Baráttukona Sigurrós Þorgrímsdóttir hefur ritað sögu Katrínar Pálsdóttur, sem barðist fyrir réttinum mæðra og var formaður Mæðrafélagsins.
Baráttukona Sigurrós Þorgrímsdóttir hefur ritað sögu Katrínar Pálsdóttur, sem barðist fyrir réttinum mæðra og var formaður Mæðrafélagsins. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Barátta fyrir bættum aðbúnaði og fæði Barátta Mæðrafélagsins fyrir betri aðbúnaði barna var ekki síður mikilvægur þáttur í þeirra störfum en réttindabarátta fyrir mæður. Fylgdist félagið náið með aðbúnaði barna allt frá leikskólaaldri til unglingsáranna

Barátta fyrir bættum aðbúnaði og fæði

Barátta Mæðrafélagsins fyrir betri aðbúnaði barna var ekki síður mikilvægur þáttur í þeirra störfum en réttindabarátta fyrir mæður. Fylgdist félagið náið með aðbúnaði barna allt frá leikskólaaldri til unglingsáranna. Börn efnalítilla foreldra og einstæðra mæðra voru þó ætíð í forgangi í þeirra huga. Á fundi Mæðrafélagsins þann 26. október 1944 sagði formaðurinn, Katrín Pálsdóttir, að þrátt fyrir að verkefni félagsins væru fyrst og fremst að vinna að réttarbótum fyrir konur og börn, yrði jafnframt að gera kröfur um bætt húsnæði, því fjöldi fólks byggi í heilsuspillandi íbúðum. Venjulegast væri það fátækt barnafólk sem lenti í dimmum og rakaskemmdum kjallaraíbúðum. Jafnframt vakti hún athygli á því að nauðsynlegt væri fyrir mæður og húsmæður að fylgjast vel með í öllu sem til bóta og framfara horfði á sviði manneldismála: „Nú á tímum kæmi margt fram í þeim efnum sem var áður algjörlega óþekkt,“ sagði Katrín á stjórnarfundi. Benti hún á, máli sínu til stuðnings, að dr. Níels Dungal, prófessor, hefði sýnt í skýrum dráttum þau áhrif sem rýrt mataræði hefði á heilsufar fólks og hversu mikil nauðsyn væri á að geta fengið betri mjólk heldur en nú væri kostur á.

Katrín var þó stöðugt að minna fundarkonur á að megintilgangur félagsins væri að berjast gegn fátækt. Taldi hún að konur yrðu að standa þétt saman í baráttunni um að fá hækkaðan framfærslustyrk handa fátæklingunum. Hækkun á styrknum væri eina úrræðið til þess að fólk gæti haft efni á því að hafa hollara og betra fæði handa börnum sínum.

Mæðrafélagið hafði allt frá stofnun þrýst á bæjaryfirvöld að huga að matargjöfum í skólum fyrir börn eins og sjá má á fundargerð félagsins frá því febrúar árið 1938. Á þeim fundi var samþykkt að senda eftirfarandi áskorun til bæjaryfirvalda um mjólkurgjafir. „Fundurinn skorar á bæjarstjórn Reykjavíkur að gera nú þegar ráðstafanir til mjólkurgjafa til fátækra barnaheimila í Reykjavík með fjárveitingu úr bæjarsjóði og leiti til ríkissjóðs í þessu skyni.“ Jafnframt var samþykkt að Katrín Pálsdóttir, ásamt stjórnarkonunum Lilju Bjarnadóttur og Sigríði Eyjólfsdóttur, skrifuðu greinargerð með mjólkurmálinu til framfærslunefndar.

Árið 1945 taldi stjórnin einnig nauðsynlegt að börn fengju nægjanlegt feitmeti á uppvaxtarárunum og skoruðu á bæjarstjórn Reykjavíkur að láta þá þegar byrja á lýsisgjöfum í barnaskólunum.

Þremur árum síðar eða í nóvember 1948 voru samþykktar í bæjarstjórn reglur um lýsisgjafir í skólum þar sem þetta kemur m.a. fram: „Öll börn í barnaskólum bæjarins eiga að taka lýsi þar, nema þau, sem að dómi skólalæknis þola það ekki, enda hafi þau um það vottorð heimilislæknis.“

Katrín og aðrar konur í stjórn Mæðrafélagsins voru mjög sáttar við þessa niðurstöðu og þó svo það hafi tekið nokkur ár að koma henni í framkvæmd, þá var markmiðinu náð og nú fengu öll börn í barnaskólum Reykjavíkur lýsi. Eftir þessa samþykkt bæjarstjórnar gengu skólahjúkrunarfræðingar milli bekkja með lýsiskönnu og helltu upp í börnin. Ekki voru öll börn sátt við að fá lýsið en ekkert þýddi að kvarta, lýsið skyldu þau fá.

