Samband Tryggvi með fagurbleika innkaupakerru og snjallsíma í rjómablíðu í Heiðmörk.
Samband Tryggvi með fagurbleika innkaupakerru og snjallsíma í rjómablíðu í Heiðmörk. — Ljósmynd/Hörður Sveinsson
„Óþekktur hlutur á pokasvæði,“ er tilkynning sem flest okkar kannast við sem reynt hafa við sjálfsafgreiðslukassa matarbúða. Er viðkomandi beðinn að fjarlægja hlutinn af pokasvæði af rödd sem berst úr kassanum

Helgi Snær Sigurðsson

helgisnaer@mbl.is

„Óþekktur hlutur á pokasvæði,“ er tilkynning sem flest okkar kannast við sem reynt hafa við sjálfsafgreiðslukassa matarbúða. Er viðkomandi beðinn að fjarlægja hlutinn af pokasvæði af rödd sem berst úr kassanum. Oftar en ekki enda þessi samskipti með því að starfsmaður birtist, stimplar eitthvað á snertiskjá og hverfur á braut jafnhljóð- og orðalaust og hann birtist.

Þessi kunnuglega reynsla af innkaupaferðum nútímans er kveikjan að verki Tryggva Gunnarssonar, Óþekktur hlutur á pokasvæði sálar minnar, sem er á dagskrá Listahátíðar í Reykjavík, 3.-16. júní. Tryggvi segir verkið hefjast á því að maður standi við sjálfsafgreiðslukassa og fái einhvers konar vitrun eða áfall. „Eins og maður fær þegar maður er að fást við sjálfsafgreiðslukassa sem vill ekkert gera af því sem maður biður um,“ útskýrir Tryggvi kíminn fyrir blaðamanni sem kannast vel við slíkan pirring.

Hægt að hlusta hvenær sem er

„Það fjallar um samband okkar við tæknina og náttúruna. Við setjum svo skýr skil á milli okkar og tækni og náttúru en svo er þetta bara í rauninni ein heild, bara einhver gráskali þarna á milli. Ég er að kanna þessi skil og stöðu okkar, hvernig við tökum okkur alltaf út úr menginu og verðum svolítið aftengd öllu saman,“ svarar Tryggvi, spurður að því um hvað verkið fjalli. Fólk getur hlustað á það með snjallsímum sínum og segir Tryggvi það á margan hátt líkt hlaðvarpi. „Nema að þetta gerist í Heiðmörk, á göngustíg, og verkið er gps-tengt þannig að þegar þú ert á ákveðnum stað, stendur fyrir framan ákveðinn stein eða eitthvað slíkt, spilast kaflinn í verkinu sem á sér stað við þennan stein. Þú getur gert þetta hvenær sem er sólarhringsins.“

Tryggvi er spurður hvort einfalt sé eða flókið að búa til svona verk. „Þetta er mjög einfalt fyrir þann sem hlustar en svolítið flóknara fyrir mig,“ svarar hann. Í verkinu notist hann við smáforrit sem sé aðallega notað í leiðsagnir fyrir ferðamenn, fjársjóðsleit og þvíumlíkt. „Það eru margir í því og nota þá „Geocaching“, vinsælt forrit þar sem hægt er að koma fyrir alls konar dóti og svo er fólk að nota öpp til að finna þessa litlu, földu fjársjóði,“ útskýrir Tryggvi. „Það sem er svo fallegt við þessi forrit er að þú færð að upplifa umhverfið á nýjan hátt, ert kannski að ganga gönguleið sem þú hefur gert nokkrum sinnum í Heiðmörk en ert að horfa á nýja hluti sem er verið að benda þér á. Þú sérð kannski ekki trén fyrir skóginum.“

Tryggvi kallar þetta gönguleikhús og segir hlaðvarpsformið algjörlega að springa út. Fólk sé alltaf með eitthvað í eyrunum og geti með þessu verki notið náttúru og listar samtímis. „Þetta er skemmtilegt verk og vonandi fær það fólk til að hugsa. Þetta er líka bara yndisleg stund sem þú átt með sjálfum þér, náttúrunni og þessu listaverki,“ segir Tryggvi. Viðfangsefnið sé stórt og tekið á því með spaugilegum hætti.

Ekki við kassann að sakast

Hvað munu þátttakendur fá að hlusta á, er það einhvers konar frásögn?

„Já, þetta er maður sem upplifði að sjálfsafgreiðslukassinn fór að tala við hann, fór svolítið að sálgreina hann og sendi hann svo upp í Heiðmörk í ákveðna pílagrímsför. Við fáum svo að heyra hans upplifun þegar hann hittir ýmsar verur og vættir og það samtal er líka leikið ofan í mann. Maður upplifir svæðið í gegnum hans frásögn,“ svarar Tryggvi.

Sjálfsafgreiðslukassar eru vissulega skrítið fyrirbæri og segist Tryggvi hafa áttað sig á því dag einn, örþreyttur með nýfætt barn, að samskipti hans við slíkan kassa væru þau lengstu sem hann hefði átt þann daginn. „Það er ákveðin viðvörunarbjalla og líka svo fyndið. Margir verða reiðir út í kassann og pirraðir,“ segir Tryggvi og að oftar en ekki hafi notandinn sjálfur gert mistök, ekki sé við afgreiðslukassann að sakast. „Þú ert líka farinn að standa þig að því að forðast samskipti við manneskju þótt þú vitir að þau séu mjög einföld. Þú þarft ekki að spyrja um líðan eða neitt slíkt og líklegast þarftu ekki að eiga nein samskipti. En þú ert fyrir framan manneskju og við erum öll farin að senda tölvupóst eða sms í staðinn fyrir að hringja,“ segir Tryggvi.

Gangan hefst í Jafnréttislundi í Heiðmörk og segir Tryggvi að hann hafi verið staddur í Heiðmörk dag einn að undirbúa verkið og velja því stað þegar hann rakst á innkaupakerru. „Á miðri leiðinni var innkaupakerra!“ segir Tryggvi og hlær en þess má geta að fésbókarsíða er helguð slíkum kerrum á óvæntum stöðum og nefnist hún „Innkaupakerrur heimsins“.

Frekari upplýsingar um Tryggva og Óþekktan hlut á pokasvæði sálar minnar má finna á vefsíðu hans, tryggvigunnarsson.is.