[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Orri Freyr Þorkelsson varð á laugardag portúgalskur meistari í handknattleik þegar Sporting vann Porto, 35:33, í hreinum úrslitaleik í lokaumferðinni. Sporting fékk 49 stig en Porto 45 í öðru sæti

Orri Freyr Þorkelsson varð á laugardag portúgalskur meistari í handknattleik þegar Sporting vann Porto, 35:33, í hreinum úrslitaleik í lokaumferðinni. Sporting fékk 49 stig en Porto 45 í öðru sæti. Orri skoraði þrjú mörk í leiknum. Benfica fékk 37 stig í þriðja sæti en Stiven Tobar Valencia skoraði ekki fyrir liðið í ósigri gegn Braga, 30:27.

Sverrir Ingi Ingason, landsliðsmaður í knattspyrnu, varð í gær danskur meistari með Midtjylland eftir spennuþrungna lokaumferð. Bröndby gat tryggt sér titilinn með heimasigri gegn Mikael Anderson og félögum í AGF, en AGF vann óvæntan sigur, 3:2. Midtjylland lenti tveimur mörkum undir gegn Silkeborg á heimavelli en lokatölur urðu 3:3 og Midtjylland fékk því einu stigi meira en Bröndby. Midtjylland fékk 63 stig, Bröndby 62 og FC Köbenhavn 59 stig í þriðja sætinu. Köbenhavn þarf að fara í umspilsleik við Randers um Evrópusæti.

Barcelona varð á laugardaginn Evrópumeistari kvenna í knattspyrnu í þriðja sinn á fjórum árum með því að sigra Lyon, 2:0, í úrslitaleik í Bilbao á Spáni. Aitana Bonmatí skoraði á 63. mínútu og Alexia Putellas gulltryggði sigurinn með marki í uppbótartíma.

Bayer Leverkusen varð tvöfaldur meistari í knattspyrnu í Þýskalandi með því að sigra B-deildarliðið Kaiserslautern, 1:0, í úrslitaleik í Berlín í fyrrakvöld. Granit Xhaka skoraði sigurmarkið á 17. mínútu.

Magdeburg þarf aðeins eitt stig úr síðustu tveimur leikjunum til að verða þýskur meistari í handknattleik eftir sigur á Leipzig í gær, 30:28. Ómar Ingi Magnússon fór gjörsamlega á kostum og skoraði 16 mörk fyrir Magdeburg. Gísli Þorgeir Kristjánsson skoraði þrjú og Janus Daði Smárason tvö. Andri Már Rúnarsson skoraði tvö mörk fyrir Leipzig og Viggó Kristjánsson eitt.

Litháíski handboltamarkvörðurinn Vilius Raismas hefur samið við Hauka til tveggja ára. Rasimas er 34 ára og hefur varið mark Selfyssinga undanfarin fjögur ár.

Sigvaldi Björn Guðjónsson skoraði níu mörk fyrir Kolstad þegar liðið tapaði fyrir Elverum, 41:40, í fjórframlengdum öðrum leik liðanna um sigur í úrslitakeppni norska handboltans. Liðin mætast því í oddaleik á heimavelli Kolstad á miðvikudaginn en sigurliðið kemst í Meistaradeildina.

Þríþrautarkonan Guðlaug Edda Hannesdóttir stendur mjög vel að vígi í baráttunni um sæti á Ólympíuleikunum í París eftir að hún varð þriðja á Asia Triathlon Cup sem fram fór í Osaka í Japan á laugardaginn. Hún hefur nú þrisvar komist á verðlaunapall á mótum í Asíu í maí en Guðlaug vann mót í Nepal og fékk silfur á Filippseyjum.

Aalborg hafði betur gegn Fredericia, liði Guðmundar Þ. Guðmundssonar, 31:26, í fyrsta úrslitaleik liðanna um danska meistaratitilinn í handknattleik í gær. Einar Þorsteinn Ólafsson skoraði eitt mark fyrir Fredericia. Ribe-Esbjerg vann Skjern, 35:31, á útivelli í fyrsta leiknum um bronsverðlaunin. Elvar Ásgeirsson skoraði ekki fyrir Ribe-Esbjerg en Ágúst Elí Björgvinsson varði sex skot í marki liðsins.

Southampton tryggði sér í gær sæti í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu með því að sigra Leeds, 1:0, í úrslitaleik umspilsins á Wembley í London. Adam Armstrong skoraði sigurmarkið á 24. mínútu.

Teitur Örn Einarsson vann í gær Evrópudeildina í handknattleik með Flensburg þegar liðið sigraði Füchse Berlín, 36:31, í úrslitaleik í Hamborg. Teitur skoraði eitt mark og hann gerði tvö í undanúrslitunum á laugardag þegar Flensburg vann Dinamo Búkarest, 38:32. Ýmir Örn Gíslason og félagar í Rhein-Neckar Löwen fengu bronsið, unnu Dinamo í gær, 32:31, en töpuðu 33:24 fyrir Füchse í undanúrslitum á laugardag.

Manchester United varð enskur bikarmeistari í knattspyrnu í þrettánda skipti með því að sigra Manchester City, 2:1, í úrslitaleik á Wembley á laugardaginn. Aðeins Arsenal hefur unnið keppnina oftar, fjórtán sinnum. Alejandro Garnacho og Kobbie Mainoo skoruðu fyrir United í fyrri hálfleik en Jérémy Doku minnkaði muninn fyrir City á 87. mínútu. Mainoo var útnefndur maður leiksins.