Óskar Þór Sigurbjörnsson fæddist á Ólafsfirði 17. júní 1945. Hann lést á dvalar- og hjúkrunarheimilinu Hornbrekku, Ólafsfirði, 11. maí 2024.

Óskar var sonur hjónanna Ármanníu Þórlaugar Kristjánsdóttur húsfreyju, f. 27.7. 1915, d. 8.10. 2004, og Sigurbjörns Björnssonar sjómanns, f. 8.11. 1915, d. 14.11. 1992. Systkini hans eru fjögur: Kristín Björg, f. 1940, Ásta, f. 1946, Gunnar, f. 1949, og Sigurlína, f. 1955.


Hinn 16. júní 1971 kvæntist Óskar Soffíu Margréti Eggertsdóttur, f. 28.9. 1951. Þau bjuggu á Ólafsfirði öll sín hjúskaparár utan tveggja vetra á árunum 1993-1995 þegar þau dvöldu við framhaldsnám í Kanada. Heimili fjölskyldunnar á Túngötu 13 byggðu hjónin sjálf og bjuggu þar lengst af. Foreldrar Soffíu Margrétar voru Eggert Gíslason skipstjóri, f. 12.5. 1927, d. 12.7. 2016, og Sigríður Regína Ólafsdóttir húsfreyja, f. 23.4. 1929, d. 22.4. 2016.

Synir Óskars og Soffíu Margrétar eru: 1) Ólafur Ármann, f. 1972, hann var kvæntur Sigrúnu Sigurðardóttur, f. 1968, þau skildu og eru börn þeirra: Signý Rós, Sigurður Bogi og Gréta Þórey. 2) Eggert Þór, f. 1973, eiginkona: Magna Lilja Magnadóttir, f. 1974. Börn þeirra eru Maren Ósk, Aron Snær og Regína Lind. 3) Sigurbjörn Reginn, f. 1979, eiginkona: Elísabet Pétursdóttir, f. 1980. Börn þeirra eru Kjartan Bessi, Baldur Þór og Kolbrún Lilja. 4) Kristján Uni, f. 1984, eiginkona: Sylvía Dögg Hjörleifsdóttir, f. 1986. Börn þeirra eru: Elísa Dröfn, Óskar Pálmi og Embla Hólmfríður.

Óskar lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1965 og BA-prófi í ensku, landafræði og sögu frá heimspekideild Háskóla Íslands 1970. Kennsluréttindum lauk hann 1971 og kenndi samhliða námi til þeirra við Hagaskóla. Einnig lauk Óskar meistaragráðu í stjórnun menntastofnana frá University of British Columbia í Vancouver í Kanada 1995. Hann kenndi stærstan hluta starfsævi sinnar við Gagnfræðaskólann Ólafsfirði, frá 1971, og var þar skólastjóri frá 1980 til 1993 og 1995 til 2000. Frá 2000 til 2006 starfaði hann sem skólamálafulltrúi fyrir skólaþjónustuna ÚTEY. Þá gegndi hann margs konar félags- og trúnaðarstörfum, m.a. fyrir sóknarnefnd Ólafsfjarðarkirkju, Rótarýklúbb Ólafsfjarðar, Menntaskólann á Akureyri og Norræna félagið auk þess að sitja í bæjarstjórn og ýmsum nefndum m.a. um gerð Múlaganga, byggingarnefnd vegna stækkunar Ólafsfjarðarkirkju 1998, hafnarmál á Ólafsfirði og fleira. Óskar hafði samhliða starfi sínu sem kennari og skólastjóri milligöngu um nemendaskipti fjölda ungmenna á milli Ólafsfjarðar, Ástralíu og Kanada á vegum Rótarýklúbbsins. Á sumrin reri Óskar til fiskjar á trillunni Perlunni ÓF-75 sem hann gerði út frá Ólafsfirði allt frá árinu 1977 og fram á sjötugsaldur.


Útför Óskars verður gerð frá Ólafsfjarðarkirkju í dag, 27. maí 2024, kl. 14.

