Erlingur Kr. Ævarr Jónsson fæddist í Reykjavík 20. október 1932. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Ljósheimum 14. maí 2024.

Foreldrar hans voru Jón Erlingsson, f. 1908, d. 1941, og Gróa Jakobína Jakobsdóttir, f. 1913, d. 2000.

Erlingur ólst upp í Vatnagarði á Eyrarbakka hjá móður sinni og fósturföður, Steini Einarssyni, f. 1914, d. 1986.

Alsystkini Erlings eru: Gissur Ævarr, f. 1931, d. 2018; Sigurbjörn Ævarr, f. 1934, d. 2014; Anna Ester Ævarr, f. 1936, d. 2024.

Hálfsystkini sammæðra: Halldóra Kristín Ævarr Steinsdóttir, f. 1939; Skúli Ævarr Steinsson, f. 1941; Ingibjörg Ævarr Steinsdóttir, f. 1953. Uppeldissystkini: María J. Steinsdóttir, f. 1944; Jón B. Sveinsson, f. 1945, d. 2023; Matthías Bergsson, f. 1949; Gróa S. Ævarr Sigurbjörnsdóttir, f. 1955.

Hinn 17. júní 1967 giftist Erlingur eftirlifandi eiginkonu sinni, Sigríði Dagnýju Ólafsdóttur frá Þorvaldseyri, f. 23.9. 1939. Börn þeirra eru: 1) Gróa Steina Ævarr, f. 1963. Eiginmaður hennar er Hjörleifur Brynjólfsson, f. 1958. Börn þeirra: a) Brynjólfur, f. 1984. Eiginkona hans er Steinunn Pálmadóttir. Synir þeirra: Hjörleifur og Hrafnkell. b) Erlingur Kr. Ævarr, f. 1988. c) Ingibjörg, f. 1996. Sambýlismaður hennar er Atli Ingólfsson. 2) Jenný Dagbjört Ævarr, f. 1964. Eiginmaður hennar er Sveinn Steinarsson, f. 1964. Börn þeirra: a) Þorbjörg Auður Ævarr, f. 1980. Sambýlismaður hennar er Daníel Jónsson. Börn Þorbjargar og Jóns S. Þórarinssonar eru Kári Hersir og Kolfinna Salka. b) Steinar Sveinsson, f. 24.8. 1988. 3) Jón Ævarr, f. 1973. Sambýliskona hans er Hafdís Steinþórsdóttir. Sonur Jóns og Dagnýjar Jóhannsdóttur er a) Dagur Ævarr, f. 2000. Börn Jóns og Guðnýjar Sveinlaugsdóttur eru b) Erlingur Ævarr, f. 2006, og c) Fríða Björk, f. 2009. Fyrir átti Erlingur Svanhildi, f. 1954. Börn hennar eru: 1) Helga Heiða Helgadóttir, f. 1971. Eiginmaður hennar er Magnús Yngvason. Synir þeirra: a) Egill Örn, sambýliskona hans er Taiane Abreu. b) Atli Már, eiginkona hans er Signý Ósk Snorradóttir, börn þeirra eru Ari Örn og Ellý Ósk. c) Yngvi Jóhann. d) Helgi Aron. 2) Eva Björg Jónasdóttir, f. 1973. Dóttir hennar og Ólafs Ólafssonar er Karen Ósk. Sambýlismaður hennar er Hlynur Arngrímsson. Börn þeirra eru: Embla Hlín, Emilía Dís, f. og d. 2022, og Elvar Máni. 3) Jónas Ævarr Jónasson, f. 1985. Sambýliskona hans er Linda Berry. Dóttir Jónasar og Karenar Markar er Svanhildur Mörk.

Erlingur fór til sjós 16 ára og reri á bátum frá Eyrarbakka og Þorlákshöfn uns hann hóf nám og störf í leirkerasmíði hjá Guðmundi Einarssyni í Listvinahúsinu um fjögurra ára skeið en hélt svo aftur til sjós. Árið 1963 hefja þau Sigríður búskap í Nýjabæ á Eyrarbakka til 1970 er þau flytja til Þorlákshafnar og byggja sér hús við Kléberg 5.

