Mark Barbára Sól Gísladóttir skallar boltann í mark Vals.
Mark Barbára Sól Gísladóttir skallar boltann í mark Vals. — Morgunblaðið/Eyþór
Barbára Sól Gísladóttir, hægri bakvörður Breiðabliks, var besti leikmaðurinn í sjöttu umferð Bestu deildar kvenna í fótbolta að mati Morgunblaðsins. Barbára átti mjög góðan leik í stórleik deildarinnar á föstudagskvöldið þegar Breiðablik lagði Val…

Barbára Sól Gísladóttir, hægri bakvörður Breiðabliks, var besti leikmaðurinn í sjöttu umferð Bestu deildar kvenna í fótbolta að mati Morgunblaðsins.

Barbára átti mjög góðan leik í stórleik deildarinnar á föstudagskvöldið þegar Breiðablik lagði Val að velli, 2:1, í uppgjöri tveggja efstu liðanna í roki og rigningu á Kópavogsvelli. Hún fékk tvö M hjá Morgunblaðinu fyrir frammistöðu sína í leiknum en þar skoraði hún sigurmarkið með skalla eftir fyrirgjöf Öglu Maríu Albertsdóttur.

Með Selfossi og Bröndby

Barbára er 23 ára Selfyssingur og hafði fram að þessu tímabili leikið með Selfossi alla tíð, ef undan er skilið hálft tímabil með Bröndby í dönsku úrvalsdeildinni veturinn 2021-22. Hún lék fyrst með Selfyssingum í efstu deild aðeins 15 ára gömul árið 2016 og var strax árið eftir í stóru hlutverki þegar liðið vann sér aftur úrvalsdeildarsæti eftir eins árs fjarveru.

Með Selfyssingum lék Barbára 92 leiki í efstu deild og skoraði í þeim níu mörk, auk tímabilsins í 1. deild þar sem hún skoraði fjögur mörk í 17 leikjum. Með Bröndby skoraði hún tvö mörk í tíu leikjum í úrvalsdeildinni dönsku.

Til Breiðabliks í vetur

Hún gekk til liðs við Breiðablik í vetur og hefur leikið alla sex leiki Kópavogsliðsins í deildinni í vor en markið var hennar fyrsta fyrir félagið í deildinni.

Barbára á að baki 36 leiki með yngri landsliðum Íslands, frá U16 til U23, og þar af 22 leiki með U19 ára landsliðinu. Þá hefur hún spilað þrjá A-landsleiki, tvo þeirra í undankeppni EM á árinu 2020.

Enginn annar leikmaður fékk tvö M fyrir frammistöðu sína í sjöttu umferð deildarinnar og úrvalsliðið sem sjá má hér fyrir ofan er með níu leikmenn sem hafa ekki verið valdir áður á tímabilinu. Eva Rut Ásþórsdóttir úr Fylki er í liðinu í þriðja sinn og Karen María Sigurgeirsdóttir úr Þór/KA er valin í annað sinn en Akureyrarliðið á þrjá leikmenn í liðinu.