Raunsæi breiðist út

Það eru allmörg atriði sem gera Úkraínu og leiðtogum landsins lífið örðugt í varnarstyrjöld sinni. Og það er sjálfsagt auðvelt fyrir alla að vera vitrir eftir á. Þannig má færa fyrir því rök að Rússar og leiðtogar þeirra í Kreml hafi verið fjarri því að vera tilbúnir til átaka, þegar þeir lögðu á djúpið í annað sinn.

Þegar fyrri átökin hófust fyrir 10 árum, árið 2014, hélt Obama forseti Bandaríkjanna á sínum spilum þannig, að þau virtust alls ekki vera á hendi hans og þessir atburðir, sem nú væru orðnir, væru á könnum ríkja Evrópu og sambands þeirra. En það samband og stærstu ríki þess voru ekki viðbúin neinu. Auðvitað vissi Obama betur en margur að þessi afstaða hans hlyti að þýða það að farið yrði í samtöl, þar sem helstu leiðtogar vestursins myndu sitja við borðið andspænis Pútín forseta Rússlands. Og þá kæmi fljótt í ljós að leiðtogar álfunnar, þá undir forystu Angelu Merkel Þýskalandskanslara, Francois Hollande forseta Frakklands og Davids Camerons forsætisráðherra Breta, ætluðu sér alls ekki að ögra Rússum með vopnaflutningum, þegar staðan væri svona veik.

Þetta kom á daginn í febrúar 2022, þótt aðrir leiðtogar hefðu þá komið til, bæði austan hafs og vestan, og þar væri meiri baráttuvilji en hjá þeirra fyrirrennurum. En þeir stóðu frammi fyrir því að mikill og raunverulegur viðbúnaður væri ekki fyrir hendi, svo að verulega munaði um hann. Allt þar til seinni stríðskaflinn hófst fyrir alvöru voru leiðtogar Úkraínu og þeir í Evrópu allsundraðir og áttu þess engan kost að ögra Pútín í hugsanlegum átökum vegna Minsk-sáttmálans, en Pútín taldi sig illa svikinn af viðsemjendum sínum um niðurstöðu þess sáttmála.

Styrjöldin í febrúar brast á tiltölulega óvænt og herir vesturveldanna, einkum ESB, voru óviðbúnir og lítill vilji til þess að bæta úr, hvert sem litið var. Bandaríkin þrýstu þó sífellt meira á aðra leiðtoga Evrópusambandsins. Pútín fann ylinn af því að varabirgðir vopnabúnaðar væru ekki þær sem talið var og ekki til staðar í Evrópu, eins og gengið hafði verið út frá. Þá höfðu ekki verið teknar ákvarðanir um það, hvaða búnað mætti láta Úkraínu fá, svo að ekki væri of langt gengið, enda óábyrgt að ögra Rússum óhóflega, þegar evrópskur vilji og geta voru svo naum, eins og komið var á daginn. Og öllum mátti vera ljóst að án Bandaríkjanna myndu bandamenn þeirra aldrei hreyfa sig spönn frá rassi.

Þá var aðeins ein leið opin og hún var „samningaleiðin“ við Pútín. Hann varpaði öndinni léttara og sá ekki betur en að hann fengi allt fyrir ekkert. Varla verður sagt að raunverulegt stríð hafi átt sér stað, ef borið er við atburðina sem urðu í lok febrúar 2022. „Samningarnir“ fóru fram í Minsk í Hvíta-Rússlandi og hefur Pútín haldið því fram síðan að þeir vopnahléssamningar hafi ekki verið virtir af viðsemjendum Rússa þótt skrifað hafi verið undir þá. Það var meginréttlæting Pútíns þegar hann í ársbyrjun 2022 safnaði saman álitlegum her og vopnabúnaði, þótt hluti hans hafi verið úr sér genginn.

Svo litið sé hratt yfir sögu þá var „Donbas-stríðið“ hófstilltara en síðar varð. Auðkýfingurinn Petro Proshenko, súkkulaðikóngurinn, varð forseti 2014 og gegndi embættinu til ársins 2019 og tók þá Selenskí við og Proshenko flúði til Rússlands en hefur snúið til baka. Selenskí var gert ljóst í heimsókn í Washington að tækist gagnárás herja hans ekki eða verulegur árangur næðist, rúmu ári fyrir bandarísku kosningarnar, yrði áhugi margra vestra kominn annað.