Friðrik Magnússon fæddist í Reykjavík 25. júlí 1933. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja 18. maí 2024.

Hann var sonur hjónanna Magnúsar Helgasonar Ólafssonar stýrimanns, f. 1896, d. 1946, og Gunnfríðar Geirdísar Friðriksdóttur verkakonu, f. 1902, d. 1999.

Systur Friðriks eru Sigurveig Magnúsdóttir, f. 1928, d. 1998, og Guðrún A. Hromcho, f. 1943. Guðrún er búsett í Nýju-Mexíkó.

Eftirlifandi eiginkona Friðriks er Kolbrún Þorsteinsdóttir, f. 22. janúar 1937. Þau gengu í hjónaband 2. mars 1958. Kolbrún fæddist á Siglufirði en býr nú á Nesvöllum í Ytri-Njarðvík. Kolbrún og Friðrik bjuggu stærstan hluta ævi sinnar í Njarðvík en jafnframt bjuggu þau lengi á Langholtsvegi í Reykjavík.

Þau hjónin eignuðust fjögur börn. Þau eru: 1) Jón Ingi, f. 30. janúar 1957, maki Borghildur Jónsdóttir. Dætur þeirra eru a) Eydís Ósk, maki Eiríkur Hákon Friðriksson, sonur þeirra er Krummi Freyr. b) Hrafnhildur, unnusti Jón Hugo Bender. c) Dóttir Jóns úr fyrra sambandi er Snædís Lilja, maki Óskar Þórðarson, sonur þeirra er Úlfur Kári. 2) Gunnfríður, f. 11. júní 1958, maki Antonio Manuel Goncalves. Börn Gunnfríðar úr fyrra hjónabandi eru a) Kolbrún Guðmundsdóttir, maki Karl Kristján Davíðsson, sonur þeirra er Kolbeinn Friður. Dóttir Kolbrúnar úr fyrra sambandi er Salka Snæbrá Hrannarsdóttir. b) Sigurður Guðmundsson, d. 2019. c) Friðrik Guðmundsson, d. 2020. 3) Jóna, f. 2. febrúar 1962, maki Jón Pétur Jónsson. Börn þeirra eru a) Ragnheiður, maki Þorsteinn Gunnarsson og synir þeirra eru Jóhann Kári og Birkir. b) Eyþór, maki María Sigurborg Kaspersma, synir þeirra eru Aron Pétur og Samúel Darri. 4) Friðrik, f. 12. apríl 1972, maki Álfrún Helga Örnólfsdóttir. Dætur þeirra eru Margrét og Kolbrún Helga.

Útför Friðriks fer fram í Ytri-Njarðvíkurkirkju í dag, 27. maí 2024, kl. 11.

Hann fallegi og góði pabbi okkar hefur kvatt þessa jarðvist og hvílir nú í faðmi ættingja og vina sem hafa yfirgefið okkur.

Friðrik Magnússon, eða Diddi Magg, var menntaður vélstjóri og vann sem vélstjóri á sjó og vélamaður í landi. Hann tók þátt í byggingu fjölmargra mannvirkja um allt land og það virtist varla vera til mannvirki sem pabbi hafði ekki lagt einhverja hönd á. Á ferðalögum um landið benti pabbi okkur systkinunum reglulega á ýmis mannvirki og sagði: „Þarna vann ég á gröfu“ eða „þarna vann ég á jarðýtu“. Lengst af starfaði hann í snjóruðningsdeild Varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli.

Hæfileikar pabba og dugnaður snerust ekki einungis um stór mannvirki, heldur einnig smáu en mikilvægu verkefnin því hann var dugnaðarforkur á heimilinu; braut niður veggi, smíðaði, flísalagði, múraði og málaði. Þegar hann hætti að vinna á áttræðisaldri hélt hann áfram að lagfæra heimilið á Langholtsveginum þar til allt var fullkomið. Jafnvel þegar ekkert var eftir fann hann fleiri verkefni; hann flísalagði meira að segja inni í fataskápnum.

