Stjórnsýsla Forsætisráðuneytið skipar í ÚNU og þjónustar hana.
Stjórnsýsla Forsætisráðuneytið skipar í ÚNU og þjónustar hana. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Kristján H. Johannessen khj@mbl.is

Kristján H. Johannessen

khj@mbl.is

Verulegur dráttur er á niðurstöðu í þeim málum sem skotið er til úrskurðarnefndar um upplýsingamál (ÚNU). Það sem af er ári hefur nefndin einungis kveðið upp 12 úrskurði, flesta í febrúar eða níu talsins. Aðeins einn úrskurður var kveðinn upp í mars og tveir í janúar. Enginn úrskurður kom hins vegar frá nefndinni í apríl og það sem af er þessum mánuði hefur heldur enginn úrskurður fallið.

Morgunblaðið hefur minnst tvö mál sem nú bíða afgreiðslu úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Var annað þeirra móttekið af nefndinni í janúar 2023 en hitt í júní sama ár. Fer því að verða eitt og hálft ár frá því að fyrra málið rataði inn á borð nefndarinnar. Óvíst er hvenær niðurstöður fást.

Mál „deyja“ á biðlista ÚNU

ÚNU er starfrækt á grundvelli upplýsingalaga til að leysa úr ágreiningsmálum um aðgang almennings og fjölmiðla að upplýsingum frá stjórnvöldum. Nefndin er sjálfstæð og óháð stjórnsýslunefnd sem nær til allrar stjórnsýslu hins opinbera. Forsætisráðherra skipar þrjá menn í ÚNU og jafnmarga til vara. Einnig veitir forsætisráðuneytið nefndinni ritara og skrifstofuþjónustu.

Sein vinnubrögð ÚNU hafa áður verið til umfjöllunar hér í blaðinu. Var þá m.a. rætt við umboðsmann Alþingis sem sagði réttinn til aðgangs að upplýsingum geta orðið þýðingarlausan ef verulegar tafir yrðu á afgreiðslu. Geta stjórnvöld í raun „drepið“ mál með því að synja kerfisbundið um aðgang að gögnum og neyða þannig borgarana til að leita til ÚNU með tilheyrandi töfum.