50 ára Jóhanna Bryndís er fædd í Reykjavík en uppalin í Hafnarfirði, fyrir utan eitt ár á Sauðárkróki og fjögur ár í Svíþjóð, þar sem hún bjó frá fimm til níu ára aldurs, en býr nú í Garðabæ. Jóhanna útskrifaðist með embættispróf í lögfræði frá…

50 ára Jóhanna Bryndís er fædd í Reykjavík en uppalin í Hafnarfirði, fyrir utan eitt ár á Sauðárkróki og fjögur ár í Svíþjóð, þar sem hún bjó frá fimm til níu ára aldurs, en býr nú í Garðabæ. Jóhanna útskrifaðist með embættispróf í lögfræði frá Háskóla Íslands árið 2000 og LL.M.-próf í Evrópu- og þjóðarétti frá kaþólska háskólanum í Leuven í Belgíu árið 2011. Allt frá útskrift hefur Jóhanna starfað í utanríkisþjónustunni eða í tæp 24 ár. Á þeim tíma hefur hún gegnt átta mismunandi störfum, bæði hér heima og erlendis, en gegnir nú stöðu deildarstjóra Norðurlandadeildar, sem fer með norrænt og vestnorrænt samstarf og samræmingu þátttöku íslenskra stjórnvalda í störfum Norrænu ráðherranefndarinnar.
„Mér finnst heilmikil tímamót að verða 50 ára og því við hæfi að staldra við með líf og störf. Mér er efst í huga þakklæti fyrir lífið, fólkið mitt, góða heilsu og fyrir að hafa verið almennt lánsöm í lífinu. Það er margt skemmtilegt á döfinni, s.s. að halda upp á 30 ára stúdentsafmæli frá MR og læra á brimbretti með fjölskyldunni í Frakklandi, sem er 50 ára afmælisgjöf okkar til mannsins míns og er rækilega út fyrir kassann fyrir okkur öll.

Áhugamál mín eru samvera með fjölskyldu og vinum, ferðalög, að elda og borða góðan mat, og að hreyfa mig sem ég er að reyna gera meira af, og fleira. Svo finnst mér líka gaman í vinnunni í fjölbreyttum, spennandi og krefjandi verkefnum.“

Fjölskylda Eiginmaður Jóhönnu er dr. Finnur Magnússon LL.M., hæstaréttarlögmaður á Juris lögmannsstofu, f. 1973. Börn þeirra eru Anna Bryndís, f. 2007, nemandi í Menntaskólanum í Reykjavík, Magnús, f. 2010, nemandi í Garðaskóla, og Helga Guðrún, f. 2013, nemandi í Flataskóla. Foreldrar Jóhönnu eru hjónin Anna S. Guðmundsdóttir, f. 1949, lífeindafræðingur, og Bjarni Jónasson, f. 1949, heimilislæknir, bæði komin á eftirlaun og búsett í Kópavogi. Systkini Jóhönnu eru Ólöf Kristjana, f. 1978, krabbameinslæknir, Bjarney Anna, f. 1984, lögmaður og fjárfestatengill, og Jónas, f. 1986, verkfræðingur.