Smári Steingrímsson fæddist á Neskaupstað 25. nóvember 1956. Hann lést á Landspítalanum 9. maí 2024.

Foreldrar hans voru Salgerður Arnfinnsdóttir, f. 11. október 1937, og Steingrímur Hansen Hannesson, f. 25. október 1927, d. 8. sept. 1999. Systkini Smára: Sigurður, f. 2. júní 1958, Guðrún Kristín, f. 28. apríl 1966.

Fyrri eiginkona Smára var Ingibjörg Ragna Þengilsdóttir, f. 27. september 1957. Barn þeirra er Magnús Freyr, f. 3. ágúst 1978. Barnsmóðir Smára er Jóna Margrét Ólafsdóttir, f. 19. október 1969. Barn þeirra er Rúnar Steinn, f. 8. mars 1996. Seinni eiginkona Smára var Elona Stanislavsdóttir, f. 14. ágúst 1971.

Smári starfaði sem skurðlæknir lengst af á sjúkrahúsinu í Vestmannaeyjum en síðustu árin hjá Tryggingastofnun.

Smári verður jarðsunginn frá Fossvogskirkju í dag, 27. maí 2024, klukkan 13.

Elsku Smári, minn kæri vinur. Það var högg að heyra af sviplegu andláti þínu. Ég hafði hugleitt nokkru áður að fara að heyra aftur í þér en það verður að bíða betri tíma.

Við Smári kynntumst þegar hann var ráðinn skurðlæknir við Sjúkrahús Vestmannaeyja 1998 og unnum við náið saman við stofnunina, þar til hann lét af störfum við HSU 2013. Smári var stór maður á margan hátt, hann kom til dyranna eins og hann var klæddur og óhræddur talaði hann tæpitungulaust, þrátt fyrir að stuða marga með beinskeyttri framkomu sinni.

Samstarf okkar Smára var gott, stundum þurfti smá rekistefnu um verkefni en ég get fullyrt að hann var fær skurðlæknir og kunni vel til þeirra verka sem hann sinnti við fæðingarhjálpina í Vestmannaeyjum, það var vel hægt að treysta á hann og var það afturför í heilbrigðisþjónustu í Eyjum þegar hans þjónustu naut ekki lengur við.

Á milli okkar var góð tenging, hann var vinur minn, ég var vinkona hans og þegar inn að innstu rótum var komið var fyrir þessi hlýi og kærleiksríki maður sem vantaði þó hæfileikann til að eiga samskipti við fólk. Eitt sinn spurði mig skurðlæknir hvernig gengi með Smára í Eyjum. Ég svaraði að allt handbragð Smára væri til fyrirmyndar og vel gert það sem ég hefði þurft að fá aðstoð við, en það væri með hann eins og fleiri skurðlækna sem ég hefði kynnst að þeir væru ekki endilega góðir í mannlegum samskiptum. Hann glotti og skildi sneiðina, en sjálfur var hann einn af þeim sem ég vitnaði í.

Eftir að Smári fór frá Eyjum tengdi síminn okkur saman og við heyrðumst af og til, en horfandi til baka var það ekki nógu oft. Í þeim samtölum fann ég hvernig Smára leið, hann var gjarnan einmana, félagslega einangraður og hafði oft ekki burði til að hitta fólk. Hann hafði þó hundinn sinn Sabba, Rúnar, mömmu og Dittu systur í nálægð. Einar Jónsson, sem hér var heimilislæknir til margra ára, var einstakur vinur Smára og var oft gaman að heyra í þeim spjalla, eins og þeir væru búnir að vera hjón í áraraðir.

Ég mun sakna Smára og samtalanna okkar og bíð enn eftir að hann hringi.

Elsku Smári vinur minn, nú rofar til hjá þér og þú færð eilífa hvíld.

Fjölskyldu Smára sendi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur með þökk fyrir allt.

Drífa Björnsdóttir.

Mig langar að minnast í fáeinum orðum samstarfsfélaga, kollega og umfram allt góðs drengs sem óvænt er fallinn frá. Smári, sem var undanfarin sex ár mikilvægur hluti læknateymis Tryggingastofnunar, markaði með færni sinni og einstökum persónuleika djúp spor í huga okkar samstarfsmanna hans. Verkin báru næmu auga hans og hagri hendi vitni, og á það við um hvort sem er orðspor hans sem flinks skurðlæknis eða skapandi handverk heima við.

Smári kom svo sannarlega til dyranna eins og hann var klæddur. Um leið og afdráttarlaus hreinskilni og hispursleysi sem var honum eðlislæg yrði manni að upplyftingu er ljóst að það sem fyrir einum er græskulaust gaman verður öðrum að angri og ama. Smári var ekki sá flinkasti að varast sífellt stærri og langsóttari jarðsprengjusvæði leyfilegs talsmáta sem gat valdið honum hugarangri því engan vildi hann meiða. Eitt er víst að hann lífgaði svo sannarlega upp á tilveruna með frjóum huga og hlýlegri nærveru sinni sem margir okkar samstarfsmanna hans sakna.

Fyrir hönd samstarfsmanna Smára hjá Tryggingastofnun sendi ég einlægar samúðarkveðjur til sona hans, móður og annarra vandamanna og ekki má gleyma hundinum Sappa sem var aldrei langt undan þar sem Smári fór.

Ólafur Ó. Guðmundsson.

Smári Steingrímsson skurðlæknir er látinn. Hann þjónaði Vestmannaeyingum í mörg ár. Þegar þessar fréttir bárust vorum við nokkrar konur á kaffistofunni í vinnunni. Kom þá í ljós að allar höfðum við eða einhver í okkar fjölskyldu þegið þjónustu Smára og orðið gott af. Flestar voru sammála um að mannlegu samskiptin hans voru mjög sérstök. Hann hafði sprautað eina í bakið og hún vildi vita með framhaldið og spurði hvort hún ætti að slaka eða fara heim að baka og fékk svarið: „Þú ræður því.“ Önnur beið eftir að hálskirtlaaðgerð sonar hennar lyki og heyrði þá mikinn hávaða af skurðstofuganginum og vogaði sér að opna dyrnar og þar voru Smári og samstarfskona í dansi og söng. „Hvar er barnið mitt?“ spurði konan og fékk svarið að hann væri að jafna sig og vaknaði bráðum.

Smári fór ekki fram hjá neinum þegar hann var mættur á svæðið. Hár, myndarlegur og lá hátt rómur og hafði gaman af að ögra fólki, slá fram sturluðum staðreyndum eða spyrja skrýtinna spurninga.

Ég kynntist honum fyrst fyrir rúmum fjörutíu árum þegar hann var í læknadeildinni með manninum mínum. Leiðir lágu aftur saman á Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja.

Hann átti leðurjakka og frakka, mótorhjól og lítinn hund. Hann var listrænn, málaði fallegar myndir. Það var alltaf gaman að hitta Smára og er ég ein af þeim fjölmörgu sem nutu þjónustu hans sem skurðlæknis.

Fyrir mér er Smári fjögurra laufa og óskin er sú að hann rísi upp í eilífðinni með Drottni Jesú Kristi frelsara okkar.

Vera Björk.