Kristín Bjarnadóttir
Kristín Bjarnadóttir
Þegar verulega reynir á, áföllin dynja yfir, eða leysa skal erfiðar stjórnarmyndanir, má treysta á lagni, innsæi, prúðmennsku og heilindi Katrínar.

Kristín Bjarnadóttir

Nýlega vakti landlæknir máls á því hve mikilvægt væri að gera vel við börn til að stuðla að jöfnuði og lífsgæðum fyrir alla. Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur steig heillavænlegt skref í þá átt þegar hún hjó á hnútinn í yfirvofandi verkfalli síðla vetrar með því að bjóða fram ókeypis skólamáltíðir. Þá voru tvær flugur slegnar í einu höggi: velferð barna sett í fyrirrúm, og þjóðarbúinu og samfélaginu öllu hlíft við þeim glundroða og efnahagslega skaða sem verkföll valda.

Okkur fer fækkandi sem munum langa verkfallið 1955, vöruskortinn, eldsneytisskortinn og erfiðleikana hjá fjölskyldum í baráttunni fyrir bættum kjörum. Sagan hefur oftlega endurtekið sig, svo að ekki sé minnst á kennaraverkföllin. Að þessu sinni voru stjórnvöld lausnamiðuð og völdu farsæla lausn fyrir barnafjölskyldur, lausn sem stuðlar jafnframt að bættri lýðheilsu.

Oft koma nemendur í skólann sinn án þess að hafa neytt morgunmatar til að geta sofið ögn lengur. Viðkvæðið er að lystin sé ekki komin. Svo líða ein og tvær og þrjár kennslustundir, sulturinn gerir vart við sig, óróinn eykst og athyglin dreifist. Kjöraðstæður til náms skapast þegar þörfum fyrir svefn og holla næringu er vel sinnt og nemendum líður vel. Skólamáltíðir geta skipt sköpum í því efni.

Lausn verkfallsins er dæmi um vinnubrögð Katrínar Jakobsdóttur, þáverandi leiðtoga ríkisstjórnarinnar. Hávaðalaust var leitað lausna, aðilar leiddir til samtals, en að engum vegið. Það er óhætt að mæla með Katrínu sem forseta Íslands. Hún mun koma fram sem óaðfinnanlegur fulltrúi þjóðarinnar hvar sem er, innan lands og utan. En þegar verulega reynir á, áföllin dynja yfir, eða leysa skal erfiðar stjórnarmyndanir, má treysta á lagni, innsæi, prúðmennsku og heilindi Katrínar.

Höfundur er fyrrverandi kennari í grunnskóla, framhaldsskóla og á menntavísindasviði HÍ.

Höf.: Kristín Bjarnadóttir