J. Magnea Helgadóttir fæddist í Reykjavík 29. maí 1933. Hún lést 11. maí 2024 á hjúkrunarheimilinu Skógarbæ í Reykjavík.

Foreldrar hennar voru Guðlaug Jóhannesdóttir, klæðskeri frá Múlakoti í Lundareykjadal, f. 1902, d. 1990, og Helgi Jón Magnússon húsgagnasmiður frá Hofi í Dýrafirði, f. 1904, d. 1982. Magnea var næstelst fjögurra systkina. Jóhanna Ásta, f. 1930, d. 2020, Magnús, f. 1939, og Dóra Stína, f. 1942, d. 2023.

Magnea ólst upp á Bergstaðastræti í Reykjavík.

Magnea giftist 31.12.1956 Sigurjóni Guðjónssyni vélfræðingi, f. 6.7. 1930, d. 17.4. 2020. Foreldrar hans voru Jónína Vilborg Ólafsdóttir húsfreyja, f. 1903, d. 1970, og Guðjón Jónsson húsasmiður, f. 1894, d. 1952.

Börn þeirra eru: 1) Ragna Jóna, f. 1955, maki Magnús Matthíasson, f. 1954, börn þeirra eru: a) Sigurjón, f. 1975, í sambúð með Jenný K. Valberg, sonur Sigurjóns er Óðinn Darri, barnsmóðir Borghildur Kristjánsdóttir, Jenný á þrjú börn og eitt barnabarn, Ylfu, sem er skáafabarn Sigurjóns; b) Telma, f. 1979, ekkja eftir Björgvin Björgvinsson, börn þeirra eru Aldís Jóna, í sambúð með Jóni Þór Magnússyni, Sölvi Leó, síðar eignast hún Emilíu Mist og Tind; c) Rakel, f. 1983, maki Sigurjón Björgvinsson, börn þeirra eru Björgvin Snær, Magdalena og Ísak Vigri. 2) Helgi, f. 1957, maki Freydís Ármannsdóttir, f. 1960, börn þeirra eru: a) Magnea, f. 1981, dætur hennar Björt Von og Snædís Ósk, barnsfaðir Baldur þór Baldursson; b) Guðbjörg, f. 1985; c) Hafdís, f. 1995, maki Ragnar Ingi Guðmundsson, börn þeirra eru Freyja Rún og Ármann Ingi; d) Pétur Már, f. 1999, unnusta Árný Hanna Ólafsdóttir. 3) Ingibjörg, f. 1960, maki Grímur Þór Gretarsson, f. 1959, börn þeirra eru a) Gretar Már, f. 1982, maki Maria Bursted, dætur þeirra eru Elsa Dögg, Dísa Ósk og Ella Sóley b) Sandra Ósk, f. 1986, í sambúð með Ólafi Þór Ólafssyni, börn þeirra eru Elísabet og Arnar Þór c) Sævar Örn, f. 1989, í sambúð með Lilju Unni Ágústsdóttur, dætur þeirra eru Sara Katrín og Ingibjörg Fanney; d) Sindri Már, f. 1995, í sambúð með Írenu Ösp Dan Guðbjargardóttur, dætur þeirra eru Bríet Lára og Aría Lilja. Fyrir átti Grímur Þór soninn Hauk Þór, hann á tvær dætur. Langömmubörnin eru orðin 21.

Magnea og Sigurjón áttu sín fyrstu búskaparár í Reykjavík. Árið 1962 fluttu þau að Írafossi við Sog þar sem Sigurjón starfaði sem vélfræðingur, starfaði þá Magnea m.a á Selfossi í sláturtíð nokkur haust og síðan í Ljósafosslaug. Þau bjuggu á Írafossi til ársins 1980 þegar þau fluttu aftur til Reykjavíkur, fyrst í Hraunbæ 84 en síðan í Vorsabæ 8. Í Reykjavík vann Magnea m.a hjá prentsmiðjunni Odda, Vifilfelli og í versluninni 10-10. Eftir andlát Sigurjóns flutti Magnea í Fróðengi 8, í ársbyrjun 2023 flutti hún á hjúkrunarheimilið Skógarbæ.

Útför Magneu fer fram frá Árbæjarkirkju í dag, 27. maí 2024, klukkan 15.

