Evrópubikar Færeyingurinn Allan Norðberg stoltur með Evrópubikarinn á hóteli Valsmanna í Grikklandi. Hann skoraði af öryggi í vítakeppninni.
Evrópubikar Færeyingurinn Allan Norðberg stoltur með Evrópubikarinn á hóteli Valsmanna í Grikklandi. Hann skoraði af öryggi í vítakeppninni. — Morgunblaðið/Jóhann Ingi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Ég er heldur betur fyrsti Færeyingurinn til að vinna Evrópubikar,“ sagði Allan Norðberg en hann vann Evrópubikarinn með karlaliði Vals í handbolta á laugardagskvöld er liðið vann Olympiacos í vítakeppni í ótrúlegri stemningu í seinni úrslitaleiknum í Friðar- og vináttuhöllinni í Aþenu

Evrópubikar

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is

„Ég er heldur betur fyrsti Færeyingurinn til að vinna Evrópubikar,“ sagði Allan Norðberg en hann vann Evrópubikarinn með karlaliði Vals í handbolta á laugardagskvöld er liðið vann Olympiacos í vítakeppni í ótrúlegri stemningu í seinni úrslitaleiknum í Friðar- og vináttuhöllinni í Aþenu.

Valur vann fyrri leikinn á heimavelli 30:26 en Olympiacos svaraði með 31:27-sigri á laugardag og réðust úrslitin því í vítakeppni. Í henni skoraði Valur úr öllum fimm vítum sínum en Savvas Savvas skaut í slána í fimmta víti Olympiacos.

„Það er ótrúlega gaman að geta sagt að ég sé fyrsti Færeyingurinn til að vinna svona keppni og ég er stoltur af því. Ég er líka stoltur af þessu liði og ánægður með að vera Valsari,“ sagði Allan.

Erfitt en naut þess

Leikurinn á laugardag var gríðarlega erfiður fyrir Valsmenn og lentu þeir mest átta mörkum undir og í leiðinni fjórum mörkum undir í einvíginu. Þeir sýndu hins vegar mikinn styrk í að jafna einvígið í lokin og knýja fram vítakeppni.

„Þetta var mjög erfiður leikur og lætin í stuðningsmönnunum þeirra voru rosaleg. Sem leikmaður viltu upplifa svona aðstæður, þótt það sé mjög erfitt meðan á leik stendur. Ég naut þess á sama tíma.

Ég var í sóknarskiptingu og ég var að reyna að búa til einhver læti. Ég sagði við strákana að þetta væri ekki búið og við ættum aldrei að gefast upp. Við gerðum það aldrei og hættum aldrei. Við mættum til að vinna titilinn og það tókst.“

Tók víti númer fjögur

Allan tók fjórða víti Vals í vítakeppninni, stóðst pressuna og skoraði af öryggi.

„Ég var stressaður en á sama tíma ákveðinn. Óskar Bjarni sagði að ég ætti víti númer fjögur og þá var ég búinn að ákveða hvert ég ætlaði að skjóta. Ég ætlaði að gera það vel og það skilaði marki og hjálpaði okkur að vinna titil.

Þetta var fyrsta vítið mitt frá árinu 2018. Ég tók vítin heima í Færeyjum en ekki síðan ég kom til Íslands. Mér líður vel á stóru augnablikunum og mér líður vel þegar ég þarf að taka ábyrgð,“ sagði Allan.

Eins og gefur að skilja brutust út mikil fagnaðarlæti hjá Valsmönnum þegar boltinn hafnaði í slánni í vítinu hjá Savvas Savvas og Evrópubikartitillinn var í höfn.

Hoppaði beint á Björgvin

„Það fyrsta sem ég gerði var að hoppa á Björgvin og gefa honum risastóran koss. Ég var ekkert eðlilega ánægður og það var mikið spennufall. Það er erfitt að lýsa þessu öllu því þetta er stærra en maður áttar sig á.

