Það hefur verið í fréttum að sala á neftóbaki hafi dregist svo mikið saman að framleiðslan standi ekki lengur undir sér og sé sjálfhætt. Við þessi tíðindi rifjuðust upp þessar vísur: Taktu í nefið tvinna hrund til er baukur hlaðinn komdu svo með káta lund og kysstu mig í staðinn

Það hefur verið í fréttum að sala á neftóbaki hafi dregist svo mikið saman að framleiðslan standi ekki lengur undir sér og sé sjálfhætt. Við þessi tíðindi rifjuðust upp þessar vísur:

Taktu í nefið tvinna hrund

til er baukur hlaðinn

komdu svo með káta lund

og kysstu mig í staðinn.

Taktu í nefið tóbak hef ég

til að gefa

þetta ef að kannski kvefið

kynni að sefa.

Spurt frétta:

Segðu mér nú satt um það,

sem til hefur borið.

Hefur enginn hálsbrotnað,

hengt sig eða skorið?

Tumma Kukka, söngbók Mímis, kom út fyrir hálfri öld eða svo. Þar er að finna fjölda lausavísna með smáu letri sem margir munu kunna vel að meta þótt þar sé oft lítt af setningi slegið eins og þar stendur. Dæmi:

Keisarinn í Asíá

átti dóttur hreina.

Hún var gul og hún var blá

og hafði nýrnasteina.

Páll litli gerði Borgu gömlu blinda

á báðum augum, strákanganum leiddist

og rak í glyrnur henni hrífutinda;

þú hefðir átt að sjá hvað kerling reiddist.

Hann litli Jón skaut Gunnu systur sína

á sextán skrefa færi og tókst að hitta,

þá sagði móðir hans, hún stóra Stína:

„Sá stutti verður einhvern tíma skytta.“

Víða hef ég velkst um sjó,

vann mér þá inn hýru,

aldrei mikið auðgast þó,

er með dágóð nýru.

Hann Davíð bóndi á Dröngum

er dáinn – það var ljótan.

Svo hjartanlega hafði

ég hlakkað til að skjót'ann.

Svo að farið sé út í aðra sálma.

Limra eftir Gunnar J. Straumland:

Það rignir og reynitrén svigna

í rokinu, en kannski mun lygna.

Sólin er falin

og senn verð ég galinn.

Í lóðina laxarnir hrygna.

Enn yrkir Gunnar – Viðtal:

Hún röflaði og rétt svo við strikið

rambaði og því fyrir vikið

mér sýndist það skrítið

hve sagði hún lítið

þó svo hún masaði mikið.