Þorgrímur Bragi Pálsson fæddist á Sauðárkróki 3. janúar 1937. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja 20. maí 2024.

Foreldrar Braga voru hjónin Pálína Bergsdóttir f. 1902, d. 1985, og Páll Þorgrímsson, f. 1893, d. 1965.

Systkini Braga: Ingibjörg, d. 1994, Sigtryggur Bergþór, d. 1964, Sigmundur Birgir, d. 2003, og Jóhanna Sigríður, d. 2016.

Bragi giftist 15. nóv. 1964 Guðrúnu Ástu Þórarinsdóttur, f. 15.5. 1941, d. 11.11. 2022.

Börn Braga og Gunnu eru: 1) Kristín, f. 1964, hún á tvö börn og tvö barnabörn. 2) Bragi, f. 1967, d. 1967. 3) Tryggvi Þór, f. 1967, maki Áslaug B. Guðjónsdóttir, þau eiga tvö börn og tvö barnabörn. 4) Ólafur Bragi, f. 1971, maki Gunnheiður Kjartansdóttir, þau eiga tvö börn og eitt barnabarn. 5) Birgir Már, f. 1973, maki Halldóra G. Jónsdóttir, þau eiga þrjú börn. Birgir Már á dóttur úr fyrra sambandi.

Bragi ólst upp á Sauðarkróki þar sem hann gekk í grunnskóla og iðnskóla. Hann lærði húsasmíði og var með meistararéttindi í þeirri iðn. Á yngri árum vann hann ýmis störf og byrjaði 11 ára að vinna á bílaverkstæði, 14 ára vann hann við mælingar hjá Hitaveitu Sauðárkróks, 15 ára var hann við að grafa skurði hjá Hitaveitunni með haka og skóflu. 16 ára fór á Keflavíkurflugvöll til að vinna fyrir herinn. Sautján ára vann hann við afgreiðslustörf í Verslun Haraldar Júlíussonar. Nítján ára réð hans sig til vinnu hjá Rafmagnsveitum ríkisins við línulagnir þar sem farið var víða um land. Hann fór á samning hjá Trésmíðaverkstæðinu Hlyn á Sauðárkróki og kláraði sveinspróf og öðlaðist meistararéttindi nokkru seinna. Á samningstíma sínum byggðu hann og Sigmundur bróðir hans saman tveggja hæða hús á Skagfirðingabraut og áttu þeir sína hæðina hvor. Bragi flutti alfarið til Keflavíkur 1. apríl 1964 þar sem hann tók við rekstri Trésmíðaverkstæðis Þórarins Ólafssonar af tengdaföður sínum og rak það til ársins 1980. Árin 1982-1996 vann hann sem tollvörður á Keflavíkurflugvelli og frá 1996-2001 starfaði hann sem eftirlitsmaður og stjórnarformaður hjá Keflavíkurverktökum. Árið 2001 ákvað hann að láta af störfum og hann og Guðrún lögðust í ferðalög víða um heiminn og líka til að sinna barnabörnunum sem þau gáfu allan þann tíma sem þau þurftu.

Bragi var virkur félagi í Lionsklúbbi Keflavíkur. Til margra ára var hann virkur í Stangveiðifélagi Keflavíkur og hafði yndi af því að veiða. Hans helsta áhugamál var samt sumarbústaðurinn í Þrastaskógi sem ber nafnið Hvíld.

Útför Braga Páls fer fram frá Keflavíkurkirkju í dag, 28. maí 2024, klukkan 13.

Elskulegur faðir okkar hefur kvatt þetta jarðlíf, saddur lífdaga. Hvað getum við sagt og hvað eigum við að segja? Pabbi var okkar fyrirmynd, okkar besti vinur og okkar besti leiðbeinandi í lífinu. Það voru pabbi og mamma sem komu okkur til manns, kenndu okkur að bera virðingu fyrir lífinu, bera virðingu fyrir öðru fólki. Kannski ekki síst að skilja tilgang vinnunnar en pabbi var 11 ára þegar hann byrjaði í launaðri vinnu til að létta undir með heimilinu á Sauðárkróki. Hann var mikill fjölskyldumaður sem unni sínu fólki vel og mátti ekki til þess vita að eitthvert ósætti væri okkar á milli, enda hafa hans gildi í lífinu leitt til þess að fjölskyldan hefur alla tíð átt mikla og góða samleið þar sem allir eru jafnir. Enda var það eitt mottó sem fylgdi honum í gegnum lífið og náði að smita yfir til okkar, en það er „að fara aldrei ósáttur að sofa“.

Ekki munum við eftir því að pabbi hafi talað illa um annað fólk eða stofnað til illinda. Við höfum frekar upplifað það að pabbi okkar hafi notið virðingar fyrir hversu þægilegur hann var í allri umgengni og framkomu

Það var eitt sem háði pabba í tæp 70 ár en það var bakið. Um tvítugt lenti hann í slysi þar sem hann fauk niður af tveggja hæða húsi og lenti á bakinu. En kvartaði hann einhvern tíma? Ekki svo við vitum eða yrðum vör við. Alltaf með sitt jafnaðargeð sama hversu miklir verkirnir voru. Svo ekki sé talað um allar viðgerðirnar sem gerðar voru á hjarta hans.

