Tvenna Emil Atlason fagnar öðru marka sinna fyrir Stjörnuna gegn KA í gær en Garðbæingar unnu þar stórsigur á Akureyringum, 5:0.
Tvenna Emil Atlason fagnar öðru marka sinna fyrir Stjörnuna gegn KA í gær en Garðbæingar unnu þar stórsigur á Akureyringum, 5:0. — Morgunblaðið/Óttar Geirsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Breiðablik heldur í við Víking á toppi Bestu deildar karla í fótbolta og er áfram þremur stigum á eftir meisturunum eftir sigur á Fram í Úlfarsárdal í gær, 4:1. Leikurinn var jafn og skemmtilegur en Blikar gerðu út um hann á lokasprettinum

Bestu deildir

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Breiðablik heldur í við Víking á toppi Bestu deildar karla í fótbolta og er áfram þremur stigum á eftir meisturunum eftir sigur á Fram í Úlfarsárdal í gær, 4:1.

Leikurinn var jafn og skemmtilegur en Blikar gerðu út um hann á lokasprettinum. Viktor Karl Einarsson og Aron Bjarnason voru báðir með mark og stoðsendingu.

Framarar höfðu ekki fengið á sig meira en eitt mark í leik í fyrstu sjö umferðunum.

Umdeilt víti á Akranesi

Víkingar unnu nauman sigur á ÍA á Akranesi, 1:0, á laugardaginn. Helgi Guðjónsson skoraði sigurmarkið úr umdeildri vítaspyrnu og þar með hafa meistararnir unnið sjö af fyrstu átta leikjum sínum.

Framundan er sannkallaður stórleikur toppliðanna Breiðabliks og Víkings á Kópavogsvelli á fimmtudagskvöldið.

Valsmenn misstu hins vegar tvö stig á heimavelli í fyrrakvöld þegar þeir gerðu jafntefli, 2:2, við FH. Úlfur Ágúst Björnsson jafnaði metin fyrir FH-inga sem fengu fleiri marktækifæri í leiknum.

Gylfi Þór Sigurðsson missti af öðrum leiknum í röð með Valsmönnum vegna meiðsla í baki.

Stjörnumenn í stuði

Stjörnumenn léku sér að KA í Garðabæ í gær, 5:0, og komust með því í fjórða sætið. Emil Atlason skoraði tvö markanna og Óli Valur Ómarsson var í stóru hlutverki hjá líflegu Stjörnuliði.

KA situr áfram í fallsæti og hefur nú þegar fengið á sig 20 mörk í deildinni.

KR-ingar fóru illa að ráði sínu þegar þeir misstu niður 2:0-forskot gegn Vestra á Meistaravöllum á laugardaginn en Benoný Breki Andrésson skoraði tvisvar í fyrri hálfleik. Vladimir Tufegdzic var með mark og stoðsendingu fyrir Vestra í síðari hálfleiknum.

Sendu Þrótt á botninn

Í Bestu deild kvenna fékk Keflavík sín fyrstu stig og sendi Þrótt á botninn með sigri á heimavelli, 1:0, á laugardaginn þar sem Melanie Forbes skoraði sigurmarkið. Fimmta tap Þróttar í röð og liðið er aðeins með eitt stig.

Þá tryggði varamaðurinn Hulda Ösp Ágústsdóttir nýliðum Víkings stig gegn FH í Kaplakrika þegar hún jafnaði, 2:2, í uppbótartíma. Birta Guðlaugsdóttir hafði þar á undan haldið Víkingi inni í leiknum með góðri markvörslu.