— AFP/Mohamud Omer
Óttast er að rúmlega 670 manns hafi farist á Papúa Nýju-Gíneu á föstudagsmorguninn þegar risastór skriða féll úr Mungalo-fjalli og lenti á þorpinu Yambali. Voru flestir íbúar þorpsins enn sofandi þegar skriðan féll

Óttast er að rúmlega 670 manns hafi farist á Papúa Nýju-Gíneu á föstudagsmorguninn þegar risastór skriða féll úr Mungalo-fjalli og lenti á þorpinu Yambali. Voru flestir íbúar þorpsins enn sofandi þegar skriðan féll. Leitað var að fólki á lífi alla helgina, en aðstæður voru sagðar mjög erfiðar fyrir björgunarsveitirnar, þar sem enn væri von á bæði aur- og grjótskriðum úr fjallinu. Serhan Aktoprak, fulltrúi Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna, sagði við AFP-fréttastofuna í gær að mjög blautt væri í veðri og því fylgdi gríðarleg áhætta fyrir björgunarfólkið.

Aktoprak sagði einnig að rúmlega 150 hús væru enn grafin undir aur og að flestir íbúa þeirra væru taldir af. Áætlað er að rúmlega 1.000 manns séu á vergangi vegna skriðunnar og er skortur á bæði mat og vatni.