Gleði Baker með Gretu Gerwig, formanni dómnefndar Cannes.
Gleði Baker með Gretu Gerwig, formanni dómnefndar Cannes. — AFP/Cristophe Simon
Kvikmynd bandaríska leikstjórans Seans Bakers, Anora, hlaut Gullpálmann, aðalverðlaun kvikmyndahátíðarinnar í Cannes, á laugardaginn, 25. maí. Er það gamanmynd um vændiskonu í Brooklyn sem giftist syni ólígarka, að því er segir á vef AP-fréttastofunnar

Kvikmynd bandaríska leikstjórans Seans Bakers, Anora, hlaut Gullpálmann, aðalverðlaun kvikmyndahátíðarinnar í Cannes, á laugardaginn, 25. maí. Er það gamanmynd um vændiskonu í Brooklyn sem giftist syni ólígarka, að því er segir á vef AP-fréttastofunnar. Baker er 53 ára sjálfstæður kvikmyndagerðarmaður og m.a. þekktur fyrir að hafa tekið upp kvikmynd sína Tangerine, frá árinu 2015, með snjallsímum. Anora hefur hlotið mikið lof gagnrýnenda og er með meðaleinkunnina 89 af 100 á vefnum Metacritic.

Þegar Baker tók við verðlaununum sagðist hann, á léttum nótum, hafa stefnt að því að hljóta Gullpálmann í 30 ár og vissi því ekki að hverju hann ætti að stefna héðan í frá. Bætti hann við, öllu alvarlegri í bragði, að kvikmynda yrði ekki notið samhliða því að vera í símanum, svara tölvupóstum og vera annars hugar. Framtíð kvikmynda væri í kvikmyndahúsum.

Kvikmyndin All We Imagine As Light, eftir indverska leikstjórann Payal Kapadia, laut Grand Prix-verðlaunin sem eru þau næsteftirsóttustu á hátíðinni. Þá hlaut kvikmynd íranska leikstjórans Mohammads Rasoulofs, The Seed of the Sacred Fig, sérstök verðlaun en leikstjórinn þurfti að flýja heimaland sitt fyrr á árinu eftir að hafa hlotið átta ára fangelsisdóm fyrir andóf gegn stjórnvöldum. Einnig vakti athygli að verðlaun sem besta leikkona hlutu saman nokkrar leikkonur fyrir kvikmyndina Emilia Perez.

Heildarlista yfir verðlaunahafa finna á vef kvikmyndahátíðarinnar, festival-cannes.com.