Borgarlínan Teikning sýnir vagninn bruna eftir Suðurlandsbrautinni.
Borgarlínan Teikning sýnir vagninn bruna eftir Suðurlandsbrautinni.
Vegagerðin hefur boðið út hönnun borgarlínunnar, lotu 1, eftir Suðurlandsbraut og Laugavegi. Um er að ræða forhönnun á einum verkhluta og verkhönnun á alls sex verkhlutum og eru verkmörk frá austari enda Suðurlandsbrautar (Suðurlandsbraut 72) að gatnamótum Hverfisgötu og Snorrabrautar

Vegagerðin hefur boðið út hönnun borgarlínunnar, lotu 1, eftir Suðurlandsbraut og Laugavegi.

Um er að ræða forhönnun á einum verkhluta og verkhönnun á alls sex verkhlutum og eru verkmörk frá austari enda Suðurlandsbrautar (Suðurlandsbraut 72) að gatnamótum Hverfisgötu og Snorrabrautar. Kaflinn er alls um 3,7 kílómetrar að lengd.

Innifalið í verkinu er m.a. hönnun gatna, gatnamóta sem ýmist eru ljósastýrð eða ekki, stíga, gangstétta, gróðursvæða, lýsingar og ofanvatnslausna, aðlögun borgarlínustöðva að umhverfi og gerð útboðsgagna. Áætlað vinnuframlag ráðgjafa er 9.400 klukkustundir, að því er fram kemur á vef Vegagerðarinnar.

Val bjóðanda fer fram á grundvelli hæfismats og á grundvelli matsþátta og verðs. Ber bjóðanda að leggja fram tilboð sitt í tveimur hlutum, þ.e. upplýsingar um hæfni bjóðanda og verðtilboð.

Verkinu skal að fullu lokið eigi síðar en nóvember 2025. Skal tilboðum skilað rafrænt í því útboðskerfi fyrir kl. 14.00 þriðjudaginn 25. júní 2024.

Í fyrrasumar bauð Vegagerðin út vinnu við frumdrög borgarlínu um Hamraborg eftir Hafnarfjarðarvegi. Verkefnið felur m.a. í sér frumdrög að borgarlínuleiðum og staðsetningu og útfærslu stöðvar/-a í Hamraborg. Ákveðið var að ganga að tilboði Verkís hf. í Reykjavík, að upphæð rétt tæpar 22 milljónir króna.

Borgarlínan er nýtt kerfi almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu. Ekið verður að mestu í sérrými og vagnarnir hafi forgang á gatnamótum. sisi@mbl.is