Þegar barnabörnin komu til sögunnar voru afi Diddi og amma Kolla dugleg að hjálpa til við uppeldið og hlaupa undir bagga. Pabbi var okkur fyrirmynd. Hann var góður faðir og jafnvel enn betri afi.

Hjálparhellan hennar mömmu er nú farin eftir 66 ára farsælt hjónaband. Það var órjúfanleg ást og umhyggja milli Didda og Kollu. Þau voru dugleg að styðja hvort annað, voru iðin við að skapa fallegt heimili og einstaklega gestrisin. Mataráhuginn var allsráðandi á heimilinu og höfðu þau óbilandi áhuga á að elda og prófa nýjar uppskriftir. Þau stóðu þá yfirleitt bæði við pottana, pabbi að skera og mamma að hræra eða öfugt.

Hann var ætíð forvitinn um alla heimsins viðburði, fylgdist grannt með fréttatímum bæði í útvarpi og sjónvarpi. Hann var fljótur að tileinka sér tækninýjungar og sýndi iðulega stoltur nýjustu græjuna. Rúmlega áttræður fékk hann sér snjallúr sem mældi hjartsláttinn og skrefin á göngutúrunum. En hann var ekki síst forvitinn um líf barna sinna og barnabarna og studdi þau í öllum þeirra áskorunum og ævintýrum.

Fyrst og fremst var það innilegt bros hans og gleði sem smitaði út frá sér. Hann hafði rólegt og hlýtt yfirbragð sem barnabörnin löðuðust að og alltaf var stutt í húmorinn. Jafnvel undir það síðasta í veikindum sínum fann hann húmorinn. „Pabbi, þú þarft að hreyfa þig meira.“ „Ha, hreyfa mig meira? Ég fer svona 20 ferðir á klósettið á dag, er það ekki nóg?“

Það má finna ummerki um pabba á fjöllum og útnárum Íslands og inni í flísalögðum fataskápum. En það sem huggar okkur mest er að innra með afkomendum hans leynist kannski örlítill neisti af allri hans hlýju, gleði og atorku, sem mun ylja komandi kynslóðum. Við systkinin minnumst hans með hlýhug og þakklæti fyrir allar stundirnar sem við áttum saman og það sem hann kenndi okkur. Pabbi var maður sem gerði allt fyrir alla og við munum sakna hans óendanlega mikið.

Jón Ingi Friðriksson, Gunnfríður Friðriksdóttir, Jóna Friðriksdóttir og Friðrik Friðriksson.

Mig langar í nokkrum orðum að minnast Friðriks Magnússonar eða Didda eins og hann var alltaf kallaður, en hann lést hinn 18. maí sl. eftir veikindi. Diddi var giftur móðursystur minni og fóstursystur, Kolbrúnu Þorsteinsdóttur eða Kollu. Ég man ennþá eftir því þegar Kolla kynnti hann fyrir fjölskyldunni heima á Sigló. Við vorum svo spennt og sögðum „þetta er maðurinn hennar Kollu“ og þau hafa verið saman síðan. Diddi var traustur og ljúfur alla tíð, hafði gott skopskyn, elskaði góðan mat og góðar tertur. Hann elskaði reykt svínarif og var farinn að hlakka til þess að Þorkell minn byði sér í reykt rif í sumar. Við fjölskyldan höfum oft verið saman og það verður því skrýtið að hafa engan Didda að þessu sinni. Við munum sakna þín mikið elsku Diddi. Hann var alltaf stoltur af því að vera ættaður úr Höfnum á Suðurnesjum og hann mátti það, enda öðlingur. Við trúum því að besta fólkið taki á móti þér í sumarlandinu. Takk fyrir allt elsku Diddi. Kveðja frá fjölskyldunni.

Jóna Þorkelsdóttir.