Elsku Magnea, okkar kynni hófust fyrir rúmum 48 árum þegar við Ingibjörg kynntumst og urðum vinkonur og skólasystur í Gagnfræðaskólanum á Selfossi, hún varð heimagangur hjá foreldrum mínum og ég síðar á heimili ykkar Sigurjóns á Írafossi. Margs er að minnast og eftir að við Helgi kynntumst og hófum okkar búskap var alltaf góður samgangur og mikil vinátta á milli fjölskyldunnar minnar og ykkar.

Þegar við keyptum okkar fyrsta húsnæði stóð ekki á ykkur að hjálpa og við nutum þess að vera með ykkur í sumarbústaðnum sem þið áttuð í Grímsnesinu og fjölskyldan hjálpaðist öll við að reisa enda var þetta sælureitur stórfjölskyldunnar í mörg ár, barnabörnin elskuðu að fara í bústaðinn því þar var alltaf eitthvað verið að dunda og leika. Þið voruð dugleg að ferðast og komuð meðal annars til Danmerkur 1986 þegar við bjuggum þar og fóruð með okkur keyrandi með tjald í skottinu að heimsækja Laufey systur og hennar fjölskyldu í Lúxemborg. Einnig þegar við fórum að byggja hér í Grafarvoginum voruð þið boðin og búin að hjálpa, þú að naglhreinsa með okkur og Sigurjón taldi nú ekki eftir sér að skjótast í bíltúr ef eitthvað vantaði í smíðarnar. Ég dáðist alltaf að handavinnunni þinni, allur útsaumurinn, fötin sem þú saumaðir, prjónaskapurinn, peysur, sokkar o.fl. sem þú gerðir á barnabörnin, einnig málaðir þú olíumyndir, allt lék í höndunum á þér. Því miður misstir þú sjónina að miklu leyti upp úr aldamótunum en það stoppaði þig aldeilis ekki, þú fékkst hjá Blindrafélaginu skjávarpa með stækkunargleri sem var til þess að hjálpa þér við að lesa blöðin, þú fórst bara með prjónana undir stækkunarglerið og náðir með ótrúlegri lagni að prjóna hverja ungbarnapeysuna á fætur annarri á langömmubörnin og fleiri börn þó að sjónin væri orðin slæm. Hugurinn var nefnilega ákveðinn og kom þér mjög langt. Það var yndislegt að fylgjast með ykkur Sigurjóni síðustu árin þegar sjónin var að mestu farin hjá þér og hann sá um að elda hafragrautinn fyrir ykkur og sjá til þess að þú myndir borða morgunmatinn, þú aftur á móti sagðir honum til í tölvunni, t.d. að fara í netbankann o.fl. því það kunnir þú alveg. Missirinn var mikill þegar hann lést og saknaðir þú hans alla daga. Þú áttir þá ósk að ná 90 ára afmælisdeginum og það tókst, þú vildir halda veislu og fá fullt af gestum, þetta var góður dagur og naust þú þín vel með vinum og fjölskyldu.

Ég kveð þig elsku tengdamamma með þessum fallegu ljóðlínum sem eru ritaðar á legstein tengdapabba og þér þótti svo fallegar, takk fyrir allt.

Þar sem englarnir syngja sefur þú

sefur í djúpinu væra.

Við hin sem lifum, lifum í trú

að ljósið bjarta skæra

veki þig með sól að morgni.

(Bubbi Morthens)

Þín tengdadóttir

Freydís Ármannsdóttir.

Þegar ég minnist þín amma þá koma ótal minningar upp í hugann. „Amma, amma það er mús í gildrunni.“ Þarna var ég fimm ára stoltur strákur með fenginn úr kjallaranum á Írafossi í fanginu, enda var kjallarinn mikill fjársjóður og fullur af allskonar ævintýrum.

„Má ég í alvöru fá eins mikið gos úr gosvélinni eins og ég vil“? Í þetta skiptið var ég að heimsækja ömmu þegar hún vann í mötuneytinu hjá Vífilfelli. Og atvikið þegar ég hugsaði „ég segi ömmu aldrei frá þessu“, þá var ég 13 ára á ferð um landið með ömmu og afa og hafði næstum dottið fram af háu fuglabjargi eftir glæfraleik. Og þegar ég var að taka slátur með ömmu og var með hendurnar útataðar í lambablóði og mör að fylla keppi yfir rauða balanum inni á baðherbergi í Hraunbæ 84 á meðan amma saumaði fyrir.