Erlingur stundaði sjómennsku og útgerð til ársins 2006 er hann hætti eftir farsælan sjómannsferil. Erlingur var listrænn og eftir hann liggja, svo eitthvað sé nefnt, leirmunir, fjöldi vatnslitamynda og tvö listaverk úr stáli við fjöruborðið í Þorlákshöfn.

Útför Erlings Ævars fer fram frá Þorlákskirkju í dag, 27. maí 2024, kl. 14.

Englar Guðs þér yfir vaki og verndi pabba minn

vegir okkar skiljast núna, við sjáumst ekki um sinn.

En minning þín hún lifir í hjörtum hér

því hamingjuna áttum við með þér.

Þökkum kærleika og elsku, þökkum virðingu og trú

þökkum allt sem af þér gafstu, okkar ástir áttir þú.

Því viðmót þitt svo glaðlegt var og góðleg var þín lund

og gaman var að koma á þinn fund.

Með englum Guðs nú leikur þú og lítur okkar til

nú laus úr viðjum þjáninga, að fara það ég skil.

Og þegar geislar sólar um gluggann skína inn

þá gleður okkur minning þín, elsku pabbi minn.

Vertu góðum Guði falinn er hverfur þú á braut

gleði og gæfa okkur fylgdi með þig sem förunaut.

Og ferðirnar sem förum við um landið út og inn

er fjarsjóðurinn okkar pabbi minn.

(Guðrún Sigurbjörnsdóttir)

Hvíl í friði elsku pabbi minn.

Svanhildur Norðfjörð Erlingsdóttir.

Þegar kemur að því að kveðja Erling Ævar, minn kæra tengdaföður, koma upp fjölmargar góðar minningar. Ég tengdist Erlingi og fjölskyldu ungur að árum þegar við Jenný fórum að stinga okkur saman og hef svo sannarlega notið þess að eiga hann að í leik og starfi. Ég fór ungur til sjós og reri með Erlingi þar sem hann var skipstjóri og eftirminnilegt er þegar við vorum saman á Ögmundi, einum af Meitilsbátunum, sem hafði verið í vanhirðu en til stóð að senda bátinn á síldveiðar. Það höfðu nú ekki margir trú á því að það gæti gengið en stutt frá sagt gekk okkur báta best að klára kvótann og vafðist ekkert fyrir Erlingi að finna síldina og veiða og var vertíðin stutt og snaggaraleg og lýsandi fyrir skipstjórann Erling. Það er líka minnisstætt frá þessari vertíð að Elli dundaði sér við að skera út andlit í alla pípuhausa sem hann komst yfir um borð en á þessum árum reyktu alvörusjóarar gjarnan pípu. Þarna sá maður og auðvitað síðar hvað Erlingur hafði mikla þörf fyrir listsköpun og hvað hún gerði mikið fyrir hann.

Lífsstarf Erlings varð sjómennska frá 16 ára aldri og því upplifði hann ótrúlegar framfarir og breytingar. Bátarnir voru til að byrja með litlir og vanbúnir og víðast hvar verið að róa við hálfgerða hafnleysu. Það var því fróðlegt og dýrmætt að heyra hann lýsa þessum tímum og framförunum.

Við Erlingur rerum um áratuga skeið samskipa, hann á Eyrúnu og ég á Gulltopp, og stunduðum við ýmist neta- eða humarveiðar, mikið róið og ekkert gefið eftir. Það var gaman að fylgjast með tengdapabba þegar hann var á sínum uppáhaldsnetamiðum utan við Eyrarbakka. Hann þekkti fjöruna manna best og var ekkert að horfa á nýmóðins siglingatækin þegar hann lagði út netin. Frekar studdist hann við landmið sem hann gjörþekkti og við húsin á Eyrarbakka þegar þau bar hvert í annað eða þegar þau bar í rótina eða öxlina á Ingólfsfjalli.

Það eru líka góðar minningar frá humarvertíðum úti við Súlnasker og Skötuhrygg en þar var hann á uppáhaldshumarmiðunum sínum. Erlingur var sífellt að leita fyrir sér á miðunum, stækka bleyðurnar sem hann kortlagði af mikilli nákvæmni í bleyðubókina sína, sem var listaverki líkust.