Það var stórkostlegt að fagna með bikarinn í lokin. Ég er ekki vanur því að vinna titla á mínum ferli og þetta er langstærsti titill sem ég hef unnið og ég hef enn ekki almennilega áttað mig á þessu. Það eru margar tilfinningar í gangi,“ sagði sá færeyski.

Tilboð Vals var óvænt

Hann var ekki sáttur við síðasta tímabil sitt hjá KA og það kom honum því á óvart að fá símtal frá Val og tilboð um að ganga í raðir félagsins fyrir tímabilið.

„Ég var alls ekki búinn að eiga gott tímabil með KA, spilaði lítið, og þegar ég spilaði gekk það ekki vel. Ég hætti hjá KA og fór í frí til Danmerkur og þá fékk ég allt í einu símtal frá bæði Bjögga og Óskari Bjarna og þeir spurðu hvort ég væri til í að koma í Val.

Ég var án félags og að spá í að fara aftur heim til Færeyja. Svo kom þetta allt í einu upp og það var mjög auðvelt að segja já. Þetta er stórkostlegt félag sem er alltaf að sækja titla. Ég vil vera partur af því.“

Rosalega þakklátur

„Strákarnir eru búnir að taka ógeðslega vel á móti mér. Mér líður ótrúlega vel með þeim. Það er alls ekki sjálfgefið að allir taki svona vel á móti þér þegar þú kemur í nýtt lið. Ég er rosalega þakklátur fyrir það.“

Allan er frá Ströndum í Færeyjum. Hann viðurkenndi að það hefðu verið viðbrigði að flytja til Íslands og sérstaklega til Reykjavíkur, sem er stór borg á hans mælikvarða.

Reykjavík eins og stórborg

„Ég er frá bæ þar sem búa um það bil 1.000 manns. Fyrir mig að búa í Reykjavík er eins og að búa í rosalegri stórborg. Mér leið mjög vel á Akureyri líka,“ sagði Allan.

Færeyjar hafa gert sig gildandi á alþjóðasviði í handbolta, bæði í karla- og kvennaflokki, á undanförnum árum. Karlaliðið lék á sínu fyrsta stórmóti á EM á þessu ári og rétt missti af sæti á HM á næsta ári. Þá er kvennaliðið á leiðinni á sitt fyrsta stórmót á EM í lok árs.

Færeyjar eru handboltaþjóð

„Handboltinn er að taka yfir Færeyjar. Þetta er rosaleg handboltaþjóð núna. Það er endalaust af efnilegum og duglegum leikmönnum, bæði strákar og stelpur. Færeyingar leggja alltaf allt í sölurnar fyrir liðin sín og sig sjálfa. Hákun West Av Teigum komst t.d. í úrslit Evrópudeildarinnar með Füchse Berlin og svo er Elias á Skipagøtu kominn í undanúrslit Meistaradeildar með Kiel. Það er allt að gerast í Færeyjum. Við getum verið ógeðslega stolt af handboltafólkinu okkar.“

Færeyingar fögnuðu Val

Færeyska karlalandsliðið sló í gegn á EM í byrjun árs er liðið gerði jafntefli við Noreg, 26:26. Noregur var með þriggja marka forskot þegar rúm mínúta var eftir og varð allt vitlaust þegar Elias á Skipagøtu jafnaði á lokasekúndunum.

„Ég vil ekki bera Noregsleikinn saman við sigurinn með Val því þetta eru tvö mismunandi augnablik. Þessi Noregsleikur var risastór og eitthvað sem ég verð alltaf stoltur af. Þetta eru augnablikin sem þig dreymir um,“ sagði hann.

Allan var einn vinsælasti maður Færeyja í nokkra klukkutíma eftir að Evrópubikarinn fór á loft.

„Ég get ekki lýst því hvað ég er þakklátur fyrir stuðninginn sem ég hef fengið frá Færeyjum. Ég hef fengið endalaust af skilaboðum frá fólki sem ég þekki ekki neitt. Nánast allir sem fylgjast með handbolta í Færeyjum horfðu á og fögnuðu vel eftir leik,“ sagði Allan Norðberg.