Tækifæri Ferðaþjónustufyrirtæki í Rangárþingi vilja fá ferðamenn til að staldra við og njóta norðurljósa þar í stað þess að bruna til Reykjavíkur.
Tækifæri Ferðaþjónustufyrirtæki í Rangárþingi vilja fá ferðamenn til að staldra við og njóta norðurljósa þar í stað þess að bruna til Reykjavíkur. — Morgunblaðið/Jónas Erlendsson
Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

„Við vonumst til að þetta muni bæta samkeppnisforskot okkar gagnvart öðrum svæðum,“ segir Bárður Örn Gunnarsson, framkvæmdastjóri Lava Center. Bárður hefur ásamt öðrum ferðaþjónustuaðilum í Rangárþingi fundað með sveitarstjórnum þar um aðgerðir sem eiga að efla vetrarferðaþjónustu á svæðinu til framtíðar. Hugmyndir eru á lofti um að láta greina myrkurgæði í Rangárþingi og fá alþjóðlega vottun sem nýst gæti til markaðssetningar. Lagt er upp með að þessi vinna geti einnig bætt lífskjör íbúa og stuðlað að hagræðingu í rekstri sveitarfélaganna.

Bárður segir að mikil tækifæri séu til að fá fleiri ferðamenn til að gista í Rangárþingi. „Það eru gríðarlega margar ferðir skipulagðar frá Reykjavík. Við höfum séð að fólk er að ferðast um Suðurland en brunar svo í bæinn til að fara í norðurljósaferð þaðan. Það er auðvitað galið, hvort sem horft er til umhverfissjónarmiða, tíma eða upplifunar. Betra væri auðvitað að vera á hóteli hér og stíga út þegar rétta stundin rennur upp, eins og gert hefur verið á Hótel Rangá um langt skeið.“

Umræddir ferðaþjónustuaðilar hafa sent Rangárþingi ytra og Rangárþingi eystra erindi þar sem óskað er eftir því að vinna við þetta hefjist formlega. Greina á myrkurgæði og huga að gerð ljósgæðastefnu. Segir Bárður að ef þessi áform verði að veruleika verði hægt að sækjast eftir svokölluðu Dark Sky Certificate, vottun sem óhagnaðardrifin samtök um að auka myrkurgæði í heiminum veita.

Mikil tækifæri í myrkrinu

Bárður bendir á að aukin stýring birtu geti bætt svefn fólks auk þess sem hægt sé að fegra umhverfið og ásýnd bæja. Hann segir að almennt sé nú viðurkennt að stýrð, mjúk birta sé fallegri en sterkasta lýsing. Auk þess sé hún betri bæði fyrir fólk og dýr. Hann segir að sveitarfélögin hafi sýnt gerð ljósgæðastefnu mikinn áhuga en sú stefna gæti nýst sveitarfélaginu í framtíðinni við endurskoðun aðalskipulags.

„Það er ekki þannig að við ætlum að myrkva öll svæði. Bæir verða ekki beðnir um að slökkva öll ljós en kannski að þau verði dempuð eða stillt eftir hreyfiskynjurum. Með led-lýsingu er hægt að ráða birtustigi betur en áður og stýra tímasetningu. Í dag eru til dæmis bensínstöðvar og skólalóðir oft upplýstar allan sólarhringinn en ekkert mál væri að dempa þá lýsingu og jafnvel slökkva ef tilefni er til. Við höfum séð fjölmörg dæmi utan úr heimi af bæjum þar sem það sem fólk vill sýna er lýst upp, til dæmis kirkjur, en annað er dempað meira.“

Anton Kári Halldórsson, sveitarstjóri í Rangárþingi eystra, segir að þó ekki sé búið að taka erindi ferðaþjónustuaðilanna fyrir í stjórnsýslu sveitarfélagsins búist hann fastlega fyrir að því verði vel tekið og unnið verði með það áfram. „Það eru mikil tækifæri í að fá fleiri ferðamenn hingað sem margir eru komnir til að upplifa myrkrið og norðurljósin. Við gætum ef til vill útbúið einhverja aðstöðu fyrir þá og hugað betur að öryggismálum. Á móti kæmu þá einhver tækifæri varðandi þjónustu og fleira.

Gagnast í skipulagsmálum

Almennt séð er þetta líka forvitnilegt því lýsing getur haft gríðarleg áhrif á okkur og við lýsum oft að óþörfu. Það getur verið áhugavert að horfa til lýsingar í skipulagi, til dæmis á nýjum íbúðahverfum. Sveitarfélög hafa almennt ekki kveikt á þessu held ég en það kann að vera jákvætt að hafa grófa stefnu í aðalskipulagi.“

Höf.: Höskuldur Daði Magnússon