrunarfræðingur, vinnur hjá Heilsuvernd. Þau eru búsett á Akureyri. Börn: Rakel, f. 6.11. 2007, og Úlfar, f. 16.5. 2012; 3) Hrefna, f. 30.11. 1974, málari, núna sundlaugarvörður í Sundlauginni á Laugum. Maki: Böðvar Pétursson frá Baldursheimi, f. 31.7. 1971, bóndi og grísahirðir í Kröflu. Þau eru búsett í Baldursheimi í Mývatnssveit. Börn: Hólmgeir, f. 27.1. 2000, Katla, f. 19.3. 2005, og Þórarinn, f. 31.5. 2009.

Systkini Sigurgeirs eru Hólmfríður Hólmgeirsdóttir, f. 14.8. 1932, fyrrverandi bóndi, búsett á Akureyri, og Jón Hólmgeirsson, f. 15.4. 1935, húsgagnasmiður, búsettur á Akureyri. Fóstursystur: Lilja Gunnarsdóttir, f. 21.2. 1936, d. 2.8. 2017, og Gunnur Gunnarsdóttir, f. 6.5. 1944, búsett á Akureyri.

Foreldrar Sigurgeirs voru hjónin Kristín Þorvaldsdóttir frá Völlum í Þistilfirði, f. 6.12. 1902, d. 24.8. 1985, og Hólmgeir Sigurgeirsson, 14.12. 1909, d. 23.4. 1984. Þau reistu nýbýlið Velli úr Stafnsjörðinni og bjuggu þar til dánardægurs.