Þegar ég lít til baka og horfi yfir ævi föður míns er mér efst í huga hversu góður maður hann var og hversu mikið yndi hann hafði af barnabörnunum sínum - börnum okkar bræðranna og hversu vel hann og mamma hafa alltaf sinnt þeim af sinni einstöku umhyggjusemi og væntumþykju. Ég man að ég tengdist pabba mínum vel þegar við bjuggum í Kanada árin 1993-1995 þar sem foreldrar okkar, þrátt fyrir að hafa starfað lengi sem kennarar og vera komin á fimmtugsaldur, ákváðu að fara í framhaldsnám við UBC-háskólann í Vancouver. Fram að þessu, fyrstu níu ár ævi minnar, minnist ég pabba gjarnan fyrir mikla vinnusemi og dugnað, hvort sem það var í hans störfum sem skólastjóri, setu bæjarstjórnarfunda, þátttöku í hinum ýmsu félagsstörfum fyrir meðal annars Rotary-klúbb Ólafsfjarðar og Ólafsfjarðarkirkju eða útgerð á trillunni Perlunni ÓF-75 yfir sumartímann. Aðeins get ég ímyndað mér hversu verðmæt öll hans framtakssemi hefur verið fyrir lítið samfélag en vissulega einnig tímafrek og minnist ég þess oft að hafa horft út um stofugluggann á Túngötunni, niður brekkuna og yfir fótboltavöllinn og fylgst með því hvenær ljósið á skólastjóraskrifstofunni yrði slökkt og gamli færi nú að skila sér heim í kvöldmat.

Við flutningana til Vancouver fannst mér pabbi á einhvern hátt finna sér góðan, rólegri takt. Þrátt fyrir að vera sestur aftur á skólabekk, rúmlega 20 árum eftir að hafa áður lokið námi frá Háskóla Íslands, þá var eins og hann hefði öðlast aukinn tíma til samveru með fjölskyldunni, tíma til þess að sinna tómstundastarfi okkar bræðranna, ferðast um sveitir British Columbia-fylkis og sjá til þess að við bræðurnir gætum komist reglulega á skíði í Grouse Mountain eða Whistler sem alls ekki var sjálfsagt fyrir námsfólk á stúdentagörðum í suðvesturhluta Vancouver-borgar. Ber hæst minninguna um allar stundirnar sem hann gaf mér í endalaus ferðalög út um alla borg á fótboltaæfingar, allskonar aukaæfingar og keppnisleiki sem leiknir voru á hinum og þessum völlum borgarinnar meðan pabbi fylgdist með á hliðarlínunni ásamt því að blanda geði við foreldra hinna barnanna. Og ótrúlegur var hann í samskiptum við fólk, hvernig honum tókst að kynnast, og á einhvern frábæran hátt tengjast fólki út um allan heim vináttuböndum. Allt frá því hann fór fyrir hópi fólks í námsferð til New South Wales í Ástralíu á vegum Rotary-klúbbs Ólafsfjarðar upp úr 1970 og eflaust mun fyrr hefur hann myndað tengsl við allskonar fólk sem við fjölskyldan stóðum gjarnan á gati yfir hvernig til höfðu komið og við bræðurnir gerðum oft góðlátlegt grín að þegar jólakort bárust frá gömlum vinum með skrýtnum nöfnum úr norrænu samstarfi eða áströlskum eða amerískum Rotary-klúbbum. Eftir á að hyggja er það stórmerkilegt að þessi Ástralíuferð á áttunda áratugnum hafi orðið upphafið að samstarfi þar sem lítið samfélag við utanverðan Eyjafjörð hefur skipst á tugum skiptinema við samfélög í Ástralíu og Kanada. Þetta var algjörlega lýsandi fyrir áhuga pabba á allskonar alþjóðlegu samstarfi sem hann sinnti síðan áfram meðan á dvöl okkar stóð í Kanada þar sem hann, aftur á einhvern ótrúlegan hátt, var allt í einu kominn í hlutverk við að kenna Vestur-Íslendingum íslensku hjá Íslendingafélaginu í Vancouver. Var þetta okkur bræðrunum, sem höfðum gjarnan gaman að því að gera góðlátlegt grín að félagsstörfum, föður okkar til þónokkurrar skemmtunar. Af öllum þessum góðu tengslum sem foreldrar mínir mynduðu við samferðafólk okkar og aðra á þessum tíma þótti mér vænt um það hversu vel pabbi þekkti alltaf til bæði kennara og samnemenda minna. Hvort sem það voru umsjónarkennarar mínir við University Hill-grunnskólann - fólk sem pabbi gat nefnt á nafn alveg upp undir það síðasta hjá honum, eða alþjóðlegur hópur samnemenda minna í innflytjendabekk í Bayview-skólanum þar sem ég og ein rússnesk stelpa lærðum ensku fyrstu mánuðina í Kanada ásamt 30 börnum frá Asíu.