Áhugamál pabba var sumarbústaðurinn Hvíld, veiði og svo barnabörnin sem þurftu ekki að suða mikið þegar þurfti að skutla eða fá að koma í mat.

Samverustundirnar voru margar hjá okkar samheldnu fjölskyldu. Margar, eiginlega óteljandi ferðir til Englands að heimsækja skyldmenni mömmu. Ferðir í sólina til að fagna stórafmælum. Þá eru veiðiferðirnar þar sem synirnir voru teknir með ógleymanlegar.

Pabbi var virkur félagi í Lionsklúbbi Keflavíkur í hartnær 50 ár. Það er því kannski táknrænt að klúbburinn var lagður niður á vormánuðum þessa árs, nokkrum vikum áður en pabbi kvaddi.

Móðir okkar dó fyrir einu og hálfu ári en mamma og pabbi voru alveg ofboðslega samrýnd. Þetta var pabba erfitt og markaði hann svolítið það sem eftir lifði. Hann lagðist síðan inn á HSS í desember 2023 vegna sýkingar og komst ekki heim eftir það.

Elsku pabbi, takk fyrir allt, takk fyrir allt sem þú gerðir fyrir okkur, takk fyrir allt sem þú gerðir fyrir barnabörnin þín. Það er bara ekki til nógu stórt takk til að þakka fyrir allt frá þér, manni sem fékk stórt og mikið handrit í fangið við fæðingu. „Hvíldin“ verður ekki meira á ferðinni.

Við endum þetta eins og þið mamma kvödduð okkur alltaf: „Takk fyrir kíkið.“

Við elskum þig og söknum þín mikið.

Þín börn,

Kristín, Tryggvi Þór,
Ólafur Bragi og Birgir Már.

Elsku afi okkar. Takk fyrir allar samverustundirnar og allt sem þú gafst og gerðir fyrir okkur. Þegar við barnabörnin hugsum til baka þá er það húmorinn, hlýjan og þrjóskan sem okkur finnst einkenna þig. Þú varst sá heiðarlegasti og með sterka réttlætiskennd og bárum við öll mikla virðingu fyrir þér og fundum fyrir virðingu gagnvart þér hjá fólki þegar þú barst í tal. Þú varst alltaf hreinn og beinn. Ef mann vantaði ráðleggingar þá sagðir þú okkur hlutina eins og þeir voru í raun og veru og undirbjóst okkur fyrir erfið verkefni. Öll eigum við góðar minningar frá Langholtinu; skyrið sem þú gerðir á föstudögum, jólaboðin og gamlárskvöldin.

Nú er komið að kveðjustund og erfitt er að finna réttu orðin. Eins sárt og við munum sakna þín þá huggar það hjarta okkar að hugsa til þess að þú sért loksins orðinn verkjalaus, kominn í draumalandið til ömmu og getir tekið langa göngutúra, raulandi gömul dægurlög með ástinni þinni.

Þín barnabörn,

Guðrún Ásta, Jóhannes Bragi, Sigfríður, Thelma Hrund, Thelma Rún, Bragi Már, Andri Þór, Þórarinn Darri, Jón Arnar og Harpa Guðrún.

Mig langar að minnast Braga með nokkrum orðum. Við Bragi vorum nánast jafnaldrar, hann fæddur 4. janúar en ég 10. janúar 1937.

Leiðir okkar lágu saman í Keflavík. Bragi var byggingarmeistari og tók að sér að sjá um byggingu einbýlishúss sem við Magga ætluðum að reisa í Baldursgarði 2 í Keflavík. Fórst honum það vel úr hendi. Fluttum í húsið í ágúst 1973 þrátt fyrir tafir vegna Vestmannaeyjagossins.

Aðalkynni okkar Braga voru þó í Lionsklúbbi Keflavíkur í yfir 50 ár. Oft sátum við saman og kynntumst því vel. Nú er hún Snorrabúð stekkur því búið er að leggja klúbbinn okkar niður vegna skorts á ungu fólki.

Um miðjan janúar veiktist ég og var lagður inn á HSS. Þar var m.a. fyrir Bragi vinur minn. Við vorum nokkuð lengi saman á stofu og dáðist ég að þrautseigju hans og æðruleysi. Þetta var mjög erfið lega. Eftir langa sjúkrahúsvist lést Bragi 20. maí sl.

Ég vil með þessum fátæklegu orðum minnast góðs drengs og samferðamanns í 50 ár. Samúðarkveðjur sendi ég aðstandendum hans sem stóðu við hlið hans allt fram í andlátið.

Jón Eysteinsson.