Guðbjörg Halldóra Halldórsdóttir fæddist 28. maí 1924 á Berjadalsá á Snæfjallaströnd í Norður-Ísafjarðardjúpi. Hún lést á Landspítalanum 11. maí 2024 umvafin ástvinum.

Foreldrar hennar voru Ólöf Helga Fertramsdóttir, f. 1893, d. 1992, og Halldór Marías Ólafsson, f. 1894, d. 1955. Systkini hennar voru Bjarni Fertram, f. 1922, d. 1989, Guðmundur Gunnar, f. 1926, d. 2018, Ólafur, f. 1927, d. 2004, Ingólfur Sigurjón, f. 1930, d. 2010, Margrét Indíana (Maggý), f. 1931, d. 2001, og Ragnheiður (Stella), f. 1936. Fóstursystir hennar var Ragnheiður Margrét Friðbjarnardóttir (Magga), f. 1915, d. 1986.

Guðbjörg kynntist eiginmanni sínum Pétri Elíasi Péturssyni, f. 1921, d. 1993, á Ísafirði 1941 og gengu þau í hjónaband 6. janúar 1945. Börn þeirra hjóna eru:

1) Guðmunda Guðný, f. 1944, maki Pétur Helgi Ragnarsson, f. 1935, d. 2017. Börn þeirra: Pétur Marías, f. 1963, Magnhildur, f. 1965, Ragna, f. 1969, Ólafur Helgi, f. 1977, og Heiður Ósk, f. 1987. 2) Pétur Theodór, f. 1948, maki Katrín Markúsdóttir, f. 1949, d. 2020. Börn þeirra: Markús Elvar, f. 1974, Guðbjörg Huld, f. 1976, og Rakel Ýr, f. 1980. 3) Nína Dóra, f. 1955, maki Haraldur Jóhann Jóhannsson, f. 1950, d. 2017. Börn þeirra: Jóhann Hilmar, f. 1976, Elías Þór, f. 1979, og Laufey, f. 1986. 4) Baldey Sigurbjörg, f. 1957. Barn hennar með Einari Matthíassyni er Matthías Pétur, f. 1974. Börn hennar með Árna Arnari Sigurpálssyni eru Jón Óskar, f. 1978, og Ína Björg, f. 1984. Alls eru afkomendur þeirra hjóna 52 auk tengdabarna og tengslabarna.

Guðbjörg og Pétur fluttu til Reykjavíkur um 1946-1947 þaðan sem Pétur stundaði sjóinn. Þá var mikill húsnæðisskortur í Reykjavík og bjuggu þau framan af við þröngan og erfiðan kost þar til þau fengu úthlutaða lóð í Mosgerði 21. Þar byggðu þau sér hús yfir fjölskylduna af mikilli elju og þrautseigju. Þangað fluttu þau 10. október 1954 og bjuggu þau hjónin þar fram að hinstu stund.

Guðbjörg stundaði nám í fatasaum en vann alla tíð sem heimavinnandi húsmóðir. Samhliða því starfaði hún lengst af við ræstingar hjá Samvinnutryggingum, sem síðar urðu Vátryggingafélag Íslands, og vann þar til starfsloka árið 1995 eða í rúm 30 ár.

Guðbjörg var mjög virk í félagsstörfum, meðal annars hjá Kvenfélagi Bústaðasóknar og kvennadeild Slysavarnafélags Íslands, þar sem hún var gerð að heiðursfélaga. Hún gaf krafta sína ríkulega í þágu þessara félaga og naut einnig ávinnings af þátttöku á ýmiskonar námskeiðum og ferðalögum á vegum þeirra. Þau hjónin ásamt vinahjónum stofnuðu gömludansaklúbbinn Eldingu í Hreyfilshúsinu. Þær vinkonurnar sáu um miðasölu og kaffibrauð ofan í hljómsveitina sem spilaði vikulega fyrir dansi yfir vetrartímann, til margra ára. Þau hvöttu og studdu börnin sín til virkrar þátttöku í ýmiss konar heilbrigðu félagsstarfi.

Útför Guðbjargar fer fram frá Lindakirkju í dag, 28. maí 2024, klukkan 13.

Elsku besta Gugga amma.

Nú er komið að kveðjustund og eftir standa ótal minningar um þinn hlýja faðm, kærleikann sem þú sýndir okkur alla tíð og skemmtilegar samverustundir. Þegar við rifjum upp stundirnar okkar saman þá kemur fyrst og síðast upp í hugann þakklæti fyrir allt sem þú kenndir okkur og gerðir fyrir okkur. Nýtni, nægjusemi, útsjónarsemi, þolinmæði og seigla eru eiginleikar sem einkenndu þig og við lærðum af þér.

Þú hafðir alltaf nóg fyrir stafni en hafðir samt alltaf tíma fyrir okkur. Þú passaðir alltaf að allir fengju hlutverk og verkefni við hæfi í þeim verkum sem þurfti að sinna. Hvort sem það var í kartöflugörðunum í Sumó við Rauðavatn, í eldhúsinu við að baka pönnukökur, smyrja flatkökur og gera slátur eða við þrif í Samvinnutryggingum. Þannig áttir þú stóran þátt í að kenna okkur til verka, að vinna saman og taka ábyrgð. Þú varst þó líka fljót að skynja þegar spennustigið hjá barnabörnunum var orðið heldur hátt og þá sendir þú okkur út að hlaupa núllið, já eða áttuna þegar orkan var extra mikil.

Ótal minningar tengjast Sumó við Rauðavatn. Þar komu allir saman og lögðu sitt af mörkum við kartöflurækt, garðyrkju og viðhald bústaðarins. Að loknu góðu dagsverki voru bornar fram dýrindis kræsingar sem gjarnan voru borðaðar undir berum himni. Umhverfið var ævintýraheimur þar sem vatnið, skógurinn og ýmislegt fleira kom við sögu.

