Viggó Emil Bragason fæddist í Reykjavík 4. nóvember 1942. Hann lést á gjörgæsludeild Landspítalans í Fossvogi 15. maí 2024.

Foreldrar Viggós voru Bragi Agnarsson stýrimaður, f. 13. nóvember 1915 á Fremstagili í Langadal, Austur-Húnvatnssýslu, d. 17. mars 1999, og Steinunn Jónsdóttir húsfreyja, f. 19. júní 1916 á Hellissandi, d. 19. desember 1994. Systkini Viggós eru Erling Aðalsteinsson, f. 27. júní 1938, Brynjar Örn Bragason, f. 16. júlí 1944, Heiðar Þór Bragason, f. 14. júní 1947, d. 29. júní 2015, Hilmar Jón Bragason, f. 5. ágúst 1948, d. 24. september 2015, Íris Harpa Bragadóttir, f. 9. september 1950, og Agnes Guðrún Bragadóttir, f. 19. september 1952.

Árið 1969 kvæntist Viggó Auði Svandísi Ólafsdóttur, f. 3. desember 1946. Þau slitu samvistir 1973. Þau eignuðust tvö börn, þau eru: 1) Ólafur Orri Viggósson, f. 12. júlí 1969. 2) Vala Hrönn Viggósdóttir, f. 30. ágúst 1971, maki hennar er Fahad Falur Jabali, f. 14. júní 1963. Barn þeirra er Jakob Ketill Jabali, f. 23. júlí 2012. Árið 1977 kvæntist Viggó eftirlifandi eiginkonu sinni, Huldu Lilliendahl, f. 3. apríl 1958. Þau eignuðust tvö börn, þau eru: 1) Hildur Lilliendahl Viggósdóttir, gift Páli Hilmarssyni, f. 8. maí 1976, börn þeirra eru Sævar Ólafsson, f. 3. ágúst 2000, maki hans er Anna Sigríður Sigurðardóttir, f. 27. nóvember 2000, og Hrappur Birkir Pálsson, f. 14. júlí 2008. 2) Karl Lilliendahl Viggósson, f. 3. júlí 1984, kona hans er Dagný Jóhannesdóttir, f. 28. júlí 1986, börn þeirra eru Birgitta Líf Lilliendahl, f. 15. febrúar 2007, Aníta Karen Lilliendahl, f. 27. apríl 2009, og Jóhannes Emil Karlsson, f. 14. nóvember 2016.

Viggó ólst upp í Reykjavík og bjó lengst af hjá foreldrum sínum í Hólmgarði 35. Hann lauk loftskeytaprófi 1965, símritaraprófi 1967 og yfirsímritaraprófi 1969. Hann starfaði við sjómennsku 1958-1966, vann á Ritsímanum í Reykjavík 1966-1978, starfaði lengi hjá Andra hf. við umboðsverslun og útgerð og að lokum hjá Loftskeytastöðinni Gufunesi sem flugfjarskiptamaður til loka starfsævinnar. Viggó og Hulda bjuggu sér heimili í Blikahólum 12, fluttu þaðan í Þangbakka 10, því næst í Kóngsbakka 16 og að lokum í Vesturbrún 2.

Viggó verður jarðsunginn frá Bústaðakirkju í dag, 27. maí 2024, kl. 13.

Fyrir tæpum átta árum heimsótti ég pabba, einu sinni sem oftar. Hann var einn heima, mamma var að sóla sig á Spáni. Mér brá þegar ég sá hann, það voru fjölmörg kíló í viðbót farin frá því ég sá hann síðast og hann studdi sig við eitthvað í hverju skrefi. Við drukkum kaffi og ég minntist á að hann hefði horast. „Takk, elskan, það er mikið að einhver tekur eftir því,“ sagði hann. Alltaf fyndinn. Svo sagði hann mér að það væri útilokað að hann myndi lifa heilt ár í viðbót, hann væri saddur lífdaga og ætti ekki annað eftir en að fleygja sér ofan í gröfina. Þessu hafði hann svo sem hótað mestalla ævi mína en í þessu samtali var sleginn alvarlegri tónn en áður.

Um nóttina dreymdi mig að við værum saman í litlu fallegu húsi við strönd í hlýrri golu. Hann var kominn þangað til að deyja og ég var komin til að kveðja hann. Hann var sáttur og við vorum sátt. Ég eldaði mat og í salatinu voru blöð af japönsku áralíunni sem hefur prýtt heimili foreldra minna frá því ég fæddist. Svo fór að pabbi fékk fjöldamörg ár í viðbót með fólkinu sínu og ég fékk tækifæri til að vakna af þessum draumi um miðja nótt og skrifa honum bréf. Við lögðum okkur fram við það síðasta áratuginn að gera upp fortíðina, biðjast fyrirgefningar og sættast við hlutskipti okkar og hvort annað. Fyrir allt þetta þakka ég í dag.

Pabbi kenndi mér margt. Hann kenndi mér að trúa á réttlætið og að vera trú sannfæringu minni. Hann kenndi mér leiðir til að snúa á kapítalismann. Við borgum reikninga á eindaga, flettum upp í símaskrá frekar en að hringja í hana, dælum okkar eigin bensíni og svo framvegis. Aðferðirnar eru kannski sumar úreltar en grundvallarreglan situr eftir og hefur fyrir löngu skilað sér til minna barna. Umfram allt kenndi pabbi mér að það er ekki nauðsynlega ófyrirgefanlegt að gera hræðileg mistök en það er aldrei í lagi að fegra okkar hlut, víkjast undan eigin gjörðum eða heykjast á að biðja fólkið okkar fyrirgefningar. Það er sennilega það mikilvægasta sem ég hef lært, ekki bara af pabba, heldur í lífinu.

Pabbi og mamma áttu 46 ár saman í mótbyr og meðbyr. Þau komu börnum á legg og studdu með ráðum og dáð við okkur og börnin okkar og eins og þetta eru erfiðir og þungir dagar, þá held ég að þakklæti sé okkur öllum efst í huga.

Sofðu í sátt, elsku pabbi minn.

Þín

Hildur.