Guðmundur Ingi Guðbrandsson
Guðmundur Ingi Guðbrandsson
Ég tel mikilvægt fyrir norrænt samstarf að þátttaka byggist á jafnræði á milli landanna og það eigi einnig við um Færeyjar, Grænland og Álandseyjar.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson

Norrænt samstarf er okkur Íslendingum mjög mikilvægt. Það ríkir einstakt traust milli norrænu landanna og á vettvangi þeirra ræðum við sameiginleg gildi okkar og þróun þeirra, lærum hvert af öðru, miðlum reynslu og styrkjum vinaþjóðabönd. Pólitísk áhersla og mikilvægi þessa samstarfs endurspeglast í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar frá nóvember 2021, þar sem fram kemur að öflugt norrænt samstarf verði áfram grundvallarþáttur í alþjóðlegu samstarfi Íslands.

Það vakti athygli á dögunum þegar forsætisráðherra Grænlands tilkynnti að hann myndi gera hlé á þátttöku sinni í pólitísku norrænu samstarfi, þar sem löndunum þremur var ekki boðið til sumarfundar forsætisráðherra Norðurlandanna. Það var ákvörðun Svíþjóðar, en þau fara með formennsku í Norrænu ráðherranefndinni í ár. Ég hef áhyggjur af áhrifum þessa á norrænt samstarf.

Í mínum huga er mikilvægt að stuðla að aukinni þátttöku Færeyja, Grænlands og Álandseyja í norrænu samstarfi. Ísland hefur í undanfarin skipti í formennsku sinni boðið forsætisráðherrum landanna þriggja á sumarfundi forsætisráðherranna og nýleg dæmi eru um að við höfum haldið fundi embættismannanefnda í Færeyjum. Við höfum jafnframt lagt áherslu á vestnorrænt samstarf á síðustu formennskuárum okkar. Í norrænu samstarfi er þátttaka Færeyja, Grænlands og Álandseyja mikilvæg og eflir norrænt samstarf enn frekar. Ísland hefur og mun leggja áherslu á aukna og virka þátttöku þeirra.

Í formennsku Íslands í Norrænu ráðherranefndinni í fyrra lagði ég sem samstarfsráðherra Norðurlanda áherslu á þátttöku landanna þriggja. Ég heimsótti bæði Færeyjar og Álandseyjar sérstaklega. Á Álandseyjum skrifuðum við samstarfsráðherrar landanna undir viljayfirlýsingu um samstarf á sviði sjálfbærrar þróunar og í Færeyjum tók ég þátt í Pride-göngunni ásamt samstarfsráðherra Norðurlanda og félagsmálaráðherra landsins, auk margvíslegra funda um samstarf landanna. Því miður náði ég ekki að sækja Grænland heim en það bíður betri tíma.

Ég tel mikilvægt fyrir norrænt samstarf að þátttaka byggist á jafnræði á milli landanna og það eigi einnig við um Færeyjar, Grænland og Álandseyjar. Aukin eða full aðild þeirra að samstarfinu, eftir því sem þau sjálf kjósa, finnst mér einfaldlega sanngjörn og ég er sannfærður um að aukin þátttaka þeirra sé hagur okkar allra.

Höfundur er samstarfsráðherra Norðurlanda.