Rektor Grundvallaratriði fyrir bændur að búa að sterkum landbúnaðarháskóla í nánum tengslum við alþjóðlegt umhverfi, segir Ragnheiður Inga.
Rektor Grundvallaratriði fyrir bændur að búa að sterkum landbúnaðarháskóla í nánum tengslum við alþjóðlegt umhverfi, segir Ragnheiður Inga. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Áherslan í námsframboði hér er bæði á hefðbundna framleiðslu í landbúnaði en ekki síður á umhverfisþætti og skipulagsmál. Í auknum mæli er augunum beint að nýjum lausnum sem eru líklegar til að ryðja sér til rúms í framtíðinni

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Áherslan í námsframboði hér er bæði á hefðbundna framleiðslu í landbúnaði en ekki síður á umhverfisþætti og skipulagsmál. Í auknum mæli er augunum beint að nýjum lausnum sem eru líklegar til að ryðja sér til rúms í framtíðinni. Tæknin í landbúnaðarframleiðslu breytist mjög hratt og einnig skapast mörg tækifæri til nýsköpunar og nýrra afurða,“ segir Ragnheiður Inga Þórarinsdóttir, rektor Landbúnaðarháskóla Íslands.

Á dögunum var ný stefna LbhÍ til næstu fjögurra ára kynnt. Að bjóða framsækið og spennandi nám og standa fyrir rannsóknum, nýsköpun og alþjóðlegu samstarfi eru tvö fyrstu atriði stefnunnar nýju. Hin eru að starfrækja skóla með traustum innviðum og hvetjandi starfsumhverfi og að starf skólans hafi jákvæð áhrif fyrir samfélagið og skili ávinningi til framtíðar.

Í núverandi mynd hefur LbhÍ verið starfræktur frá 2005 en væntanlega tengja flestir stofnunina við forvera hennar, bændaskólann sem stofnaður var 1889. Í dag er námsframboðið mun fjölbreyttara og þverfaglegra, en auk búfræði, búvísinda og hestafræði er LbhÍ með nám í umhverfisvísindum, skógfræði, endurheimt vistkerfa, landslagsarkitektúr og skipulagsfræði.

Samhliða hefur alþjóðlegt starf og rannsóknastarfsemi eflst og framhaldsnemum í meistara- og doktorsnámi fjölgað. Boðið er upp á tvær alþjóðlegar námsleiðir á meistarastigi, annars vegar í endurheimt vistkerfa og hins vegar í umhverfisbreytingum á norðurslóðum, sem var stofnuð árið 2020.

Gæðahringur umbóta

„Í nýrri stefnu okkar eru gæði kennslunnar sett í öndvegi. Áhersla er lögð á rekjanleika gagna, sem kemur meðal annars inn á gæðahringinn um stöðugar umbætur og þróun starfsins. Þátttaka starfsfólks og nemenda í gæðastarfinu er mikilvægur þáttur til að auka samtalið og gagnkvæman skilning á því sem má gera betur. Meiri áhersla er lögð á alþjóðlegt samstarf, samstarf við aðra háskóla og sókn í alþjóðlega samkeppnissjóði, og þá ekki síst sjóði Evrópusambandsins. Með því aukum við breidd starfsins, fáum til okkar þekkingu frá systurháskólum okkar erlendis og aðgang að mikilvægum innviðum. Þá er sýnileiki náttúruverndar, loftslagsmála og jafnréttismála aukinn,“ segir Ragnheiður sem hefur verið rektor frá ársbyrjun 2019 og var í byrjun þessa árs endurskipuð til næstu fimm ára, það er út árið 2028.

Landbúnaðarháskóli Íslands er í formlegu samstarfi átta evrópskra háskóla á sviði lífvísinda og landbúnaðar undir heitinu UNIgreen. Markmiðið er að efla samstarf á sviði kennslu, rannsókna og nýsköpunar. Eitt af þessu er að koma upp sameiginlegum námsleiðum. Má í þessu sambandi nefna að nýlega var undirritaður samningur milli fimm skóla í þessu samstarfi, LbhÍ þar á meðal, um sameiginlegt doktorsnám. Fyrir skömmu heimsóttu fulltrúar LbhÍ svo lífvísindaháskólann í Varsjá í Póllandi til að ræða tækifæri til samstarfs um dýralæknanám og skoða aðstöðuna sem boðið er upp á þar.

