Veikleiki getur leitt til vopnaskaks

Eins og hér hefur áður verið fjallað um kallar ögrun Rússa við landamæri Eistlands og í Eystrasalti á viðbrögð. Rússar fjarlægðu í skjóli nætur baujur á ánni Narva, sem markar landamærin við Eistland. Nokkrum dögum áður höfðu þeir tilkynnt áform um stækkun landhelgi sinnar í Eystrasalti á kostnað Litháa og Finna. Skýringar á þessu tiltæki eru takmarkaðar en talsmaður þeirra hefur þó sagt að „stjórnmálalegar aðstæður hafi breyst mikið frá árinu 1985,“ en þá voru núverandi mörk sett. Varnarmálaráðuneytið rússneska bætir við að núverandi mörk „endurspegli ekki fyllilega núverandi landfræðilegar aðstæður.“

Þessi útþensla Rússa og yfirgangur er hluti af þeirri framgöngu sem rússnesk stjórnvöld hafa sýnt í rúman hálfan annan áratug. Þau láta reyna á mörkin, líkt og þau gerðu þegar þau tóku Krímskaga og hluta Georgíu, og fylgdu svo eftir með innrásinni í Úkraínu. Í því samhengi eru aðgerðirnar á Narva-ánni og jafnvel í Eystrasaltinu tiltölulega takmarkaðar, en hættan er vitaskuld sú að á meiru slíku sé von.

Ein af spurningunum sem vakna er hvort aðgerðir Rússa byggist á styrkleika landsins eða hvort þær eru í raun afleiðing veikleika sem rússnesk stjórnvöld reyna að breiða yfir.

Rússar hafa sýnt ákveðinn styrkleika, eða í það minnsta þrautseigju, í stríðinu gegn Úkraínu. Það byggist á nokkrum þáttum. Rússar eru mun fjölmennari og stjórnvöld þar í landi hafa sýnt að þau hika ekkert við að fórna miklum fjölda ungra manna á vígvellinum, nú síðast í innrásinni í norðri í átt að Karkív. Þetta skiptir miklu því að Rússland er mun fjölmennara en Úkraína og nú er mjög farið að saxast á þá sem eru á herþjónustualdri í Úkraínu.

Þessi seigla Rússa bliknar þó í samanburðinum við baráttuþrek Úkraínumanna sem hafa sýnt aðdáunarverða getu við óbærilegar aðstæður. En árangur Rússa, sem nú virðist hætta á að verði enn meiri, stafar einnig af því að innrásin í Úkraínu hefur dregið fram veikleika Vesturlanda, sem hafa iðulega verið of sein til í stuðningi við Úkraínu og í seinni tíð hefur litið út fyrir að það kunni að verða hetjunum þar að falli. Vissulega hefur mikið af vopnum farið til úkraínska hersins, en þó er staðan sú að Rússar hafa til að mynda að undanförnu getað skotið tíu sprengikúlum fyrir hverja eina sem Úkraínumenn hafa getað sent í gagnstæða átt. Þessi vandi stafar af því að Vesturlönd hafa sofið á verðinum og dregið allt of mikið úr hernaðargetunni. Jafnvel innrásin í Úkraínu hefur ekki dugað til að vopnaframleiðslan sé sett á fulla ferð.

Geta Rússa til að halda stríðsrekstrinum áfram stafar líka af því að efnahagsrefsingar Vesturlanda hafa skilað mun minni árangri en ætlað var. Ítrekað er hert upp á þessum aðgerðum, en ekkert dugar til. Ein ástæða þess er að Evrópa er enn allt of háð orku frá Rússlandi og einstaka lönd þar eru enn meðal helstu kaupenda á rússnesku gasi, þrátt fyrir að meira en tvö ár séu liðin frá innrásinni. Og verulega stefnubreytingu í orkumálum er ekki að sjá, sem veikir Evrópuríkin mjög.

Þá hefur ekki tekist að stöðva sjóflutninga með rússneska olíu, sem skýrist meðal annars af því að æ fleiri olíuflutningaskip eru skráð utan lögsögu Evrópu og Bandaríkjanna og hafa fengið tryggingar annars staðar, en talið var að stöðva mætti olíuflutninga Rússa með því að koma í veg fyrir að þeir gætu tryggt skip sín. Þetta skýrist af því að áður voru 95% skipa tryggð hjá vestrænum tryggingafélögum, aðallega í London, en nú er hlutfallið komið niður í tvö af hverjum þremur.

Geta Rússa til að halda áfram að selja olíu og gas hefur tryggt þeim tekjur og þrátt fyrir að gríðarlegum fjármunum sé sóað í stríðsreksturinn virðist efnahagsástandið furðugott, hagvöxtur ríkjandi og hallarekstur hins opinbera lítill.

Þessi árangur Rússa skýrist ekki síst af samvinnunni við Kínverja. Xi, forseti Kína, hefur staðið með Pútín, forseta Rússlands, frá því fyrir innrásina og tryggt honum sölu á gasi og olíu, auk þess að útvega margvíslegan tækja- og tæknibúnað sem nýst getur í hergagnaframleiðslu, þó sagt sé að engin vopnasala fari fram. Þá hefur bankaþjónusta færst til Kína og kínverska júanið er orðið þýðingarmikið fyrir Rússa, að ekki sé talað um margvíslegan neysluvarning.

Það að Rússum hafi tekist að halda sér á floti með aðstoð Kínverja er þó fjarri því til marks um styrk Rússlands. Þeir reyna að koma fram sem jafningjar, en staðreyndin er sú að Kínverjar hafa undirtökin. Þegar Xi og Pútín hittast er Xi sterki maðurinn því að hann getur gert stöðu Pútíns óbærilega með því að beita hann sömu aðgerðum og Vesturlönd hafa gert. En Xi hefur ekki áhuga á því. Hann sér Úkraínustríðið sem tækifæri fyrir Kínverja til að styrkja stöðu sína á alþjóðavettvangi og gera Rússland háð Kína.

Um leið og Vesturlönd verða að spyrna við fótum gagnvart yfirgangi Rússa og standa með Úkraínumönnum og öðrum sem þeir vilja undiroka, þurfa þau um leið að átta sig á að til lengri tíma litið getur ógnin verið meiri frá Kína ef Vesturlönd verða áfram værukær. Þessa má sjá merki víðar en í samskiptum Kína við Rússland, svo sem gagnvart Taívan og víðar í Asíu, en einnig á fjarlægari slóðum eins og í Afríku, þar sem Kínverjar hafa gert sig mjög gildandi, meðal annars sem vopnasalar og leiðbeinendur í hernaði. Allt er þetta mikið áhyggjuefni.