Það eru líka fjölmargar góðar fjölskylduminningar sem koma upp í hugann, ferðalög og frábærar veiðiferðir og þar var minn maður nú ekkert að gefast upp, kom gjarnan manna síðastur í hús þótt elstur væri, sem var reyndar lýsandi fyrir seigluna og hvað hann undi sér vel í því sem hann var að gera.

Það var afar gaman að sjá hvað hann gaf sig mikið því að mála og að sinna leirkerasmíðinni síðustu árin og yndislegt hvað hann naut þess að mála eftir að hann fór á Ljósheima og njóta afkomendur og fleiri dugnaðar hans og listar.

Erlingur naut þess að eiga góða að eftir að heilsu fór að hraka og hefur elskuleg tengdamóðir mín staðið í stafni eins og sönn hetja.

Að leiðarlokum vil ég segja takk fyrir allt ferðalagið elsku tengdapabbi.

Sveinn Steinarsson.

Klébergið hjá ömmu Siggu og afa Ella var alltaf eins og annað heimili mitt. Verandi vægast sagt óplanað barn, mamma og pabbi bara 16 ára þegar þau eignuðust mig, naut ég þess að eiga bæði unga foreldra og unga ömmu og afa. Á Kléberginu leið mér alltaf eins og heima hjá mér, þurfti aldrei að gera boð á undan mér og í raun alltaf eins og það væri búist við manni: hurðin ólæst, tifandi gólfklukkan, Gufan og allar fréttirnar, normalbrauðið með miklu smjöri og hlýr faðmur ömmu og afa.

Afi Elli gat einhvern veginn allt, kunni flest og nennti öllu, þar með talið að lesa Tinnabækurnar, Palla og Togga og Lukku-Láka fyrir mig, teikna og föndra. Svo var það allt brasið sem annaðhvort honum, Nonna frænda eða okkur barnabörnunum datt í hug í engri sérstakri tímaröð. Dúfnakofinn og sílatjörnin í móanum fyrir aftan Klébergið, kassabíllinn með dúkkuvagnsdekkjunum, kókómjólkin og allt hitt! Þessi listaflottu leikföng auk allra hinna verkanna hans eru til vitnis um að hann var í raun listamaður í sjómannsgalla.

Eitt af því sem stendur upp úr í æskuminningunum er hversu gaman það var að fara með afa í torfærur á pikkanum. Ég hef verið á bilinu 5-7 ára og oft endaði það þannig að hann fór með mig og Billa frænda eða vini mína á rúntinn niður í Skötubótina í Þorlákshöfn. Afi setti þá í háa drifið og keyrði upp í sandhólana og lék torfærukúnstir. Afi var á þessum tíma rétt rúmlega fimmtugur og þótti vinum mínum hann ekki beint afalegur heldur eitursvalur og skemmtilegur með eindæmum. Við nutum þess líka óspart hversu örlátur hann var á frostpinna og fjármögnun Frallaferða, slíkum beiðnum var sjaldnast neitað.

Ég naut þess heldur betur að vera barnabarn ömmu og afa og litla frænka Nonna frænda og rek ég eina uppáhaldsminningu mína til þess þegar afi fór með mig og Nonna niður að Þorlákshafnarvita þar sem sjór safnaðist í rofabarðaskurðum fyrir innan vitann. Með í ferð var splunkunýr uppblásinn bátur með árum sem var sjósettur þarna og við Nonni um borð.

Þegar kom að því að fara að vinna sem unglingur valdi ég að fara að vinna í Humarvinnslunni frekar en að fara í unglingavinnuna heima í Grafarvoginum og bjó því hjá ömmu og afa á Kléberginu þessi sumur. Þau pössuðu vel upp á stelpuna sína og stjönuðu við mig, sóttu, skutluðu, græjuðu og gerðu og afi hafði gaman af því að fylgjast með þessu unglingaveika barnabarni sínu þroskast og stækka. Þegar ég fór að mála mig þá sýndi hann því gamansaman áhuga og sá samlíkingu með skyggingu í málverkum sínum og þessum æfingum mínum með augnskugga. Afi sá líka til þess að ég færi hjá mér ef það hringdi einhver piltur heim á Klébergið og spyrði eftir mér enda þurfti maður að sitja í stofunni og taka símann þar fyrir framan allt heimilisfólkið.

