Snorri Friðriksson fæddist 10. desember 1933 á Hofsósi. Hann lést í faðmi fjölskyldunnar á líknardeild Landakotsspítala 16. maí 2024.

Snorri var fæddur og uppalinn í Bröttuhlíð á Hofsósi. Foreldrar hans voru Guðrún Helga Kristín Sigurðardóttir, f. 17. október 1902, d. 3. apríl 1992, húsmóðir, síldarstúlka á Siglufirði og fiskvinnslukona, og Friðrik Jónsson, f. 23. október 1894, d. 16. maí 1978, sjómaður og bóndi.

Snorri var yngstur fimm systkina. Hin hétu í aldursröð Sigurður Marteinn, Margrét Sigríður, Jón Friðrik og Hafsteinn Ásgrímur. Þau eru öll látin.

Eftirlifandi eiginkona Snorra er Steinunn Húbertína Ársælsdóttir hárgreiðslukona, f. 29. janúar 1944 í Reykjavík. Móðir hennar hét Katharina Sibylla Magnússon Thelen húsmóðir, f. 30. október 1909, d. 20. október 1990. Eiginmaður hennar hét Ársæll Magnússon steinsmiður, f. 1. janúar 1907, d. 26. janúar 1969.

Börn þeirra eru: 1) Katharina Sibylla, f. 1959. Eiginmaður hennar er Eggert Smári Eggertsson. Börn þeirra eru: a) Steinunn Húbertína, sambýlismaður Þorkell Þorkelsson. Börn hennar eru Konráð Oddgeir, Katharina Sibylla og Karolína Helga. b) Karolína Helga, sambýlismaður Stefán Hólmgeirsson. Barn hennar er Smári Karl. Stefán á fyrir dæturnar Evu og Freyju. c) Ása Hildur, eiginmaður Friðrik Einarsson. Börn þeirra eru Benjamín Arnar, Kristín Harpa og Patrekur Frosti. d) Arnar Snævar, sambýliskona Tinna Ýr Einisdóttir. Barn þeirra er Una Bjarklind. 2) Jón Friðrik, f. 8. febrúar 1962, d. 18. júlí 2022. Börn hans eru: a) Ólína Margrét, eiginmaður Bjarni Birgir Fáfnisson. Börn þeirra eru Alexandra Ester og Elísabet Ýr. b) Steinn Alex, sambýliskona Cezara Kiss. c) Hörður Snævar, eiginkona Sjöfn Ólafsdóttir. Börn þeirra eru Móeiður Alda, Marel og Mjöll. d) Arnar Már, sambýliskona hans er Ólöf Fríða Magnúsdóttir. Barn þeirra er Ísak Magnús. e) Unnur Sóley. f) Kolbrá. 3) Ársæll, f. 28. janúar 1965, d. 2. maí 2013. 4) Snorri, f. 16. október 1973, d. 8. júlí 2009.

Snorri gekk í barnaskólann á Hofsósi. Fjölskyldan flutti til Akureyrar um tíma og þar lauk hann gagnfræðapófi. Snorri fór ungur að árum til sjós. Hann fór í stýrimannaskólann og lauk prófi 1958. Hann var til sjós allan sinn starfsferil á togurum og seinast skipstjóri á togaranum Jóni Baldvinssyni sem hann sótti til Portúgals árið 1980.

Snorri var mjög ljúfur og elskaði að fá barnabörnin og barnabarnabörnin í heimsókn. Hann gekk í Oddfellow 1973 og fór á alla fundi þegar hann var í landi. Snorri og Steina stunduðu golf saman og ferðuðust víða bæði hér heima og erlendis. Snorri safnaði bæði mynt og frímerkjum og átti flott safn. Hann hafði mjög gaman af að horfa á íþróttir og þá sérstaklega fótbolta og var mikill Manchester United-aðdáandi og missti ekki af leik. Sumarið 2023 fór að bera á heilsubresti sem endaði með sjúkrahúsvist sem varði meiri partinn af árinu. Hann komst heim í enda nóvember 2023 og hélt upp á 90 ára afmælið sitt í faðmi fjölskyldu og vina. Í febrúar 2024 lenti hann aftur á sjúkrahúsi og komst ekki heim eftir það. Hann lést á líknardeild Landakotsspítala.

Útför Snorra fer fram frá Kópavogskirkju í dag, 28. maí 2024, klukkan 11.

