Rósa Kristín Björnsdóttir fæddist í á Borg í Skriðdal 31. janúar árið 1942. Hún lést á Hjúkrunarheimilinu Dyngju á Egilsstöðum 17. maí 2024.

Rósa var dóttir Björns Bjarnasonar, f. 18.3. 1914, d. 6.10. 2008, bónda í Birkihlíð í Skriðdal og konu hans Huldu Emilíu Emilsdóttur, f. 1.3. 1915, d. 20.7. 2001. Rósa var elst í systkinahópnum. Systkini hennar eru í aldursröð: Bjarni, Páll Arnar, d. 2023, Emil Bjarkar, Ásta Ingibjörg, Björn Heimir, Bjarngerður og Hulda Svanhildur.

Árið 1962 giftust Rósa og Víðir Stefánsson húsasmiður frá Mjóanesi á Völlum, f. 18.5. 1943, d. 22.12. 1975. Foreldrar hans voru Stefán Eyjólfsson, f. 18.2. 1901, d. 3.9. 1995, bóndi í Mjóanesi og kona hans Sveinbjörg Pétursdóttir, f. 11.5. 1912, d. 8.5. 2001. Sambýlismaður Rósu í yfir 20 ár var Ástráður H. Magnússon, byggingameistari, f. 19.12. 1930, d. 29.10. 2007.

Börn Rósu og Víðis eru: 1) Hulda Björg fædd 15.12. 1961. Sonur hennar og Hallgríms Þórarinssonar er Víðir. Börn Huldu Bjargar og Hannesar Snorra Helgasonar eru: Hákon Jarl, maki Anna Ósk Traustadóttir og eiga þau tvo syni, Viktor Pétur, maki Elísabet Lorange, hann á einn son, Heiðrós Tinna, hún á tvö börn, Hans Hektor, maki Snæbjört Sif Jóhannesdóttir og eiga þau eina dóttur. 2) Stefán Valur, f. 26.3. 1964, giftur Önnu Dóru K. Helgadóttur, f. 20.9. 1970. Þau eiga saman Emmu Ástrós. Stefán Valur á soninn Stefán Ómar Stefánsson með Lóu Margréti Pétursdóttur. Maki hans er Eline van Hagen Lind og eiga þau þrjú börn. Dóttir Stefáns Vals með Árnýju Vöku Jónsdóttur er Stefánný Ósk. Börn Önnu Dóru frá fyrra hjónabandi eru Agnes Björg og Eysteinn Orri. 3) Björn Svanur, f. 10.8. 1965, giftur Höllu Kjartansdóttur, f. 6.12. 1967. Þau eiga Berg Leó, í sambúð með Védísi Sigríði Ingvarsdóttur, og Rósu Kristínu. 4) Þórunn Fjóla, f. 17.7.1966, gift Pétri Sörenssyni, f. 2.1.1964. Þau eiga Víði Þór, í sambúð með Lindu Katrínu Elvarsdóttur, og Daníel Sören, í sambúð með Rósu Dögg Kristjánsdóttur. 5) Helena Birkis, f. 15.8. 1973, gift Karli Emil Guðmundssyni, f. 4.4. 1969. Saman eiga þau börnin Karlottu Birkis og Guðmund Víði Birkis. Börn Helenu frá fyrra hjónabandi eru Helgi Birkis og Emilía Birkis, með Hugin Helgasyni. Fyrir átti Karl Emil dæturnar Sögu Sól og Emilíu Mist.

Rósa ólst upp í Birkihlíð hjá ástríkum foreldrum og stórum systkinahópi. Hún lauk gagnfræðiprófi á Alþýðuskólanum á Eiðum. Rósa og Víðir hófu sambúð í Birkihlíð en bjuggu lengst af að Tjarnarlöndum 19 á Egilsstöðum. Rósa bjó síðar með Ástráði á Hörgsási 4 og í Skógarseli 17-19 eftir að hann féll frá.

Rósa vann m.a. við ræstingar í Grunnskólanum á Egilsstöðum, hjá Búnaðarbanka Íslands, á Saumastofunni Dyngju, á skrifstofu Verkalýðsfélags Austurlands og síðast sem matráðskona á sjúkrahúsinu á Egilsstöðum.

Útför Rósu fer fram frá Egilsstaðakirkju í dag, 27. maí 2024, og hefst athöfnin kl. 14. Jarðsett verður í Egilsstaðakirkjugarði.

Með miklu þakklæti kveð ég Rósu tengdamóður mína í hinsta sinn. Þetta hefur verið notaleg samleið enda varla hægt að finna ljúfari og hjartahlýrri konu en Rósu. Hún tók mér fagnandi frá fyrsta degi og kom okkur alltaf vel saman þótt ólíkar værum. Stuttu eftir að við Bjössi hófum samband fluttu þau Ástráður saman á Hörgsásinn og þar varð okkar helsta bækistöð í fríum þegar austur var haldið. Samanlagt áttu þau stóran barnahóp og var oft fjölmennt á heimilinu. Ég dáðist að Rósu og hennar æðruleysi þegar hæst lét og spilað var fram á nætur með tilheyrandi fjöri og hlátrasköllum eða þegar bakaðar voru hnallþórur um miðjar nætur með hrærivélina á fullu. Aldrei var kvartað. Allir voru velkomnir, vinir og vandamenn. Alltaf heitt á könnunni og eitthvað gott með. Rósa var mikil húsmóðir og enginn fór svangur úr hennar húsi. Hennar helsta áhugamál voru hannyrðir og þá ekki síst prjónaskapur. Hún prjónaði fallegar flíkur handa afkomendum sínum sem vöktu mikla athygli. Næmni hennar á litasamsetningar var einstök og útkoman var alltaf fullkomin. Í seinni tíð prjónaði hún mikið til góðs, meðal annars hlý ullarplögg fyrir hermenn í Úkraínu.