Ég get líka enn fundið sæta bragðið af appelsínunni sem amma leyfði mér að setja þrjá sykurmola í svo lengi sem mamma vissi ekki af því, því það gerði bragðið enn sætara.

Hún amma lét ekkert stöðva sig og þegar sjón hennar fór að dala var mikil skemmtun að sjá undrun fólks þegar það uppgötvaði að hún væri nánast blind en þrátt fyrir það þrammaði hún um af öryggi fram og til baka. Hún amma var ákveðinn kona, pínu stjórnsöm, en ekkert nema ást og umhyggja, hún var mikill húmoristi, óþolinmóð og þolinmóð í réttum hlutföllum. Ég hugsa stundum um hvernig svona lágvaxinn einstaklingur hafi getað verið svona mikið afl og orka.

Ég er þakklátur fyrir þann tíma sem ég hafði með þér amma og sakna þess að sjá þig brosa eins og þegar ég var með góðlátlega stríðni við þig síðustu dagana þína en það var eitt af því sem einkenndi okkar samskipti. Þín verður sárt saknað.

Sigurjón Magnússon.

Þær eru ófáar minningarnar sem ylja okkur nú um hjartarætur elsku amma, allar yndislegu sumarbústaðaferðirnar, útilegurnar og sundferðirnar.

Við barnabörnin nutum góðs af því að komast út í náttúruna í bústaðnum og þar leyndust skemmtileg ævintýri bak við hverja þúfu og undir hverjum steini.

Við lærðum öll að slá og raka saman gras í bústaðnum og svo á kvöldin var oftar en ekki gripið í spil eða púsl. Við eldri barnabörnin munum eftir svarthvíta sjónvarpinu þó að yngri barnabörnin fengju að njóta túbusjónvarpsins sem var litatæki en það var stundum eins og að labba inn í tímavél að koma upp í bústað. Þar voru hlutir sem tilheyrðu hverri kynslóð allt frá leikföngum sem tilheyrðu foreldrum okkar, til yngstu barnabarnanna. Þetta var skemmtileg blanda. Fullorðna fólkið var sprækara í „yfir“-boltaleiknum þarna fyrstu árin og þið afi tókuð alltaf þátt, svo fóruð þið að horfa meira á á meðan yngri kynslóðirnar hlupu í kringum bústaðinn, en þið voruð alltaf með.

Það var oft ekki neinn tími í sjónvarpsgláp eða tölvuleiki þó að þú elsku amma værir orðin tetris-meistari í Game Boy.

Við vorum alltaf úti að leika eða eitthvað að vesenast, í bústaðnum, Vorsabæ eða á þeytingi í kringum landið.

Það var yndislegt þegar þið afi keyptuð ykkur hjólhýsið. Ófáar útilegurnar farnar þá þó að sjónin væri farin að dala. Hjólhýsið var lúxus, við gistum öll á einhverjum tímapunkti í því með ykkur afa þó að mamma og pabbi væru þá komin í fellihýsið. Það var sport að fá að vera hjá ykkur.

Svo voru það sundferðirnar, þær voru í miklu uppáhaldi. Það skemmdi ekki fyrir að ykkur afa fannst líka svo gaman í sundi. Ljósafosslaug alla sólardaga og jafnvel þegar það var engin sól og þegar við vorum í Reykjavík þá var labbað í Árbæjarlaug.

Það var oft mikil tilhlökkun þegar það var frí í skólanum að fá að fara til ykkar afa í pössun, því þá vissum við að það voru yfirgnæfandi líkur á sundlaugarferð og ís.

Vorsabærinn var svo með stóran garð sem nýttist okkur til leikja eins og tennisstangarleiksins og líka eltingaleiks og fótbolta á meðan fullorðna fólkið lá í sólbaði.

Undir húsinu var heill heimur af ævintýrum, þó að við værum kannski smeyk í byrjun þegar við vorum lítil, það varð meira spennandi eftir því sem við stækkuðum og hættum að sjá ófreskjur í hverju horni. En öll fengum við sömu skilaboð frá þér elsku amma: „Passið ykkur í stiganum, farið varlega.“ Þessi stigi var náttúrlega alveg ótrúlegur, trúlega væri hann bannaður í dag. En við lifðum þetta öll af.

Maður var oft smeykur í stiganum af því að hann var laus og oft tyllti maður bara tánni á hann til að athuga fyrst.

