Lýsistöflur Omega-3-fitusýrurnar EPA og DHA, sem hafa mikið verið rannsakaðar, eru einkennandi fyrir sjávarfang og eru til dæmis í lýsi.
Lýsistöflur Omega-3-fitusýrurnar EPA og DHA, sem hafa mikið verið rannsakaðar, eru einkennandi fyrir sjávarfang og eru til dæmis í lýsi. — Morgunblaðið/Grímur Bjarnason
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Dr. Arnar Halldórsson, framkvæmdastjóri gæðadeildar hjá Lýsi hf., segir vísindagrein sem birtist í vikunni, þar sem meðal annars koma fram möguleg neikvæð áhrif neyslu bætiefna úr fiskiolíu á borð við lýsi, einungis vera dropa í hafsjó rannsókna og…

Baksvið

Anton Guðjónsson

anton@mbl.is

Dr. Arnar Halldórsson, framkvæmdastjóri gæðadeildar hjá Lýsi hf., segir vísindagrein sem birtist í vikunni, þar sem meðal annars koma fram möguleg neikvæð áhrif neyslu bætiefna úr fiskiolíu á borð við lýsi, einungis vera dropa í hafsjó rannsókna og vísindagreina sem sýni fram á jákvæð áhrif lýsis á hjarta- og æðasjúkdóma. Hann bendir á að í greininni komi bæði fram jákvæð og neikvæð áhrif af neyslu á omega-3-fitusýrum. Þar komi einnig fram að nauðsynlegt sé að framkvæma frekari rannsóknir til þess að staðfesta niðurstöðurnar.

„Þessi grein setur okkur í Lýsi ekki úr jafnvægi. Það er til svo óendanlega mikið af niðurstöðum sem styðja jákvæð áhrif lýsis. Það er varasamt að alhæfa aðeins út frá einni grein sem þyrfti að styðja með mikið fleiri rannsóknum eins og kemur fram í greininni sjálfri,“ segir Arnar í samtali við Morgunblaðið. Hann bætir við að jákvæð áhrif omega-3-fitusýranna EPA og DHA hafi fyrir löngu verið staðfest með tugum þúsund vísindagreina og rannsókna.

Arnar segir að Lýsi hf. horfi ekki til einstakra rannsókna, heldur til þeirra heilsufullyrðinga sem eru staðfestar af yfirvöldum eins og Matvælaöryggisstofnun Evrópu (EFSA). Ekki er heimilt að halda öðrum fullyrðingum fram um ágæti heilsuvara líkt og lýsis. „Við hjá Lýsi ætlum að halda okkur við þessar heilsufullyrðingar sem eru leyfilegar gagnvart Matvælastofnun hér og í Evrópu.“

Arnar tekur fram eina slíka heilsufullyrðingu sem segir að vörur sem innihalda EPA og DHA hafi jákvæð áhrif á hjartastarfsemi. Sú fullyrðing sé staðfest af Evrópusambandinu. „Ýmsar jákvæðar heilsufullyrðingar omega-3, þar á meðal jákvæð áhrif á hjartastarfsemi, eru staðfestar af Matvælastofnun Evrópu, EFA. Ég tel afar ólíklegt að þessi staka vísindagrein muni breyta nokkru,“ segir Arnar. Þar að auki eru jákvæð áhrif omega-3 nýtt sem virkt efni í lyf gegn hjarta- og æðasjúkdómum í mörgum löndum, þar á meðal í Bandaríkjunum og í Japan.

Jóhanna Eyrún Torfadóttir, verkefnastjóri næringar hjá embætti landlæknis, segir að fólki sé ekki ráðið frá því að taka lýsi vegna rannsóknarinnar. Hún segir þó mikilvægt að fólk passi vel upp á að taka ekki meira af bætiefnum en ráðlagt sé á umbúðum þeirra. „Þetta snýst um jafnvægi. Það er aldrei gott að fá of lítið og heldur ekki að fá of mikið af mismunandi næringarefnum. Við mælum líka almennt með að borða frekar fisk en að taka bætiefni. Það þarf ekki alltaf að vera að taka bætiefni, nema við mælum með að taka D-vítamín fyrir alla á Íslandi.“

Jóhanna segir að íslenskar langtímarannsóknir hafi sýnt fram á jákvæð áhrif á hjartasjúkdóma vegna neyslu lýsis. Algengustu hjartasjúkdómarnir hafi verið rannsakaðir, en ekki gáttatif. „Það er erfitt fyrir okkur að skoða þetta því gáttatif hefur ekki verið eins algengt.“ Þess vegna þurfi Íslendingar að reiða sig á erlendar rannsóknir, líkt og á þá sem hér hefur verið fjallað um.

Sú rannsókn sé tilefni til þess að fylgjast með gáttatifi og heilablóðfalli og kanna fleiri gagnasett. Hins vegar sé mörgum spurningum ósvarað vegna bresku rannsóknarinnar. „Við vitum ekkert hvaða lýsi og bætiefni var verið að nota, við vitum ekkert hvað var tekið mikið af fiskiolíu í rannsókninni. Ég get ekki séð að það hafi verið leiðrétt fyrir neyslu á söltum mat í útreikningum fyrir heilablóðfall, sem er þekktur áhættuþáttur. Þetta eru samt vísbendingar sem við þurfum að fylgjast grannt með.“

Rannsókn Biobank

Bæði jákvæð og neikvæð

Vísindagrein birtist í vísindatímaritinu BMJ Medicine á þriðjudaginn. Í henni komu fram niðurstöður langtímaheilsurannsóknar í Bretlandi á 415.000 manns á aldrinum 40-69 ára. Þriðjungur þeirra sagðist neyta lýsis reglulega.

Í niðurstöðum rannsóknarinnar kemur meðal annars fram að regluleg neysla á bætiefnum sem eru unnin úr fiskolíu geti aukið hættu á heilablóðfalli og gáttatifi hjá fólki sem annars er heilt heilsu hvað varðar hjarta- og æðakerfi. Fólkið var 13% líklegra til þess að þróa með sér gáttatif og 5% líklegra til þess að fá heilablóðfall.

Ekki var sömu sögu að segja hjá fólki sem hafði hjartasjúkdóma áður en rannsóknin var framkvæmd. Í þeim hóp voru 15% minni líkur fyrir fólk með gáttatif að fá hjartaáfall ef það tók reglulega lýsi. 9% minni líkur voru á því að fólk myndi deyja eftir að fá hjartaáfall ef það tók lýsi reglulega.