Meyvant Þórólfsson
Meyvant Þórólfsson
RÚV er eins og stóreflis vél þar sem „dulkynja“ vera situr við stjórnborðið og kæfir óæskilega þróun skv. viðmiðum rétttrúnaðarelítunnar …

Meyvant Þórólfsson

Ríkismiðillinn RÚV ohf. rekur þrjár útvarpsstöðvar, tvær sjónvarpsstöðvar, netfréttastofu og nokkur hlaðvörp. Eðlilegast væri að RÚV starfaði sem ein stöð háð fjárlögum, upplýsingalögum, stjórnsýslulögum og siðareglum opinberra stofnana. RÚV ætti þannig að gegna einfaldlega menningar- og almannaþjónustuhlutverki samkvæmt lögum, ekki öðru. Öðrum miðlum ætti að láta það eftir að starfa á afþreyingarmarkaði?

Stóreflis vél

RÚV birtist okkur í raun eins og stóreflis vél, þar sem „dulkynja“ vera situr við stjórnborðið og fylgist með gangi mála í samfélaginu, jafnt smáu sem stóru. Komi hún auga á óæskilega þróun samkvæmt viðmiðum tiltekinnar rétttrúnaðarelítu, virðist hún líta á það sem hlutverk sitt að setja á augabragði af stað atburðarás til að kæfa hina óheppilegu þróun helst í fæðingu, hvað sem það kostar.

Veran hafði til dæmis hraðar hendur við stjórnborðið þegar hún varð þess vör að Miðflokkurinn bætti við sig fylgi svo um munaði í könnunum fyrr á þessu ári. Umsvifalaust valdi hún „Þetta helst“ takkann og útkoman varð gróteskur óhróður um Miðflokkinn og persónur honum tengdar.

Veran okkar þurfti að þrýsta á tvo takka stjórnborðsins, „Vikulokin“ og „Silfrið“, til að kveða niður áhyggjur þjóðarinnar af því að íslensk stjórnvöld tækju þátt í stríðsrekstri stórvelda. Ef aðeins þær raddir munu fá byr, sem þar fengu að hljóma í ríkisfjölmiðli „okkar allra“, þá er ekki von á góðu. Eða eins og Ögmundur Jónasson komst að orði: „Íslandssögunni verður breytt … að vissu leyti hefur henni verið breytt … En því miður þá er þetta Ísland í dag og í boði ríkisstjórnar landsins. En gleymum því þó ekki að morgundagurinn getur orðið annar ef við viljum hafa það svo.“

Veran okkar stóð við sitt, þegar umræða um frumvörp til útlendingalaga stóð sem hæst. Þar nýttust föstudagsgestir í Morgunútvarpi Rásar 2 vel við að móta viðhorf þjóðarinnar. Fyrir nokkru mættu þar tveir gestir – annar í núverandi aðalstjórn KSÍ – og fóru hörðum orðum um þáverandi dómsmálaráðherra Íslands og tiltekinn þingmann, kölluðu þá siðlausa rasista og vitleysinga. Fleiri enn svívirðilegri orð voru reyndar látin flakka, en stjórnandi umrædds RÚV-þáttar fann ekkert að öllu skítkastinu, heldur flissaði með.

En góðu heilli virðist dulkynja veran okkar ekki laus við breyskleika fremur en við mannfólkið, eins og kom á daginn þegar reynt var að hverfa frá Kveiksinnslagi um samninga Reykjavíkurborgar við olíufélögin vegna bensínstöðvalóða. Atburðarásin, sem veran okkar setti af stað, snerist upp í andhverfu sína svo að RÚV-vélin hikstaði hraustlega og gerir enn út af því máli.

Fyndni föstudagstakkinn

Eftirlætistakki verunnar við stjórnborðið er án efa fyndni föstudagstakkinn, merktur „Vikan“. Nærri lætur að þriðjungur þjóðarinnar fylgist þar með yfir vetrarmánuðina svo ætla má að innrætingin nái til um 130 þúsund Íslendinga. Stjórnendum þáttarins er í lófa lagið að höndla með æru fólks að vild hugnist þeim svo með hjálp vinsælu áhrifavaldanna í sófanum. Ákafi stjórnandans í spaugsemiköstum á kostnað annarra, sem ekki eru viðstaddir, er stundum svo mikill að hann tyllir sér á tæpustu brún sófastólsins og lemur flötum lófum á lær sér svo hann næstum dettur fram af brúninni.

Snemma árs birtust fyrstu niðurstöður DV um val þjóðarinnar á nýjum forseta. Í fyrstu tveimur könnunum DV hlaut Arnar Þór Jónsson flest atkvæði meðal nokkurra frambjóðenda sem voru tilgreindir; í fyrstu könnuninni hlaut hann 16,4% fylgi en til dæmis Katrín Jakobsdóttir 11,6% og í annarri könnuninni hlaut Arnar Þór yfirgnæfandi fylgi, 29,9% atkvæða, en til dæmis Baldur og Felix 6,3%.

Til að sporna við þessari þróun var „Vikan“ virkjuð tvisvar, fyrst 19. janúar og svo 22. mars, með tilheyrandi háðsglósum í garð Arnars Þórs, vægast sagt ósmekklegum. Í seinni bylgjunni tók stjórnandinn svo til orða: „Samkvæmt skoðanakönnun Útvarps Sögu mun Arnar Þór Jónsson sigra með yfirgnæfandi yfirburðum, rúmlega 70 prósent, ótrúlegt! (þá hlógu allir í RÚV-stofunni) … Útvarp Saga hefur talað!“ (allir hlógu aftur). Meðal flissgesta í föstudagssófanum þetta kvöld voru tveir væntanlegir forsetaframbjóðendur, þau Jón Gnarr og Halla Hrund Logadóttir.

Um svipað leyti birtist helsti álitsgjafi RÚV í fréttaviðtali með sitt kunna hæðnisglott og gaf Útvarpi Sögu merkimiðann „samkvæmisleikur“. Inngrip dulkynja verunnar okkar bar greinilega árangur, enda hefur Arnar Þór ekki átt sér viðreisnar von síðan, með tæp 5% fylgi en fráfarandi forsætisráðherra t.d. yfir 20% fylgi.

Fyrir hvað? Í hvað?

Hver Íslendingur greiðir 21 þúsund króna skyldugjald til RÚV ár hvert, hvort sem hann kærir sig um það eða ekki. Fyrir hvað? Dagskrá RÚV er orðin stórfurðuleg; hún virðist í raun sniðin að þröngum skoðanahópi. Samkvæmt nýjasta efnahagsreikningi komst óskilgreindur „annar rekstrarkostnaður“ RÚV ohf í fyrsta skipti yfir fjóra milljarða og hefur vaxið milli ára. Í hvað? Er það eðlilegt að RÚV stundi hömlulausa auglýsingasölu í samkeppni við aðra miðla? Er RÚV-vélin kannski farin að virka eins og KCNA, ríkismiðill N-Kóreu?

Höfundur er háskólakennari á eftirlaunum

Höf.: Meyvant Þórólfsson