Við systkinin þrjú vorum öll svo lánsöm að fá að búa hjá þér í Mosgerðinu meðan við vorum að stíga okkar fyrstu skref yfir í sjálfstætt líf á unglingsaldri. Risið í Mosgerðinu var fyrsta heimili okkar systkinanna allra eftir að við fluttum að heiman. Með dyggum stuðningi frá þér tókum við okkar fyrstu skref við að standa á eigin fótum. Í Mosgerði var alltaf pláss fyrir hópinn þinn og alla sem honum fylgdu. En þú áttir líka stórt hjarta og þú varst ekki bara Gugga amma okkar heldur líka Gugga amma svo miklu fleiri sem ekki endilega tengdust þér blóðböndum.

Umhyggja þín fyrir velferð okkar átti sér fá takmörk. Sem dæmi um takmarkalausa umhyggju þá eigum við systkinin minningar um að dýrar rifnar tískugallabuxur hafi skilað sér úr þvotti bættar og fínar, okkur til mismikillar gleði. Þér var líka mjög umhugað um að við nærðumst vel og þér fannst pöntuð pizza ekki peninganna virði. Þá vildir þú nú heldur að við myndum gæða okkur á þínum frægu ömmupissum, eins og þú kallaðir þær. Þú varst mikil hannyrða- og handverkskona og við njótum enn í dag ýmissa listaverka sem þú skapaðir í gegnum árin.

Nú hefst nýr kafli í þínu ævintýri og þú ert komin í ljósið og í faðm fólksins þíns hinum megin. Við eigum eftir að sakna þín en minning þín lifir í hjörtum okkar og við vitum að þú munt vaka yfir okkur.

Lát hana ganga inn

í dýrlega paradís þína

og gef henni eilíft líf

í upphöfnum Rósagarði þínum.

Svo hún megi sökkvast í úthafi ljóssins

í heimi leyndardóma

(‘Abdu’l‑Bahá)

Takk fyrir allt, elsku Gugga amma.

Þín barnabörn,

Matthías (Matti) Pétur,
Jón Óskar og Ína Björg.

Elsku Gugga amma. Þegar ég hugsa til þín fara hugsanir mínar til minna fyrstu minninga í lífinu. Til kjarnans. Það sem mótaði mig sem manneskju. Þú varst alltaf til staðar fyrir mig frá fyrsta degi í mínu lífi. Í þeim minningum sem ég næ að fanga í dag, sem mínar fyrstu minningar, þá ert þú, Pétur afi, Mosgerði og sumó við Rauðavatn út um allt í þeim minningum, alla mína barnæsku, unglingsár og fram á fullorðinsár.

Elsku amma, þú hefur verið að eiga við minnisglöp síðustu ár og að ákveðnu leyti varstu farin í annan heim vegna þessa. Síðustu ár hafa aðstæður í lífinu, fjarlægðir okkar á milli, orðið til þess að við höfum ekki mikið hist en það voru hittingar og þeir voru gulls ígildi. Þó svo að minnið væri farið að vinna gegn þér síðustu árin fann maður alltaf hlýjuna frá þér og hvað það skipti þig miklu máli að hittast. Þú brostir, leiddir hönd mína, hallaðir þér upp að mér og oftar en ekki sannfærðist ég um að þú myndir eftir elsku drengnum þínum, líkt og þú ávarpaðir mig oft þegar við hittumst í denn.

Elsku amma, ég get ekki lýst því hvað þú átt mikið í mér, hvað þú og Pétur afi gáfuð minni barnæsku mikið og hvað ég saknaði ykkar oft þegar ég var annars staðar í minni barnæsku. Þið voruð máttarstólpar við að móta mig sem manneskju. Fyrir það verð ég ykkur ævinlega þakklátur. Elsku amma og afi. Þið voruð magnað teymi. Harðdugleg, eljusöm, ákveðin, hjartahlý og allt það sem ég get ímyndað mér, hvernig góð og dugleg manneskja á að vera. Þið eruð af kynslóð Íslendinga sem upp til hópa höfðu ekki neitt á milli handanna en með góðum gildum og harðfylgi unnu sitt líf og Ísland til þeirra lífsgæða sem við flest þekkjum í dag. Þið eruð mögnuð kynslóð Íslendinga sem núna hvíla lúin bein.

Maður brosir út í annað þegar minningar koma upp, þegar þú varst að reyna að skóla Pétur afa til, tóbakið var út um allt, hann átti að hætta að segja börnunum þessa vitleysu, þ.e. oft sögur úr ungdómi afa sem mér fannst gulls ígildi en Guggu ömmu ekki. Ég fæ vatn í munninn þegar ég hugsa til allra kræsinganna sem oftar en ekki voru í boði í þínum húsum, elsku amma. Ég viðurkenni það, ég hafði algjöra matarást á þér. Þú varst meistarakokkur og leyfðir svo mörgum að njóta góðs af því.

Elsku amma, þú hefur snert við svo mörgum. Þú hefur gefið svo mikið af þér. Þú lagðir svo sannarlega þitt af mörkum á þínum lífstíma, þessum tæpum 100 árum. Núna færð þú hvíldina sem ég veit að þú ert mjög sátt við, enda er ég sannfærður að allir góðir englar taka á móti þér. Þú verður í mínu hjarta á meðan ég dreg andann. Bless elsku Gugga amma. Takk fyrir þinn tíma, atorku, dugnað, hlýju og svo miklu meira.

Þinn drengur,

Jóhann Hilmar Haraldsson.