Mér er það minnisstætt frá unglingsárunum hversu mikinn stuðning foreldrar mínir sýndu íþróttaiðkun minni og hve vel þau studdu mig þegar ég fluttist til Noregs til að stunda nám við skíðamenntaskóla. Ég minnist þess eiginlega ekki að hafa sóst sérstaklega eftir leyfi frá þeim til að flytjast til útlanda aðeins 16 ára, og það til þess að renna mér á skíðum, en á sinn örláta hátt gerðu þau þetta bara fyrir mig, tóku jákvætt í það sem ég vildi stefna á og fylgdu mér út haustið 2000 þar sem ég eyddi næstu árunum við skólagöngu og æfingar. Í æfinga- og keppnisferðalögum næstu árin fylgdi síðan þessi sami skilyrðislausi stuðningur pabba og mömmu, áhugi á því sem sonurinn tók sér fyrir hendur og mikil hvatning óháð því hvort hlutirnir gengu vel eða illa á hinum ýmsu skíðamótum.

Það má segja að það allra minnisstæðasta og fallegasta við pabba hafi verið hversu mikill barnakall hann var. Hann ljómaði þegar hann umgekkst börn okkar bræðranna, gaf sér tíma fyrir þau og veitti þeim alla sína athygli. Nánd sem skín í gegn þegar við bræðurnir, tengdadætur pabba og börnin okkar minnumst hans. Við Sylvía vorum ekki gömul þegar við eignuðumst Elísu, vorum ennþá í menntaskóla og fluttum því með Elísu inn á Akureyri þegar hún var aðeins níu mánaða til þess að klára menntaskólann og undirbúa okkur fyrir háskólanám. Eitthvað gekk það erfiðlega hjá okkur að fá pláss hjá dagmömmu fyrir stelpuna og fór það svo að gamli skólastjórinn keyrði inn eftir til Akureyrar í hverri viku þann veturinn og passaði fyrir okkur ungbarnið og sá til þess að við gætum einbeitt okkur að náminu. Haustið eftir, þegar við fluttum suður til Reykjavíkur til þess að fara í háskólanám, kom upp svipuð staða og aftur, eins og kannski við mátti búast af föður mínum, kom hann til okkar til að aðstoða okkur með Elísu, þá tæplega tveggja ára. Fylgdust þau að um Þingholtin, stoppuðu við á leikvöllum hverfisins og skoðuðu kisurnar á Baldursgötunni þar sem við hófum búsetu okkar fyrir sunnan, gamli maðurinn með litlu afastelpuna sína. Hóf Elísa leikskólagöngu sína í fylgd afa síns þetta sama haust þegar hann fylgdi henni í aðlögun á Ægisborg.

Alltaf þykir okkur Sylvíu jafn vænt um að rifja þetta upp, þessa ótrúlegu góðvild og hvernig það var pabba svo eðlislægt að gefa af sér á þennan hátt til okkar og barnabarnanna. Við erum þakklát fyrir að Óskar nafni hans og Embla Hólmfríður hafi eins og eldri systir þeirra fengið að kynnast afa sínum vel og eignast góðar minningar með honum sem munu alltaf lifa með okkur.


Kristján Uni Óskarsson.

Kveðja frá Rótarýklúbbi Ólafsfjarðar



Óskar Þór Sigurbjörnsson var góður félagi og ávallt tilbúinn í verkefni sem klúbburinn okkar stendur fyrir. Óskar Þór var lengst af kennari, skólastjóri, fræðslustjóri og trillukarl á sumrin. Hann fæddist 17. júní 1945, lést 11. maí 2024.



Óskar Þór gerðist rótarýfélagi 4. janúar 1973 og heiðursfélagi síðan 18. október 2018. Hann er einn af fáum félögum sem hafa verið forsetar þrisvar. Fyrst starfsárið 1977-1978, næst starfsárið 1990-2000 og síðast starfsárið 2007-2008.