Rósa fylgdist vel með þjóðmálum og hafði sterkar skoðanir á málefnum sem í deiglunni voru hverju sinni. Í henni bjó rík réttlætiskennd, hún hélt alltaf með lítilmagnanum og vildi öllu fólki veg bestan. Börnunum okkar Bjössa var hún einstaklega góð og hlý amma. Hún var forvitin um þeirra hagi og fylgdist vel með þeim þótt langt væri á milli heimila. Ég veit að henni þótti vænt um að fá alnöfnu þegar dóttir okkar var skírð. Bergur Leó og Rósa Kristín minnast með hlýju allra heimsóknanna í ömmu- og afahús á Hörgsásnum og í Skógarselið eftir að Ástráður lést. Í þeim heimsóknum var vinsælt að kíkja í dótakommóðuna, leika sér í klettunum við kirkjuna, sprella með frændsystkinum, fá ís, drekka úr skemmtilegu mánaðarkrúsunum, borða pönnukökur, hlusta á klukkuna tifa og slá, fárast yfir „gömlu Gufunni“ og keppast um að fá að rífa liðinn dag af dagatalinu. Faðmur ömmu var stór og hlýr og hvergi betra að vera en einmitt þar.

Rósa var kjölfestan í lífi barna sinna og afkomenda þeirra alla tíð. Hún varð ekkja með fimm börn aðeins 33 ára gömul og þurfti ein að sjá fyrir stóru heimili þar til börnin voru orðin stálpuð. Það hefur ekki verið lítið verkefni en áfram var haldið með seiglu og dugnaði og verkin unnin hljóðlega en örugglega. Hún lagði áherslu á góð gildi og studdi við bakið á fólkinu sínu með ráðum og dáð. Rósa var afskaplega stolt af hópnum sínum og óspör á hrós og hvatningu. Þau hafa öll misst mikið við fráfall hennar og tómarúmið verður vandfyllt.

Ég kveð Rósu með söknuði og kærum þökkum fyrir allt og allt. Bið Guð að blessa minningu hennar. Sé tekið mið af hennar trú og vissu um það sem tekur við þegar sálin skilur við líkamann þá verður hún fljótlega farin að huga að sínu fólki, vernda það og leiða á bak við tjöldin. Henni hefur eflaust verið vel fagnað í sumarlandinu, af þeim sem á undan eru gengnir.

Halla Kjartansdóttir.

Ég geri ráð fyrir að algengt sé að börn og unglingar taki umhverfi sínu og þeim sem í því búa sem sjálfsögðum hlut. Mér þótti sjálfsagt að skreppa upp í Tjarnarlönd til hitta Björn bekkjarbróður minn og samsetung upp nánast allan grunnskólann á hans afar notalega heimili sem Rósa Kristín Björnsdóttir bjó honum og systkinum hans fjórum. Systkinahópurinn á líkum aldri, miðjan í honum á nánast sama aldri og ég, Þórunn ári yngri, Björn minn jafnaldri og Stefán árinu eldri. Þessi aldursþéttleiki þýddi talsverðan ágang af bekkjarfélögum og vinum systkinanna sem ég hugsa að hafi verið ákafastur í kringum þau þrjú í miðjunni. Ég þar á meðal. Ég tel að upplifun allra í krakka- og unglingastóðinu af viðmóti húsmóður hafi verið svipuð. Afar milt yfirvald með notalega nærveru, það var bara gott að hitta Rósu. Heimilið alltaf mjög snyrtilegt, garðurinn vel hirtur, sumarblóm meðfram gangstéttinni að húsinu, upp við húsið og á völdum stöðum á grasflötinni. Eiginlega bara eins og í ævintýrunum.

Eftir því sem árum fjölgar og bætist við lífsreynslu, leyfi mér ekki að segja þroska, sér maður æ betur að þetta ævintýraheimili var kannski ekki svo sjálfsagt. Rósa og börnin hennar fimm missa Víði, maka og föður, þegar Rósa er einungis 33 ára. Auðvitað vissi maður af föðurmissi systkina en hann einhvern veginn var ekki áberandi, Rósa bara sá til þess. Ég reikna með að samfélagið hafi stutt við fjölskylduna ungu eftir bestu getu en ungminni mitt varð ekkert sérstaklega vart við það, enda allt sjálfsagt.

Ofan á væntumþykju hefur því bæst ómæld virðing fyrir manneskjunni sem skóp þá heimilisáru sem maður upplifði í Tjarnarlöndunum.

Huldu, Stefáni, Birni, Þórunni, Helenu, fjölskyldum þeirra og ættfólki öllu votta ég einlæga samúð vegna fráfalls Rósu Kristínar Björnsdóttur.

Björn Sveinsson.