Kvenlækningar Nú fær kvennadeild Landspítalans tvö ný tæki sem styrktarfélagið Líf kaupir.
Kvenlækningar Nú fær kvennadeild Landspítalans tvö ný tæki sem styrktarfélagið Líf kaupir. — Morgunblaðið/Ásdís
Nú þegar sumarið er brostið á er um að gera að reima á sig hlaupaskóna og fara út að hreyfa sig. Ekki er verra ef hlaupið er til góðs, en á fimmtudaginn kemur, 30. maí, er hægt að hlaupa til styrktar tækjakaupum fyrir kvennadeild Landspítalans

Ásdís Ásgeirsdóttir

asdis@mbl.is

Nú þegar sumarið er brostið á er um að gera að reima á sig hlaupaskóna og fara út að hreyfa sig. Ekki er verra ef hlaupið er til góðs, en á fimmtudaginn kemur, 30. maí, er hægt að hlaupa til styrktar tækjakaupum fyrir kvennadeild Landspítalans. Þar á bæ vantar nauðsynlega ný tæki til legspeglunar sem munu létta bæði læknum og skjólstæðingum lífið. Með nýju tækjunum er hægt að framkvæma speglanir í staðdeyfingu en áður var nauðsynlegt að svæfa þær konur sem þurftu á legspeglun að halda. Kvensjúkdómalæknirinn Ragnheiður Oddný Árnadóttir, sem bæði vinnur á kvennadeild og situr í stjórn Lífs, mætti í Dagmálsmyndver Árvakurs til að segja frá góðgerðarhlaupinu.

Mun betri legspeglunartæki

„Líf hefur komið að mörgum málum og styrkt okkur til góðra verka á undanförnum árum,“ segir Ragnheiður.

„Nú munum við kaupa legspeglunartæki sem eru mun minni og nettari en þau sem við höfum áður notast við og gerir það að verkum að við getum boðið konum að koma til okkar á göngudeild í þessa rannsókn og ekki þarf innlögn eða svæfingu,“ segir hún og segir tækið notað til að greina sjúkdóma í legholi.

„Jafnvel er hægt að meðhöndla vandamálið í sömu rannsókn,“ segir Ragnheiður, en hún situr í stjórn Lífs.

„Líf var stofnað af frábæru fólki í kjölfarið á hruninu árið 2009 og hefur styrkst og eflst í gegnum árin,“ segir Ragnheiður en félagið er rekið af frjálsum framlögum einstaklinga og fyrirtækja.

„Líf hefur verið góður bakhjarl kvennadeildarinnar, enda alltaf þörf á að bæta þjónustu og aðbúnað kvenna sem þangað þurfa að sækja læknisþjónustu. Lífssporið, hlaupið sem við stöndum fyrir, fór af stað eftir covid og hefur verið tengt mæðradeginum.“

Allur ágóði til Lífs

„Við erum mjög stolt af því að halda þetta hlaup og um leið hvetja til hreyfingar. Hlaupið verður frá bragganum í Nauthólsvík á fimmtudag klukkan 18. Við erum með tímatöku í fimm og tíu kílómetrum en einnig er hægt að fara í fimm kílómetra göngu. Það geta nánast allir verið með,“ segir hún.

„Allur ágóði rennur til Lífs. Við vorum heppin að fá góða bakhjarla, Útilíf og Sjóvá. Það verða verðlaun í boði og fullt af útdráttarvinningum,“ segir Ragnheiður og hvetur fólk til að mæta í hlaupið.

„Veruleikinn er þannig að ýmis málefni þurfa á styrktarfélögum að halda, eins og sést í Reykjavíkurmaraþoninu, en við höfum verið með þar líka,“ segir hún.

„Flestar konur hafa þurft á þjónustu kvennadeildarinnar að halda, í tengslum við meðgöngu, fæðingu, sængurlegu eða vegna meðhöndlunar kvensjúkdóma og annarra vandamála í kvenlíffærum,“ segir Ragnheiður og tekur því fagnandi að geta enn bætt þjónustuna með nýju tækjunum.

Nú þegar hafa hundrað manns skráð sig til leiks í hlaupið.

„Við vonumst eftir að tvöfalda það! Þarna verður mikil gleði og allir vinna.“

Lífssporið

Sprettu úr spori til góðs

LÍF styrktarfélag stendur fyrir götuhlaupinu Lífssporinu fimmtudaginn 30. maí kl. 18. Lífssporið er haldið í góðu samstarfi við aðalstyrktaraðila hlaupsins, Útilíf og Sjóvá.

Í ár rennur allur ágóði af hlaupinu í söfnun fyrir tveimur nýjum tækjum til legspeglunar í staðdeyfingu. Hlaupið er 5 og 10 kílómetra.

Einnig er hægt að styrkja Líf með frjálsum framlögum.

Skráning í hlaup er á netskraning.is.

Allar upplýsingar má finna á lifsspor.is.