Afþreying Parísarhjólið gefur gott útsýni yfir höfnina og sjávarsíðuna.
Afþreying Parísarhjólið gefur gott útsýni yfir höfnina og sjávarsíðuna. — Teikning/Reykjavíkurborg
Parísarhjól sem á að rísa á Miðbakka í sumar er á leiðinni til landsins og mun rísa í byrjun júní ef allt gengur að óskum, sagði Kamma Thordarson, verkefnastjóri í atvinnu- og borgarþróunarteymi Reykjavíkurborgar, í samtali við Morgunblaðið

Parísarhjól sem á að rísa á Miðbakka í sumar er á leiðinni til landsins og mun rísa í byrjun júní ef allt gengur að óskum, sagði Kamma Thordarson, verkefnastjóri í atvinnu- og borgarþróunarteymi Reykjavíkurborgar, í samtali við Morgunblaðið.

Parísarhjólið á Miðbakka er tilraunaverkefni til eins sumars og er ein af nokkrum hugmyndum sem komu til eftir skýrslu sem var gerð um haftengda upplifun á vegum Reykjavíkurborgar. Á meðal þeirra hugmynda borgarinnar sem komu einnig fram var t.d. að sett yrðu upp fljótandi gufuböð, hugleiðsluhús og sjávarsundlaug í Reykjavík. Búist er við að auglýst verði eftir samstarfsaðilum í hin verkefnin síðar á árinu.

Í mars auglýsti Reykjavíkurborg eftir áhugasömum samstarfsaðilum til að reka parísarhjólið á Miðbakka í sumar. Borgin fékk fjórar umsóknir, sem er talsvert meira en búist var við, segir Kamma í samtali við Morgunblaðið. Fyrirtækið Taylor‘s Tivoli Iceland varð fyrir valinu.

Þá segir Kamma að viðbrögð borgarbúa hafi verið heilt yfir mjög góð. „Flestir eru ofboðslega spenntir og glaðir og fólki finnst þetta krúttlegt. Fólk hlakkar til að fara með börnin sín í þetta,“ segir Kamma.

Þó hafa íbúar á Bryggjugötu, Geirsgötu og Reykjastræti haft áhyggjur af látum og ónæði af starfseminni.

Brugðist verður við áhyggjum þeirra með hljóðmælingum meðan á tilraunaverkefninu stendur og verða niðurstöður af því teknar með í reikninginn þegar heildaráhrif verkefnisins verða metin í haust.