Það kom alveg sérstakur ljómi og blik í auga hjá afa þegar við barnabörnin og seinna barnabarnabörnin komu til og finnst mér ég alltaf fundið hversu stoltur hann var af okkur öllum. Mikið erum við heppin og ég þakklát fyrir afa minn.

Þorbjörg Auður
Ævarr Sveinsdóttir.

Elsku afi sem var fyrir mér eins og ofurmenni, hvort sem það var endalaus áfylling af trúðaísum, torfærur á pikkanum, að horfa með honum á ruglað box á Sýn eða ofursvala sundlaugin sem hann steypti sjálfur á Kléberginu. Skilyrðislausa ástin sem alltaf mætti manni sama hvað maður gerði af sér, alltaf stóð hann með manni. Bestu gjafir veraldar, bátar og torfærubílar sem hann smíðaði handa mér. Flottari en orginal. Hann vann ötullega að því að gera mig sem smá peyja að aflakló og kenndi mér ansi margt um veiði, meðal annars að binda veiðihnút, beita kola og hrækja upp í marhnútana áður en þeim var sleppt svo þeir myndu ekki kjafta frá og skemma veiðina. Í einni af mörgum veiðiferðum niður á bryggju veiddum við lax. Það eru svo ótal margar minningar sem koma upp í hugann og væri endalaut hægt að telja. Það voru forréttindi að eiga þig sem afa og þú munt lifa að eilífu í minningum mínum.

Steinar Sveinsson.

Í dag kveðjum við afa og fylgjum honum síðasta spölinn. Afi er ekki aðeins ein af fyrirmyndunum í mínu lífi heldur jafnframt besti maður sem ég hef kynnst. Hann vildi allt fyrir alla gera.

Fyrstu minningarnar af afa eru tengdar ís. Hvort sem hann var að koma í heimsókn á kvöldin færandi hendi með ís eftir að hafa verið á sjónum eða allar heimsóknirnar á Klébergið þar sem ganga mátti að því vísu að nóg væri til af trúðaís í frystikistunni öllum stundum.

Með hækkandi aldri færðust svo gjafirnar frá óhóflegu ísmagni í heimasmíðaða torfærubíla og báta þar sem hugað var að hverju smáatriði svo það taldist frekar til listaverka en leikfanga. Reglulega þurfti svo að laga dótið eftir ýmis óhöpp og var þá oftar en ekki einhverjum nýjungum bætt við til að gera hlutina enn betri en áður. Veiðiferðir og torfærur á pikkanum voru vinsælar sömuleiðis.

Það að vegalengdin til ykkar ömmu á Klébergið hafi ekki verið löng kom sér oft vel, hvort sem maturinn heima þótti ekki nógu spennandi, vilja kíkja í heimsókn eða til þess eins að geta fengið að horfa á Stöð 2 sem var ekki í boði heima. Einhverjar helgar vöktum við svo líka eftir boxinu á Sýn. Það var reyndar horft á það ruglað þar sem áskriftina vantaði en afi var merkilega góður að horfa framhjá því. Á Kléberginu sá amma svo um að aldrei væri neinn svangur og afi að lauma smápeningum í vasann áður en haldið var heim.

Það má segja að ég, og við öll, höfum lifað við algjörar allsnægtir að vera í kringum ykkur ömmu. Nei hefur aldrei verið til í orðabókinni og núna í seinni tíð þegar litið er til baka sést betur að það sem þið gerðuð og létuð eftir mér og öðrum var oft meira en góðu hófi gegnir.

Núna á seinni árum áttum við svo marga góða tíma saman í veiðarfærahúsinu þar sem þú eyddir nær öllum þínum stundum í að mála, búa eitthvað til eða huga að Moskvitch-bílunum og gamla Ford. Veiðarfærahúsið var eins og vel smurð verksmiðja þar sem hvert listaverkið á fætur öðru rann af færibandinu sem fjölskyldan fékk svo að njóta. Í lokin fluttist verksmiðjan á Ljósheima þar sem afköstin héldu áfram svo enn fleiri nutu góðs af.

