Starmer Alls ekki skemmtilegur.
Starmer Alls ekki skemmtilegur. — AFP/Andy Buchanan
„Þetta verður ljótasta kosningabarátta seinni tíma hér á landi,“ sagði þáttastjórnandi á breskri sjónvarpsstöð í umræðum um væntanlegar þingkosningar í Bretlandi. Þar sem sú sem þetta skrifar er mikill aðdáandi alls sem breskt er mun hún vakta þessar kosningar og er reyndar aðeins byrjuð

Kolbrún Bergþórsdóttir

„Þetta verður ljótasta kosningabarátta seinni tíma hér á landi,“ sagði þáttastjórnandi á breskri sjónvarpsstöð í umræðum um væntanlegar þingkosningar í Bretlandi. Þar sem sú sem þetta skrifar er mikill aðdáandi alls sem breskt er mun hún vakta þessar kosningar og er reyndar aðeins byrjuð. Ekki er annað hægt því breskar sjónvarpsstöðvar eru strax farnar að helga kosningunum vænan skammt af fréttatímum sínum.

Stærsti gallinn við þessar kosningar er að formaður íhaldsflokksins, Rishi Sunak, og formaður Verkamannaflokksins, Keir Starmer, eiga það sameiginlegt að vera freðýsur. Sunak virðist hafa sjarma en um leið og hann opnar munninn gufar sjarminn upp. Starmer er einungis búinn að segja nokkrar setningar þegar manni er farið að drepleiðast. Þannig að maður óttast nokkuð að áhugi manns muni dala því meir sem sést af þessum tveimur.

Stundum saknar maður Borisar Johnsons. Hann var alltaf skemmtilegur og maður hlustaði af áhuga. Boris fannst sannleikurinn oft of óþægilegur og sagði það sem þægilegast var. Svo fór hann að ljúga svo að segja við öll möguleg tækifæri og laug svo hratt og mikið að eigin flokksmönnum ofbauð. Því er Boris ei meir.