„Það er grundvallaratriði fyrir íslenskan landbúnað að búa að sterkum landbúnaðarháskóla sem er í nánum tengslum við alþjóðlegt umhverfi. Vöxtur með þátttöku í alþjóðlegum samstarfsverkefnum, uppbygging innviða með betri aðstöðu og nýjum tækjabúnaði og aukið samstarf til eflingar íslenskum landbúnaði. Þetta eru lykilaatriði fyrir okkur,“ segir rektor.

Jarðrækt og tilraunir

Bætt landnýting, jarðrækt og loftslagsmál eru hvarvetna ofarlega á baugi í dag. Í þessum efnum hefur LbhÍ komið til móts við kall tímans með því að bæta aðstöðu við höfuðstöðvar sínar á Hvanneyri í Borgarfirði fyrir kennslu og rannsóknir m.a. með nýjum rannsóknatækjum. Má þar nefna búnað til að mæla metanlosun frá kúm, mælitæki fyrir kolefnislosun og -bindingu á landi, bætta aðstöðu til reiðkennslu og tamninga á Mið-Fossum í Andakíl og aðstöðu til skordýraframleiðslu. Stærstu verkefnin fram undan á næstu misserum eru bygging jarðræktarmiðstöðvar og gróðurhúss á Hvanneyri og að koma upp aðstöðu til fóðrunartilrauna á tilraunabúinu á Hesti í Borgarfirði.

„Uppbygging aðstöðu til jarðræktar- og ylræktarrannsókna á Hvanneyri styður við skuldbindingar skólans á sviði rannsókna í ræktun og umhverfisvísindum,“ segir Ragnheiður Inga. „Uppbygging þessi er nauðsynleg til þess að svara vaxandi þörf fyrir aðstöðu til ýmissa rannsókna, m.a. til þróunar á kornyrki fyrir íslenskar aðstæður. Aðstaðan er afar mikilvæg til að auka gæði og uppskeru á byggi, höfrum og hveiti. Auka má framleiðslu í jarð- og ylrækt og fjölga afurðum. Með aukinni framleiðslu skapast grundvöllur fyrir fullvinnslu afurða, meðal annars með nýtingu hreinnar orku. Einnig að þróa vörur með meira virði, aukið geymsluþol og þar með skapa ný tækifæri til útflutnings. Til þess að ná þeim árangri sem að er stefnt þarf að tryggja grundvallarstoðir og styðja við menntun, tækniframfarir, rannsóknir og nýsköpun.“

Hæfni í hreinleika

Afkoma bænda hefur verið áberandi í umræðunni á undanförnum árum og hefur ungt fólk í greininni þar verið áberandi. Ragnheiður segir að hvað sem líði stöðu bænda á Íslandi þá séu sömu efni einnig í deiglunni í mörgum nágrannalöndum okkar. Búum sé að fækka og þau sem eftir eru séu stækkuð með tækni- og sjálfvirknivæðingu.

„Samkeppnishæfni Íslands liggur fyrst og fremst í hreinni orku, hreinu vatni og hreinu landi. Launakostnaður hér er hár og því nauðsyn að innleiða aukna sjálfvirkni og bætta framleiðsluferla. Auk þess liggja ný tækifæri í samstarfi á sviði lífvísinda. Með því að sameina þessar greinar með tæknigreinum og frumframleiðendum landbúnaðar í þverfaglegum verkefnum verða til ný verðmæt tækifæri,“ segir Ragnheiður Inga að síðustu.

Hver er hún

Ragnheiður Inga Þórarinsdóttir er fædd árið 1968. Hún er verkfræðingur að mennt og hefur sinnt margvíslegum störfum á sviðum umhverfismála, nýsköpunar og rannsókna. Er með doktorspróf frá Danska Tækniháskólanum og MBA-próf frá Háskóla Íslands.

Hefur komið að margvíslegu háskólastarfi og starfað að orkumálum. Hefur gegnt ýmsum stjórnar- og nefndarstörfum, m.a. fyrir Rannís, Háskóla Íslands, Matís, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Evrópusambandið og Norska rannsóknaráðið. Rektor LbhÍ frá 2019.