Svanfríður S. Óskarsdóttir
Svanfríður S. Óskarsdóttir
Katrín leggur áherslu á gildi sem við Íslendingar erum sammála um: lýðræði, mannréttindi, jafnrétti og friðsamlegar lausnir.

Svanfríður S. Óskarsdóttir

Katrín hefur alla þá kosti sem prýða mega góðan forseta. Hollusta hennar er ein og hún er við þjóðina. Hún hefur sagt skilið við stjórnmálin og er hafin yfir alla flokkapólitík. Katrín leggur áherslu á gildi sem við Íslendingar erum sammála um: lýðræði, mannréttindi, jafnrétti og friðsamlegar lausnir. Breiður hópur er á bak við Katrínu, alls konar fólk úr öllum flokkum og stéttum þjóðfélagsins, ekki bara úr valdastéttinni eins og sumir halda fram. Hún er fyrst og fremst fólksins, ekki síst þeirra sem minnst mega sín.

Í starfi sínu sem forsætisráðherra sýndi hún mikla hæfni sem þjóðarleiðtogi og hafði hagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi þrátt fyrir að hafa þurft að gera ýmsar málamiðlanir. Fyrst og fremst leitaði hún lausna og sátta því að þannig virkar lýðræðissamfélag. Ítrekað leiddi hún þjóðina gegnum hamfarir og áföll. Hún fékk ólíkt fólk til að vinna saman og leysa verkefni.

Sem forseti vill Katrín gera þjóðinni gagn og sjá stóru myndina. Samfélagið hefur breyst og er ólíkt því sem áður var. Hún vill mæta ólíkum hópum í þjóðfélaginu.
Í fjölbreyttu og margbrotnu nútímaþjóðfélagi vill hún stuðla að samheldni og efla víðsýni og skilning.

Katrín er sannur Íslendingur, hámenntuð, og er vel að sér í íslenskri sögu, tungu og menningu. Hún er gædd einstakri greind, orðfim, einlæg og yfirveguð. Hún er náttúruunnandi og leggur áherslu á undirstöðuatvinnuvegi landsins.

Erlendis hefur hún gríðarlega sterk og góð tengsl við áhrifafólk, bæði í Evrópu og víðar í heiminum. Hún er öflugur málsvari nýrra tíma í loftslagsmálum og jafnréttismálum. Sem fulltrúi Íslands í stríðshrjáðum heimi mun Katrín nýta rödd sína enda hefur hún mikla þekkingu og reynslu af alþjóðapólitík. Í heimsmálum eru blikur á lofti, ógnir steðja að, og víða er grafið undan lýðræðinu.

Katrín er verðugt forsetaefni, á glæstan feril að baki, og hefur sýnt það og sannað að hún veldur erfiðum verkefnum vel og hefur verið þjóð sinni til mikils sóma, innan lands sem utan. Hún er keppinautum sínum fremri að reynslu og kunnáttu. Það kom m.a. í ljós þegar hún svaraði spurningum Sigríðar Hagalín Björnsdóttur fréttamanns Rúv að kvöldi 21. maí sl., en sumar þeirra vöktu furðu mína, svo ekki sé meira sagt.

Ég treysti Katrínu best frambjóðenda sem forseta á Bessastöðum og standa vörð um fullveldi Íslands.

Höfundur er skjalastjóri.