Eins áttum við góða tíma saman í veiðiferðum, en þú varst oftar en ekki búinn að kortleggja bestu veiðistaðina og voru aflabrögðin eftir því. Það sama átti við um sjóinn en þegar mig vantaði upplýsingar fyrir sjóstangveiði þá var eitt af fyrstu verkunum að fá hjá þér hnit og aðrar upplýsingar en eftir öll árin á sjónum þekktir þú miðin upp á 10 og varst ekki lengi að rissa upp bæjarbrúnina og fræða mig um staðina í kring þar sem best væri að vera.

Það hafa verið algjör forréttindi að fá að fylgja þér öll þessi ár. Elsku afi, takk fyrir allt.

Kveðja, nafni,

Erlingur Kr. Ævarr.

Þar sem englarnir syngja sefur þú

sefur í djúpinu væra.

Við hin sem lifum, lifum í trú

að ljósið bjarta skæra

veki þig með sól að morgni.

(Bubbi Morthens)

Að lifa er að elska,

og sá sem einhver elskar getur aldrei dáið.

(Gunnar Dal)

Elsku bróðir minn.

Það er alltaf sárt að kveðja jafnvel þó hugur og hönd séu að þrotum komin og löng og farsæl ævi sé að baki, hátt í heil öld. En alltaf jafn gaman og nærandi að heimsækja þig og dásamlegt að sjá þig mála allt fram á síðustu daga, liggjandi í rúminu þínu og hvert fallega málverkið þitt á fætur öðru leit dagsins ljós.

Ég mun minnast þín, sérstaklega er ég horfi á málverkið hér á veggnum, bátar að sigla frá bryggju, sem þú gafst okkur í einni heimsókninni til þín sl. haust. Einnig styttan af sjómanninum, sem þú gerðir fyrir nokkrum árum og gafst okkur, varst lærður leirkerasmiður, en fyrst og síðast varstu sjómaður af Guðs náð, útgerðarmaður og vinsæll skipstjóri.

Þá var yndislegt að fara með þér í skúrinn þinn og sjá þín fallegu listaverk hvort heldur voru málverk eða hinar ýmsu styttur úr leir. Eitt stærsta listaverkið eftir þig seinni ár er skipið sem stendur við fjöruborð Þorlákshafnar og voru gerð skil bæði í blöðum og sjónvarpinu.

Já allt sem þú komst nálægt með þínum huga og höndum bar þér fagurt vitni. Þá var heimili ykkar Döggu, jafnt að innan sem utan, garðurinn, en um allt þetta voruð þið hjónin samhent um að fegra og gera sem best og snyrtilegast úr garði.

Það er ómetanlegt að hafa fengið að alast upp með ykkur bræðrum mínum sitt hvorum megin við æskuheimilið okkar Vatnagarð og fá að fylgjast með og taka þátt í lífi barna ykkar frá fyrstu dögum þeirra.

Þó 50 ár séu á milli okkar var alla tíð djúp vinátta og kærleikur á milli okkar og sérstök virðing sem ég bar fyrir þér. Þitt prúða fas, gleði og góð lund var þitt aðalsmerki alla tíð og þú flanaðir ekki að neinu og gerðir lítið úr.

Ég mun geyma í hjarta mínu hvernig þú ávallt heilsaðir mér bæði er við hittumst og í símtölum, og það er svo stutt síðan síðast: „Nei, sæl væna mín, ert þetta þú?“

Elsku Dagga mín og þið öll, megi allir góðir vættir vaka yfir ykkur lýsa og leiða, minnug þess að minningin lifir í hjörtum okkar allra.

Komið er nú að kveðjustund

kæri vinur, þín er sárt saknað.

Tekinn frá okkur á feðranna fund,

farinn, tíminn einn sárin fær læknað.

Í huga mínum þú vera skalt,

að eilífu bróðir, takk fyrir allt.

(Sigurður Elís Rögnvaldsson)

Sofðu rótt elsku Elli minn og takk fyrir að vera bróðir minn.

Þín systir,

Ingibjörg Ævarr.

