Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir
Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir
Flokkur fólksins er ekki tilbúinn að gefast upp því það getur skipt sköpum fyrir eldra fólk að hafa einhvern til að tala við, einhvern sem hlustar.

Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir

Á fundi Landssambands eldri borgara fyrir skemmstu var m.a. rætt um að ofbeldi gegn eldra fólki hefði aukist. Slíkar fréttir valda okkur flestum óhug. Rannsóknarniðurstöður sýna að gerendur eru oftast einhverjir í innsta hring eða sá sem viðkomandi er háður og nýtur stuðnings frá. Aldraðir eru þess vegna ólíklegri til að tilkynna ofbeldið.

Samtalið besta forvörnin

Í vikunni sem leið lagði Flokkur fólksins fram tillögu um að borgarráð samþykkti að fela velferðarsviði að bjóða eldra fólki í Reykjavík upp á samtalsþjónustu. Þetta er lagt til sökum þess að besta forvörnin gegn ofbeldi í garð eldra fólks er samtalið. Í gegnum samtalið gefst tækifæri til að kanna líðan og hlusta eftir því hvort eitthvað amar að. Margt eldra fólk í dag var alið upp við að bera harm sinn í hljóði, harka af sér og vera ekki að kvarta. Einnig var algengt að forðast það að vera byrði á öðrum.

Ábyrgðin er samfélagsleg og þau sem umgangast eldra fólk þurfa að vera vakandi. Þau þurfa einnig að vera áræðin og þora að stíga fram og benda á ef þau heyra eða sjá merki um ofbeldi, ef vísbendingar eða grunur er um að aldraður einstaklingur sé beittur ofbeldi af einhverju tagi.

Einmanaleiki og einsemd eldra fólks

Það er ekki óalgengt að þolendur ofbeldis segi ekki frá því heldur einangri sig. Þessi aldurshópur er engin undantekning á því. Auðvitað má ætla að þeir sem eru einstæðingar, eiga ekki fjölskyldu sem heimsækir þá, séu frekar einmana en þeir sem njóta stuðnings sinna nánustu. Þeir sem búa á hjúkrunarheimili geta verið einmana þótt þeir umgangist bæði annað heimilisfólk og starfsfólk. Það er nándin, tengslin og snertingin sem skiptir máli en umfram allt er það samtalið sem er besta forvörnin gegn einmanaleika.

Eldra fólk upp til hópa, án tillits til aðstæðna og umhverfis, sárlangar í fleiri stundir til að spjalla við aðra. Starfsfólk hjúkrunarheimila er oft undir álagi t.d. vegna undirmönnunar og getur því ekki verið sá félagsskapur sem heimilisfólk getur átt gæðastund með. Einnig eru aðstæður nú víða þannig að meirihluti starfsfólks skilur ekki mikla íslensku og talar hana jafnvel takmarkað. Velferðartækni hefur vissulega rutt sér til rúms og skilað góðum árangri. Dæmi um velferðartækni eru skjáheimsóknir. Í skjáheimsókn fer fram myndsímtal milli starfsmanns heimaþjónustu og íbúa, þar sem boðið er upp á fjölbreytta þjónustu. Það geta ekki allir í þessum aldurshópi nýtt sér velferðartækni eins og gefur að skilja. Þessi aldurshópur er e.t.v. sá minnst tæknivæddi af öllum aldurshópum utan þeirra allra yngstu.

Tillaga um sálfélagslegt meðferðarúrræði felld

Flokkur fólksins lagði til í febrúar 2023 í annað sinn að stofnað yrði sálfélagslegt meðferðarúrræði fyrir eldri borgara sem búa á hjúkrunarheimilum eða í heimahúsi. Tillagan var felld. Nú er gerð enn ein tilraunin. Flokkur fólksins er ekki tilbúinn að gefast upp í þessu máli því það getur skipt sköpum fyrir eldra fólk að hafa einhvern að tala við, einhvern sem hlustar. Það er ekki nóg að auka eingöngu samskipti í gegnum skjáinn heldur þarf einnig að standa vörð um samveru og nálægð.

Höfundur er oddviti Flokks fólksins í borgarstjórn Reykjavíkur.