Nú ertu farinn í sumarlandið elsku hjartans pabbi minn þar sem strákarnir þínir þrír, Jónsi, Ási og Snorri, hafa tekið vel á móti þér. Það sem kemur upp í hugann þegar sest er niður til að minnast elsku pabba er endalaust þakklæti fyrir hvað við höfðum hann lengi hjá okkur, við fjölskyldan öll komum saman í Lækjasmáranum ásamt góðum hópi af vinum til að fagna 90 ára afmæli pabba þann 10. desember sl. Þakklæti fyrir allar góðu stundirnar sem ég átti með honum í vetur þar sem ég sat hjá honum þegar mamma þurfti að fara af bæ, þá eldaði ég eitthvað gott handa okkur, eitthvað sem hann hafði fengið að ráða að væri í matinn og var það alltaf góður fiskur, þessar stundir voru unaðsstundir fyrir okkur bæði. Pabbi bar þungan bakpoka, árið 1959 missti hann tvo bræður sína og frá 2009 til 2022 misstu foreldrar mínir þrjá syni sína og bræður mína. Pabbi var prívat maður og talaði helst ekki um sína líðan þegar kom að sorginni. Þannig var pabbi. Efst í huga er þakklætið fyrir þann dásamlega tíma sem við áttum í útlöndum, fyrsta ferðin sem ég og mamma fórum saman í, ég var 12 ára, þá flugum við til Skotlands og hittum hann þar, þar sem hann var að landa aflanum og sigldum svo með honum heim. Já pabbi var til sjós frá því ég man eftir mér. Hann sigldi mjög oft með aflann til erlendra hafna og þegar hann kom heim var mikill spenningur hjá okkur systkinum því alltaf leyndist eitthvað fallegt og skemmtilegt í töskunni sem hann færði okkur. Nokkrar ferðirnar voru farnar til Þýskalands til að heimsækja fjölskylduna hennar ömmu Ínu þaðan sem hún var. Fyrir nokkrum árum skelltum við okkur fjölskyldan mín eða 20 manns og flugum til Þýskalands og áttum 10 dásamlega daga saman, þar sköpuðust góðar minningar sem enn er verið að fara yfir. Pabba þótti endalaust vænt um litla fólkið í fjölskyldunni eins og hann kallaði það, en það voru langafabörnin, hann naut þess þegar þau komu og kúrðu hjá honum, hann var mikil barnagæla, þó kom fyrir að þegar hann kom fram eftir að hafa verið að hvíla sig, og hárið svo úfið að sumum stóð ekki á sama og vildu alls ekki knúsa hann, þá var hann með leynivopn uppi í erminni, náði sér í súkkulaðirúsínur, settist í stólinn sinn, tók upp munnhörpuna og spilaði Gamla Nóa, það nægði til að bræða litlu krílin. Þakklæti fyrir dásamlegu stundirnar sem við áttum saman í Hofsósi þar sem honum leið svo vel á Kárastígum og voru þau mamma og pabbi dugleg að fara norður og njóta, þar sem veðrið var hvergi betra á sumrin en einmitt þar eða eins og hann sagði alltaf stafalogn í Skagafirði.

Meira á: www.mbl.is/andlat

Katharina Sibylla Snorradóttir.

Snorri frændi, bróðir pabba, var í miklu uppáhaldi hjá okkur á Ægisstígnum í gamla daga. Snorri var skipstjóri og sigldi stundum til útlanda með aflann. Oft fyrir jólin kom sending frá honum til okkar á Krókinn. Þetta voru yfirleitt matvörur sem keyptar voru erlendis, aðallega niðursoðnir ávextir og álíka. Hann hefur örugglega fært pabba eitthvað líka sem við krakkarnir komumst ekki í.

Snorri, Steina og börnin komu oft í heimsókn á Krókinn til okkar á leið sinni til ömmu og afa á Hofsósi. Ég man vel hve traustur og sterkur Snorri var og hef ég alltaf litið upp til hans. Hann var níu árum yngri en pabbi og þeir voru miklir vinir. Seinna, þegar ég var farinn að ferðast suður, man ég eftir skemmtilegum heimsóknum til Snorra og fjölskyldu á Kársnesbrautina. Þetta varð til þess að þegar ég hætti í MA, aðeins 16 ára gamall, bað ég pabba um að hringja í Snorra og biðja hann um pláss á togaranum hans. Ég var ekkert að spá í hvernig togari þetta var, vissi bara að hann var stór. Þetta var í febrúar 1974 og alveg vonlaust að fá pláss á nýju skuttogurunum á Króknum. Pabbi hringdi í Snorra og hann tók vel í þetta og sagði mér að koma suður strax, þeir færu líklega út eftir nokkra daga. Ég hentist suður og mætti um borð í Hjörleif RE sem var síðutogari sem áður bar nafnið Ingólfur Arnarson RE. Þetta var víst frægt aflaskip sem var á sínu 27. ári við að moka upp fiski. Snorri var í brúnni og stakk hausnum út um gluggann til að heilsa mér. Þessi túr sem ég fór með honum og Sverri mági hans sem var bátsmaður er mér mjög minnisstæður og kynni okkar urðu sterkari. Þetta var síðasti túr þessa fræga aflaskips og einn af síðustu túrum íslensks nýsköpunartogara. Fyrir mig var þetta skóli lífsins á sterum.

Seinna fékk ég ævinlega boð um jólin frá Snorra og Steinu um að mæta í skötuveislu til þeirra á Þorláksmessunni. Þetta var alvöru skötuveisla og mættu stundum einhverjir sem voru með honum á sjónum í gamla daga. Pabbi og mamma mættu einnig í þessar skötuveislur eftir að þau fluttu suður.

Undanfarna tvo áratugi, eftir að ég fór að hjálpa pabba og Snorra við að halda utan um Kárastíg 3 á Hofsósi, eða ömmuhús eins og við köllum það núna, heimsótti ég Snorra og Steinu alloft og síðustu árin í Lækjasmárann. Það var alltaf jafngott að koma til þeirra og hafa þau alltaf tekið á móti mér eins og þau ættu mig. Missir þeirra hjóna var og er sorglegur og ólýsanlegur en allir þrír synir þeirra og frændur mínir, Snorri, Ási og Jónsi, kvöddu þennan heim á undan þeim.

Við Sigga sendum Steinu, Ínu og fjölskyldum einlægar samúðarkveðjur.

Ragnar Marteinsson.