Fyrstu kynni mín af Erlingi Ævari voru af listaverki hans. Árið 1960 hafði áhöfnin á Faxa ÁR 25 aðstöðu (verbúð) á Agötu 14 og á einum veggnum hékk fallegt málverk af Faxa, þar sem hann sigldi krappan sjó. Höfundur málverksins var Elli sem á þeim tíma var kokkur á Faxa.

Í þessu verki kristallast þeir þræðir sem áttu eftir að vera meginstef í ævistarfi Ella, aflasæll skipstjóri sem sótti sjóinn af kappi og skapandi listamaður.

Elli var gæddur listrænum hæfileikum og hafði lært leirkerasmíði hjá Guðmundi frá Miðdal.

En honum fannst listmannabrautin ekki ein sér fýsileg til að lifa á og því ákvað hann að setjast í Stýrimannaskólann og sækja sér skipstjórnarréttindi. Og frá lúkarskokknum lá leið hans upp í brú á bátum Meitilsins. Elli skipaði sér fljótt í hóp fengsælustu skipstjóra í Þorlákshöfn og var oftar en ekki aflahæstur.

Ég átti þess kost að róa með Ella á netum og trolli. Skipstjórastíll Ella var ólíkur en hjá öðrum; hjá honum fléttaðist saman listamaðurinn og veiðimaðurinn. Það birtist m.a. í því er hann var að láta trollið fara eða leggja netin að þá kom leirkerasmiðurinn fram sem tók aukahringi til að fullkomna lögnina og útkoman birtist í bunkuðum netum af þorski eða fullum poka af humri.

Bleyðubókin hans var einstakt listaverk, þar dró hann ekki aðeins upp togslóðina, heldur einnig mið í landi; fjöllin, árósa og önnur kennileiti.

Þar kom að Elli ákvað að hefja eigin útgerð, festi kaup á bát sem fékk nafnið Eyrún ÁR 66.

Bátum með því nafni og skráningarnúmeri var hann skipstjóri á og gerði út í áratugi. Sú útgerð var farsæl og var ávallt eftirsótt að vera með Ella.

Leiðir okkar Ella lágu oft saman í gegnum árin og fyrir um tuttugu árum skapaðist ný tenging, því amma Gunnhildar tengdadóttur okkar; Laufey „amman í Grjótaþorpinu“, var systir Gróu móður Ella.

Elli var myndarmaður, prúður í framkomu, ávallt vel til fara og bar með sér góðan þokka.

Eiginkona Ella var Sigríður Dagný; Sigga Dagga, og var sambúð þeirra farsæl. Þau byggðu sér glæsilegt hús við Kléberg þar sem þau ólu upp börnin sín, Gróu, Jenný og Jón Ævar.

Málverkið af Faxa er löngu horfið af veggnum á A-götu 14, en sunnan og austan við A-götuna, eigi langt frá vitanum, gefur að líta listaverk eftir Ella; víkingaskip sem hann gerði til minningar um landnámskonuna Auði djúpúðgu, en hún er sögð hafa fyrst stigið á land á Vikraskeið (Hafnarskeið) við Þorlákshöfn. Listaverkið mun um ókomin ár bera vitni um skipstjórann listræna, sem ekki aðeins sótti gull í greipar Ægis, hann sótti einnig myndir í hug sinn sem urðu að sjálfstæðum listaverkum sem munu lifa um ókomin ár.

Ég sendi eiginkonu, börnum, tengdabörnum og fjölskyldum þeirra innilegar samúðarkveðjur.

Blessuð sé minning Erlings Ævars Jónssonar.

Þorsteinn Garðarsson.

hinsta kveðja

Guð sá að þú varst þreyttur

og þrótt var ekki að fá,

því setti hann þig í faðm sér

og sagði: „Dvel mér hjá.“

Harmþrungin við horfðum

þig hverfa á annan stað,

hve heitt sem við þér unnum

ei hindrað gátum það.

Hjarta, úr gulli hannað,

hætt var nú að slá

og vinnulúnar hendur

verki horfnar frá.

Guð sundur hjörtu kremur

því sanna okkur vill hann

til sín hann aðeins nemur

sinn allra besta mann.

(Þýtt Á.Kr.Þ.)

Guð geymi þig elsku afi minn.

Helga Heiða
Helgadóttir.