Takk elsku amma fyrir yndislegar stundir sem eru okkur mjög kærar og kveðjum þig með þessum fallegu ljóðlínum:

Blessuð sértu sveitin mín,

sumar, vetur, ár og daga.

Engið, fjöllin, áin þín,

yndislega sveitin mín,

heilla mig og heim til sín

huga minn úr fjarlægð draga.

Blessuð sértu, sveitin mín,

sumar, vetur, ár og daga.

(Sigurður Jónsson)

Guðbjörg, Hafdís
og Pétur Már.

Það eru ekki nema fjögur ár síðan við elsku amma sátum í Vorsabænum og flettum í gegnum myndaalbúmin ykkar afa og rifjuðum upp gamlar og hugljúfar minningar. Það var hlegið að fyndnu augnablikunum en við vissum það báðar þá að það var stutt í tárin því að allt sem við höfðum voru minningarnar og núna sit ég hér og fletti upp sömu myndum og brosi með tárin í augunum en ég veit að þú ert komin til afa, þangað sem þú þráðir að fara fyrir fjórum árum því þú þekktir ekki lífið án hans. Hann var augun þín og þú varst minnið hans.

En ég er svo þakklát fyrir allar yndislegu minningarnar sem ég á, þú varst alltaf svo stór partur af mínu lífi enda alnafna þín og ég hef alltaf verið svo stolt af því að bera þetta flotta nafn.

Það voru skemmtilegir tímar þegar við bjuggum saman þegar pabbi og mamma voru að byggja og það kom bréf merkt Magnea Helgadóttir, mér fannst það fyndið að leika leikinn „hvor á bréfið“, þú réttir mér oft gluggapóstinn merktan þér og sagðir „ég held að þetta sé til þín“ og brostir. Svo mörgum árum seinna ákvaðst þú að þú yrðir að vera með á Facebook þó að þú værir orðin áttræð, ég var beðin breyta nafninu mínu og hef ég oft verið spurð að því hvernig ég beri fram millinafnið mitt.

Ég er svo þakklát fyrir seinustu ár, að ég skyldi líka gefa mér tíma í amstri dagsins og verða þér og afa innan handa þegar þurfti. Hugsa um afa þegar þú lentir uppi á spítala. Það var svo notalegt að vakna á morgnana og fá heitan hafragraut sem afi gleymdi aldrei hvernig ætti að gera, það var góð verkaskipting hjá okkur afa; hann sá um morgunmatinn og ég sá um kvöldmatinn. Svo auðvitað þegar afi fór þá var það ekkert nema sjálfsagt að koma til þín og vera hjá þér. Við höfum alltaf verið svo góðar vinkonur og stelpurnar tala oft um það hvað það var gott að vera í Vorsabænum og þessar stundir sem við mæðgur fluttum til ykkar þegar þörf var á hafa þær upplifað sem mjög góðar stundir.

Þær fundu t.d. mynd af þér og afa á Mallorca, trúlega í kringum 1976, og þú varst í bikiníi, Snædís horfði á myndina og sagði „vá hvað langamma var mikil skvísa“. Ég hló af því að það var svo satt, þú varst alltaf með puttann á tískupúlsinum og í gegnum barnæskuna mína var oft sem ég hugsaði að mig langaði í gleraugu eins og þú áttir þá eða einhverja flík sem þú varst í, þú varst alltaf svo flott. Björt gengur ennþá í gráu buxunum þínum sem þú áttir einhvern tímann í kringum 1990.

Þú varst alltaf svo fljót að tileinka þér nýjustu tækni líka, þú varst ekki lengi að sannfæra afa um að þið þyrftuð að kaupa Rainbow-ryksugu eða Macintosh-borðtölvu og ekki má gleyma því að þótt þú værir orðin lögblind þá vildir þú alltaf vera með snjallsíma en ekki einhvern takkasíma fyrir blinda og sjónskerta. Við eigum það víst sameginlegt nöfnurnar að við getum gert ótrúlegustu hluti á þrjóskunni.

Að lokum langar mig bara að þakka þér fyrir öll 43 árin okkar saman og ég ætla að halda mig við okkar kveðju og segja:

Bless í bili elsku amma og knúsaðu afa frá okkur, við sjáumst seinna.

Magnea, Björt Von
og Snædís Ósk.