Náttúruperla Horft yfir Þórsmörk af gönguleiðinni yfir Fimmvörðuháls. Þegar gengið er niður í Þórsmörk blasir ægifögur náttúran við.
Náttúruperla Horft yfir Þórsmörk af gönguleiðinni yfir Fimmvörðuháls. Þegar gengið er niður í Þórsmörk blasir ægifögur náttúran við. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Guðm. Sv. Hermannsson gummi@mbl.is Unnið er að því á vegum sveitarstjórnar Rangárþings eystra að kanna fýsileika þess að stofnaður verði þjóðgarður á Þórsmerkursvæðinu.

Baksvið

Guðm. Sv. Hermannsson

gummi@mbl.is

Unnið er að því á vegum sveitarstjórnar Rangárþings eystra að kanna fýsileika þess að stofnaður verði þjóðgarður á Þórsmerkursvæðinu.

Skipulags- og umhverfisnefnd sveitarfélagsins lagði til við sveitarstjórnina að óskað verði eftir því að umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið hefji skoðun á fýsileika þess að friðlýsa Þórsmörk og nágrenni sem þjóðgarð og að stofnaður verði samstarfshópur ráðuneytis, sveitarfélagsins, Lands og skógar og annarra hagsmunaaðila um það samtal. Þar sem um þjóðlendu sé að ræða þyrfti jafnframt að tryggja aðkomu forsætisráðuneytis að hópnum. Segir í bókun nefndarinnar að meginhlutverk hópsins yrði að meta kosti og galla þess að stofnaður verði þjóðgarður á Þórsmerkursvæðinu, þar sem verði m.a. metin samfélagsleg áhrif, áhrif á þróun ferðaþjónustunnar, umhverfi, og efnahagsleg áhrif. Sveitarstjórnin hefur staðfest þessa bókun og falið sveitarstjóra að vinna málið áfram.

Á forræði heimamanna

Elvar Eyvindsson, formaður skipulags- og umhverfisnefndar Rangárþings eystra, sagði við Morgunblaðið að málið væri í raun enn á hugmyndastigi. „Þórsmörk á held ég sértakan stað í brjóstum allra Íslendinga og okkur langar til að vita hverjir eru kostir og gallar þess að friðlýsa Þórsmörk sem þjóðgarð. En ég held að allir séu sammála því að þetta verði aldrei gert nema það verði á forræði heimamanna. Við höfum aðeins átt orðastað við Guðlaug Þ. Þórðarson (umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra) og hann er á þeirri skoðun,“ sagði Elvar.

Þrír þjóðgarðar eru á Íslandi, Þjóðgarðurinn Þingvellir, Vatnajökulsþjóðgarður og Snæfellsjökulsþjóðgarður. Um þá tvo fyrstnefndu gilda sérstök lög en samkvæmt náttúruverndarlögum má friðlýsa sem þjóðgarða stór náttúrusvæði sem eru lítt snortin og hafa að geyma sérstætt eða dæmigert lífríki, jarðminjar og/eða landslag. Einnig skuli líta til mikilvægis svæðisins í menningarlegu eða sögulegu tilliti.

Ákveðin ímynd

Elvar segir að sveitarstjórnin viji einnig vita hverju það myndi breyta fyrir svæðið ef Þórsmörk yrði skilgreind sem þjóðgarður. „Það fylgir ákveðin ímynd þjóðgarði. Það kemur margt ferðafólk í Þórsmörk og þetta er staður sem nauðsynlegt er að fólk geti komist á en einnig þarf að passa vel upp á hann. Þetta er perla inni á milli fjallanna hérna,“ segir Elvar.

Hann segir að verið sé að gera marga góða hluti í Þórsmörk, bæði varðandi skógrækt og ferðaþjónustu, en hægt sé að ímynda sér að hægt verði að stjórna betur því sem þar verður gert ef Þórsmörk verður þjóðgarður. En einnig þurfi að fá á hreint hvað því myndi fylgja, svo sem fjármagn, og hvaða skilyrði þurfi að uppfylla.

Elvar segir að ekki sé verið að hugsa um of stórt svæði í upphafi, Þórsmörkina sjálfa og hugsanlega Bása. „En ef af þessu verður og það reynist vel kæmi til greina að stækka svæðið. En fyrst þarf að fá svör við við ýmsum spurningum svo heimamenn geti metið kosti og galla,“ sagði Elvar Eyvindsson.

Þórsmörk

Kennd við guðinn Þór

Þórsmörk afmarkast af Mýrdalsjökli í austri, Krossá í suðri og Markarfljóti og Þröngá í norðri. Þórsmerkursvæðið er mjög giljótt, kjarri vaxið upp í brekkur og er gróðurfar og landslag mjög fjölbreytilegt.

Áður fyrr ráku bændur úr Fljótshlíð og undan Eyjafjöllum fé sitt í Þórsmörk til beitar bæði sumar og vetur og stunduðu einnig skógarhögg á svæðinu.

Þórsmörk er kennd við guðinn Þór en í Landnámu segir að Ásbjörn Reyrketilsson hafi numið land í Þórsmörk og helgað Þór landnám sitt.