Ekki tókst að afgreiða útlendingafrumvarpið út úr allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis á fundi nefndarinnar sl. föstudag, þvert á væntingar þar um. Þetta staðfestir Bryndís Haraldsdóttir, alþingismaður og formaður nefndarinnar, í samtali við Morgunblaðið

Ekki tókst að afgreiða útlendingafrumvarpið út úr allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis á fundi nefndarinnar sl. föstudag, þvert á væntingar þar um. Þetta staðfestir Bryndís Haraldsdóttir, alþingismaður og formaður nefndarinnar, í samtali við Morgunblaðið.

Ástæðuna segir hún vera umsögn umboðsmanns barna um málið sem þurfi að skoða nánar, en til standi að afgreiða frumvarpið úr nefndinni á næsta fundi sem búist er við að verði strax í byrjun næstu viku, væntanlega á mánudagsmorgun.

Í umsögninni, sem Píratar óskuðu eftir, kemur m.a. fram að þær breytingar sem frumvarpið kveður á um varðandi rétt til fjölskyldusameingar samræmist ekki ákvæðum Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, að hans mati.

Í frumvarpinu er kveðið á um að aðstandendur útlendinga sem fengið hafa viðbótarvernd eða mannúðarleyfi öðlist ekki rétt til fjölskyldusameiningar fyrr en að minnst tveimur árum liðnum eftir veitingu viðbótarverndar eða dvalarleyfis á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Það hafi þær afleiðingar að tefja fyrir fjölskyldusameiningu, að mati umboðsmanns.

Samkvæmt starfsáætlun Alþingis eru einungis átta þingfundardagar eftir uns þingið fer í sumarleyfi; fimm í næstu viku og þrír í þarnæstu. Áformuð þingfrestun er 14. júní og bíða fjölmörg þingmál afgreiðslu. Rík áhersla er lögð á að þingmál ríkisstjórnarinnar fái framgang, þ. á m. útlendingafrumvarpið.

Einnig má nefna til sögunnar forgangsmál, eins og frumvarp um breytingar á örorkulífeyriskerfinu, sem og frumvarp til breytinga á lögreglulögum og frumvarp um lagareldi. Tvö síðastnefndu frumvörpin eru umdeild og verða væntanlega rædd í þaula þegar Alþingi kemur aftur saman að loknum forsetakosningum.

Fari svo að ekki takist að afgreiða þau þingmál sem ríkisstjórn leggur áherslu á á fyrrgreindum átta þingfundardögum eru líkur á að fundum Alþingis verði fram haldið í einhverja daga. oej@mbl.is