Skáldið „Bókin vekur virkilega stórar spurningar,“ segir rýnir um skáldsögu Sigurjóns Bergþórs.
Skáldið „Bókin vekur virkilega stórar spurningar,“ segir rýnir um skáldsögu Sigurjóns Bergþórs. — Morgunblaðið/Arnþór Birkisson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Skáldsaga Umbrot ★★★½· Eftir Sigurjón Bergþór Daðason. Sæmundur, 2023. Kilja, 199 bls.

Bækur

Ragnheiður

Birgisdóttir

Skáldsagan Umbrot eftir Sigurjón Bergþór Daðason fór ekki hátt í jólabókaflóðinu en á engu að síður athygli skilið. Þetta er þriðja skáldsaga Sigurjóns en eftir hann hafa áður komið út verkin Hendingskast og Óbundið slitlag.

Umbrot fjallar um mann á miðjum aldri, Pétur, og þau umbrot sem verða í lífi hans (og sálarlífi) á stuttum tíma. Umbrotin eiga rætur sínar í lífi fólksins í kringum hann. Áföll sem vinir hans og fjölskylda glíma við gera það að verkum að hann fer að velta sinni eigin tilveru fyrir sér.

Sagan hefst á verkstæði þar sem Pétur vinnur við að smíða eftirlíkingar af útlimum og andlitshlutum. Það starf hans er táknrænt. Það er vinna besta vinar hans líka en hann leggur stund á þau vísindi er snúa að talgervlum unnum með gervigreind. Sagan snýst nefnilega að miklu leyti um uppruna og eftirlíkingar. Snemma kemur í ljós að Pétur er ættleiddur og frásögnin hverfist að mörgu leyti um þá staðreynd, þótt hann hafi hingað til lítið velt henni fyrir sér, en það tengist einnig þessu þema. Hugmyndir um sjálfsmynd manneskjunnar eru þannig settar í samhengi við heim eftirlíkinga.

Bókin vekur virkilega stórar spurningar. Hvað gerir okkur að þeim sem við erum? Hvernig skilgreinum við okkur sjálf? Hvernig skilgreinum við mennskuna? Og flestir þræðirnir í verkinu tengjast þeim á einhvern hátt og það gerir verkið mjög þéttofið þemalega séð. Hliðstæðurnar og andstæðurnar sem höfundurinn dregur fram í frásögninni eru sterkar. Maður og vél. Líf og dauði. Gervi og ekta. Líkami og hugur. Fortíð og framtíð. Og svo mætti lengi telja. Þetta er ein af þessum bókum sem auðvelt væri að skrifa bókmenntaritgerð um því það er af mörgu að taka á hugmyndafræðilegu plani.

Sigurjón er að einhverju leyti á sömu slóðum og Sigríður Hagalín Björnsdóttir í nýjasta verki hennar, Deus. Hún sótti líka innblástur í umræður um gervigreind, framtíð hennar og framtíð okkar mannanna í því samhengi. Svo eru í Umbrotum vissir þræðir sem fjalla um erfðir, líkamleika og sjálfsmynd sem minna á Ég er sofandi hurð, lokahlutann í þríleiknum Codex 1962 eftir Sjón.

Stöku sinnum kemur fyrir í verkinu að sögumannsröddin verði of frek, heimspekilegu vangavelturnar of áberandi, og það truflar flæði frásagnarinnar. Sterkari leikur hefði verið að leyfa sögunni að tala sínu máli enda af nógu að taka þar.

Sjónarhornið er Péturs og hann miðja frásagnarinnar þótt sagan sé sögð í þriðju persónu. En mikið af því sem bjátar á hjá honum snýst, eins og áður sagði, um fólkið í kringum hann. Bæði fjölskyldumeðlimir hans og vinir glíma við alls kyns vandamál og þó nokkuð alvarleg. Umbrotin í lífi Péturs hverfast ekki síst um áhrifin sem þau hafa á hann og hvernig hann speglar sína tilveru í þeim. Þessar hliðarsögur aukapersónanna eru forvitnilegar en þetta er stutt bók og það verður ekki mikið pláss til að kafa í þær. Aukapersónurnar verða þess vegna svolítið eins og táknmyndir fyrir hugmyndir frekar en heilsteyptar persónur og sögur þeirra verða lítil hliðarspor í frásögninni sem er miður því þær eru spennandi viðfangsefni.

Í verkinu eru sem sagt þræðir sem hefði verið hægt að kafa betur í. Það eru ákveðin atriði sem eru nánast bara nefnd í framhjáhlaupi en skipta samt máli til þess að skilja Pétur og vegferðina sem hann er á betur. Hugmyndirnar sem þarna koma fram, sem og sögur persónanna, eru efniviður í stórt verk og ég hefði gjarnan lesið meira um þetta allt saman.

Umbrot er að mörgu leyti aðdáunarverð tilraun. Þótt úrvinnslan heppnist ekki að öllu leyti þá er það hvernig höfundurinn dregur fram ólíkar hliðar á viðfangsefninu og setur fram alls kyns speglanir mjög sannfærandi.