Blá ríki og rauð Thurber fór yfir stöðuna í bandarískum stjórnmálum í Háskóla Íslands sl. fimmtudag.
Blá ríki og rauð Thurber fór yfir stöðuna í bandarískum stjórnmálum í Háskóla Íslands sl. fimmtudag. — Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson/Háskóli Íslands
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Baldur Arnarson baldura@mbl.is

Baksvið

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Lítil kjörsókn gæti stuðlað að sigri Donalds J. Trumps í komandi forsetakosningum í Bandaríkjunum.

Þetta segir James A. Thurber, prófessor emeritus við American University í höfuðborginni Washington.

Thurber hélt fyrirlestur í Háskóla Íslands síðastliðinn fimmtudag og var þá kynntur sem einn þekktasti fræðimaður Bandaríkjanna á sínu sviði. Hefði skrifað fjölda bóka og meira en 90 fræðigreinar um bandaríska þingið, kosningar og kosningaframboð.

Eftir fyrirlesturinn ræddi Morgunblaðið við Thurber um stöðuna.

Spáði Trump sigri

Kollegi þinn við American University, Allan Lichtman prófessor, er þekktur fyrir spálíkan sitt og rússneska jarðeðlisfræðingsins Vladimírs Keilis-Boroks, um útkomu forsetakosninga í Bandaríkjunum. Telur hann sig hafa jafnan spáð rétt um útkomu kosninga aftur til kosninganna 1984. Þar með talið sigri Trumps 2016. Eins og staðan er reiknar hann með sigri Bidens en tekur fram að mjótt verði á mununum.

„Allan er vinur minn en ég er ósammála honum. Hann er með 13 mælistikur en í vísindum viljum við að líkön hafi sem fæstar breytur.“

Gæti munað sáralitlu

Þú virðist hins vegar telja að það verði lítil þátttaka í kosningunum og að Trump virðist hafa yfirhöndina?

„Við skulum segja að staðan sé hnífjöfn. Ef svo verður áfram þá gætu um tíu þúsund atkvæði í ríkjunum þar sem minnstu munar ráðið úrslitum. Munum líka að Biden vann síðustu kosningar með sjö milljónum atkvæða um gervöll Bandaríkin en það skýrðist fyrst og fremst af New York og Kaliforníu. Það voru samanlögð úrslit. En í öllum hinum ríkjunum fékk Trump 39 þúsund fleiri atkvæði. Mörgum er ekki kunnugt um það.“

En hvers vegna áttu von á dræmri kosningaþátttöku?

„Vegna þess að kjósendur eru ekki spenntir fyrir frambjóðendunum. Þeir eru of gamlir. Stór hópur kjósenda er á aldrinum 18-34 ára.“

Munu ekki kjósa

Mun það gagnast Trump meira en Biden? Margt ungt fólk í Bandaríkjunum hefur verið ósátt við stríðsreksturinn á Gasa og aldur frambjóðenda?

„Og það mun ekki kjósa.“

Þú fjallaðir í fyrirlestri þínum um skautun í bandarískum stjórnmálum. Hverjar eru helstu ástæður vaxandi skautunar á síðustu 30 árum? Tilkoma félagsmiðla?

„Hún er aðgreining mannfjöldans. Það er mikill munur milli dreifbýlis og borganna. Síðan aðlagar fólk sig að því. Þegar fólk hefur komið sér fyrir fylgir það fólkinu sem fyrir er.“

Hvað veldur þessari aðgreiningu?

„Það eru önnur málefni á dagskrá í dreifbýlinu en í borgunum. Fólkinu í dreifbýlinu finnst sem að það fái ekki sanngjarnan hlut frá stjórnvöldum, þótt það sé raunar á ýmsan hátt að gera það. Að það sé vitlaust gefið.“

Og hvað veldur því?

„Sú upplifun alþýðunnar að fulltrúar stjórnvalda og elítur hafi fjarlægst hana. Margir horfa á eftir börnum sínum, efnilegum námsmönnum, fara á brott í skóla og þau koma aldrei aftur. Svo er það spurningin um sanngirni, sem er nánast stéttamál, en fólkið spyr af hverju íbúar stórborganna þéna svona miklu meira.“

Störfin tekin af þeim

Er það viðbragð við alþjóðavæðingu?

„Alþjóðavæðing og frjáls verslun eru ofarlega á baugi hjá þessu fólki. Því finnst sem störfin þeirra hafi verið tekin af þeim [af vinnuafli á lægri launum í fjarlægum heimshlutum]. Og nú líkar þeim við Trump og nú hefur Biden tekið upp stefnumál Trumps. Biden hefur viðhaldið stefnu Trumps í tollamálum og vill útvíkka hana. Það er andstaða við alþjóðavæðingu úr ranni repúblikana. Það hafa því orðið pólitísk umskipti, sérstaklega [frá forsetatíð] Clintons [1992-2000] og George Bush [2000-2008], og dálítið frá Obama [forseta 2008-2016] í átt að mjög ólíkri stöðu þar sem við erum í viðskiptastríði við Kína.“

Urðu viðskila við flokkinn

Spurður að lokum hvort Bandaríkin hafi ekki alltaf verið klofin á vissan hátt, ekki síst í þrælastríðinu, segir Thurber það vissulega rétt. Þó hafi orðið marktæk breyting þegar demókratar í suðurríkjunum urðu viðskila við flokkinn og gengu í raðir repúblikana um miðjan 7. áratuginn, í kjölfar samfélagslegra breytinga. Vísar einkum til þess þegar blökkumenn fengu aukinn kosningarétt.

„Það var ekki mikil samstaða á miðjunni eftir það. Það tók sinn tíma [að verða meiri skautun í bandarísku þjóðlífi]. Tímabilið frá 1965 til 1980 var þokkaleg samstaða en frá upphafi níunda áratugarins fóru hlutirnir að breytast,“ segir Thurber að lokum.

Biden tekur upp stefnu Trumps

Leggur á tolla til að verja störfin

Thurber var að loknum fyrirlestri spurður úr sal hvort við séum að sigla inn í nýtt kalt stríð þar sem Kína mun gegna sama hlutverki og Sovétríkin. Hvað telur hann?

„Það er góð spurning. Ég hélt að þjóðin myndi sameinast þegar Pútín réðst inn í Úkraínu. Það var vissulega samstaða í nokkra mánuði sem varð svo að engu fyrir tilstilli repúblikana sem vilja setja hagsmuni Bandaríkjanna í fyrsta sæti,“ segir Thurber við Morgunblaðið og rifjar upp að stjórn Bidens hafi undanfarið reynt að draga úr spennu í samskiptum við Kína. Má þar nefna heimsókn Blinkens utanríkisráðherra til Kína.

„Síðan setur Biden á þessa tolla [þ.m.t. á rafbíla frá Kína] sem hjálpar honum heima fyrir enda sé hann að verja störfin. Þetta er mjög góð spurning. Ég tel að Kína, jafnvel enn frekar en Íran og Norður-Kórea, sé ógn sem muni sameina Bandaríkjamenn.“