Katrín var nokkuð á undan sinni samtíð varðandi matargjafir í skólum eins og sjá má á tillögu sem hún lagði fram á fundi félagsins 9. nóvember 1950. Þá lagði hún það til að börn fengju ekki aðeins mjólk og lýsi í skólum heldur einnig mat ef þau væru í skóla yfir matmálstíma. Þessi hugmynd Katrínar og Mæðrafélagsins, um að börn fengju mat í skólanum, varð þó ekki að veruleika fyrr en rúmum þremur áratugum síðar. Haustið 1982 var ákveðið að gera tilraun með skólamáltíðir í fjórum skólum í Reykjavík þá um veturinn, en skólamáltíðir höfðu verið til umræðu hjá fræðsluráði og borgaryfirvöldum um margra ára skeið. Máltíðir þær sem hér um ræðir eru kaldar máltíðir, einkum mjólkurmatur ýmiss konar, brauð, álegg og ávextir. Skólarnir sem byrjuðu á að bjóða nemendum upp á máltíðir í hádeginu voru valdir með tilliti til stærðar skólanna, húsnæðis og annarrar aðstöðu, auk aldursskiptingar nemenda. Þessir skólar voru Austurbæjarskólinn, Laugalækjarskóli, Langholtsskóli og Seljaskóli.

Átta árum síðar eða árið 2000 birtist frétt í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni „Heitar máltíðir í alla grunnskóla“. Þar segir m.a.: „Samþykkt var í Fræðsluráði Reykjavíkur að öllum einsetnum grunnskólum Reykjavíkur verði gert kleift að bjóða upp á heitar og kaldar máltíðir frá og með 1. september árið 2000 í fyrsta til fjórða bekk og stefnt er að því að haustið 2002 verði allir grunnskólar í Reykjavík með skólamáltíðir í þessum bekkjum.

Skólamáltíðirnar verða teknar upp í áföngum. Síðan mun þetta færast upp í efri bekki eftir því sem unnt er.“

Í fréttinni kemur einnig fram að veturinn 1999 voru heitar skólamáltíðir þegar komnar í um 15% skóla á höfuðborgarsvæðinu. Mæðrafélagið var jafnframt stöðugt að þrýsta á yfirvöld að stórauka innflutning á grænmeti og ávöxtum en lítið sem ekkert var flutt inn til landsins af þessari matvöru á þessum árum vegna innflutningshafta. Stóðu þær, ásamt öðrum kvenfélögum í Reykjavík, fyrir opnum fundum þar sem m.a. var rætt um skömmtunarmál og fæði almennt. Kom fram á þessum fundum að læknar töldu mjög nauðsynlegt að auka innflutning á grænmeti og ávöxtum því að í þessum matvælum væru bráðnauðsynleg bætiefni. Meginverkefni fundanna var að þrýsta á stjórnvöld til að gera ráðstafanir til þess að fá slíkar vörur fluttar inn í landið sem fyrst. Í september 1954 mátti sjá auglýsingu í Morgunblaðinu sem sýndi að innflutningur á ávöxtum var þá enn lítill, en þar sagði m.a.: „Að sjálfsögðu koma þessir ávextir til landsins á misjöfnum tíma, en þar sem allar líkur eru á því að innflutningur á ávöxtum verði með minna móti á yfirstandandi ári, þá viljum vér benda viðskiptamönnum vorum á að senda okkur pantanir sínar hið fyrsta.“

Katrínu var mjög hugleikið hvað væri hagkvæmast fyrir húsmæður og hvernig þjóðfélagið gæti stutt þær með því að auðvelda þeim verkin. Í því sambandi lagði hún fram tillögu á fundi Mæðrafélagsins um að reynt yrði að breyta matmálstímum í Reykjavík þannig að aðalmáltíðir yrðu kl. 6 að kvöldi eftir vinnu. Meginrökin fyrir þessari tillögu voru þau að þetta fyrirkomulag væri hagkvæmara fyrir húsmæður. Nokkrar fundarkonur töldu aftur á móti mikilvægt að verkamenn fengju góða máltíð í hádeginu. Enn aðrar sögðu að verkamenn kæmust oft ekki heim í hádeginu svo aðalmáltíðin væri að kvöldi. Mikið var um þetta rætt og sitt sýndist hverri. Ekki var samstaða í félaginu um þessa tillögu Katrínar og því engin ályktun lögð fram. Þessi tillaga Katrínar og umræða um hana er sett hér fram til að sýna að konurnar í Mæðrafélaginu huguðu að öllum þáttum er snertu húsmæður og störf þeirra. Meira að segja reyndu þær að hafa afskipti af því hvenær aðalmáltíð fjölskyldunnar væri.

Tilvísunum er sleppt.