Harður Jason Statham í The Beekeeper.
Harður Jason Statham í The Beekeeper.
Ég hef alltaf haft gaman af enska hasar- og slagsmálaleikaranum Jason Statham. Hann stendur alltaf fyrir sínu, burtséð frá gæðum þeirra kvikmynda sem hann leikur í og þau eru sjaldnast mikil, oftast nær lítil sem engin en örfáar undantekningar eru þó þar á

Helgi Snær Sigurðsson

Ég hef alltaf haft gaman af enska hasar- og slagsmálaleikaranum Jason Statham. Hann stendur alltaf fyrir sínu, burtséð frá gæðum þeirra kvikmynda sem hann leikur í og þau eru sjaldnast mikil, oftast nær lítil sem engin en örfáar undantekningar eru þó þar á. Vefurinn Rotten Tomatoes metur gæði kvikmyndarinnar Spy þau mestu af myndum Stathams enda gamanmynd þar sem honum tekst vel að gera grín að sjálfum sér, rámri röddinni og svipbrigðalausu andlitinu. Verst þykir In the Name of the King: A Dungeon Siege Tale, sem ég hef ekki séð og er greinilega skelfileg.

Nýjasta útspil Stathams er hasarmyndin The Beekeeper, Býflugnabóndinn, sem nú má nálgast á Amazon Prime-veitunni. Hún er hörmung og unnendur slakra hasarmynda verða því ekki sviknir. Statham leikur býflugnabónda með vafasama fortíð og fer allt í bál og brand frá nánast fyrstu mínútu þegar öldruð vinkona hans er rænd aleigunni af óprúttnum netglæpamönnum. Hefnir býflugnabóndinn hennar allsvakalega og á endanum liggja tugir manna í valnum. Statham lætur einstaka gullkorn auðvitað flakka milli limlestinga sem flest snúast um líkindi manna og býflugna. Líkt og Statham stinga þær aðeins í neyð og því best að vera ekkert að abbast upp á þær, ekki frekar en Statham.