Óskar Þór kom snemma að Rótarýhreyfingunni þó svo að hann hafi ekki verið félagi en hann var fenginn til að fara til Bandaríkjanna á vegum GSE-starfs- og námshópaskipta hjá Rótarýhreyfingunni og síðan að túlka og sýna GSE-hópum sem komu til Ólafsfjarðar sumarið 1969 frá Bandaríkjunum. Hann var einnig fenginn til að vera í forsvari fyrir GSE-ferðinni til Ástralíu 1978 en eftir þá ferð hófust hin miklu nemendaskipti við Ástralíu og fleiri þjóðir á vegum Rótarýklúbbs Ólafsfjarðar sem Óskar sá um. Nemendaskiptin hófust 1977 og stóðu til 2012, en hætt er við að þeim sé lokið (þar sem tilraun til að endurvekja það sl. haust virðist ekki hafa skilað árangri), 35 ungmenni koma þar við sögu nemendaskiptanna; 19 íslensk og 16 erlend.



Árið 1984 skrifaði Óskar m.a.: Samskipti við erlenda klúbba hafa aukist mjög í seinni tíð og hafa ýmis verkefni á sviði alþjóðaþjónustu verið meðal stærstu verkefna klúbbsins. R Ó. hefur átt þátttakendur í öllum námshópaskiptum, GSE-ferðum, á vegum íslenska umdæmisins hingað til, til Bandaríkjanna og Ástralíu og tekið á móti öllum þeim erlendu hópum sem hingað hafa komið í staðinn. Hefur þessi þáttur í starfinu haft mikið gildi fyrir félaga klúbbsins og hvatt þá til dáða á þessum vettvangi. Tekin hafa verið upp umfangsmikil nemendaskipti við umdæmi í Bandaríkjunum og einnig í Ástralíu, eftir að tengsl mynduðust við GSE-heimsóknir. Fyrst tók R.Ó. þátt í skiptum við miðvesturríki Bandaríkjanna árið 1977-78, Central States Rotary Youth Exchange. Ungur Ólafsfirðingur fór þá til ársdvalar í Chicago, Illinois, og skiptinemi þaðan kom í staðinn til ársdvalar í Ólafsfirði.



Óskar Þór sá lengi um innheimtu leiðiskrossanna sem Rótarýklúbburinn hefur verið með í kirkjugarðinum síðan 1992. Klúbburinn er enn með krossana en Óskar Þór var leystur af í innheimtunni fyrir nokkrum árum.

Það var býsna mikil vinna, einkum fyrir tíma almennrar tölvunotkunar.

Senda þurfti öllum greiðendum bréf í pósti þar sem kynnt var fyrirkomulag krossamála á hverju ári og svo þurfti að hafa stjórn á því að allir greiddu fyrir krossana.

Óskar Þór var málsvari klúbbsins að meira eða minna leyti varðandi erlent samstarf. Hann var lengi í ritnefnd klúbbsins, skrifaði tíðindi í Rotary-Norden af og til, ritaði sögu klúbbsins í grófum dráttum þegar íslenska rótarýhreyfingin varð 50 ára, árið 1984 og hefur sú saga varðveist og er gjarnan gripið til hennar þegar eitthvað liggur við, þá er bætt við eftir því sem við á.

Í raun var það þannig lengi vel að ef eitthvað þurfti að skrifa út á við var Óskar fenginn til verksins. Óskar var hafsjór af fróðleik um málefni Rótarýklúbbsins og -hreyfingarinnar.



Óskar var iðinn að blása mönnum baráttuanda í brjóst og var jafnan með fyrstu mönnum að mæta í fjáröflunarstörf sem tíðkuðust á fyrri tíð.

Ekki er með góðu móti hægt að finna út hve marga rótarýfundi Óskar hefur setið en gera má ráð fyrir að þeir geti verið tæplega 2.000. Óskar sat síðasta fund sinn 29. september 2022, þegar klúbbfélagar héldu fund á Hornbrekku sem er heimili aldraðra og sjúkra í Ólafsfirði, en þar dvaldi Óskar síðustu ár ævi sinnar vegna heilsubrests.



Klúbbfélagar senda Soffíu og ættingjum innilegar samúðarkveðjur um leið og við minnumst góðs félaga.



F.h. Rótarýklúbbs Ólafsfjarðar,


Sigurpáll Þór Gunnarsson, forseti.