Bæjarstarfsmannafélögin innan BSRB hafa vísað kjaradeilu sameiginlegrar samninganefndar við Samband íslenskra sveitarfélaga til ríkissáttasemjara. Formaður samninganefndar sveitarfélaga segir þó að viðræðurnar við bæjarstarfsmannafélögin gangi ágætlega

Bæjarstarfsmannafélögin innan BSRB hafa vísað kjaradeilu sameiginlegrar samninganefndar við Samband íslenskra sveitarfélaga til ríkissáttasemjara. Formaður samninganefndar sveitarfélaga segir þó að viðræðurnar við bæjarstarfsmannafélögin gangi ágætlega.

Í gær vísaði einnig Efling-stéttarfélag kjaradeilu félagsins við Reykjavíkurborg til ríkissáttasemjara, þar sem viðræður við borgina, sem staðið hafa yfir síðan um miðjan apríl, hefðu reynst árangurslausar.

Í tilkynningu BSRB segir að viðræður við sveitarfélögin hafi staðið yfir í nokkra mánuði vegna endurnýjunar kjarasamninga sem taka til um sjö þúsund félagsmanna um land allt. Samninganefndin telji fullreynt að ná samkomulagi milli aðila án milligöngu ríkissáttasemjara.

Í seinasta mánuði vísaði Sameyki, stærsta aðildarfélagið innan BSRB, kjaradeilu þess við ríkið og Reykjavíkurborg til ríkissáttasemjara eftir árangurslausar viðræður.

Spurð um stöðu viðræðnanna við bæjarstarfsmannafélögin segir Inga Rún Ólafsdóttir, formaður samninganefndar sveitarfélaga, að ákveðin ástæða sé fyrir því að viðræðunum hefur verið vísað til ríkissáttasemjara en þær gangi eftir sem áður ágætlega.

„Samtalið gengur samt ágætlega á milli okkar. Við erum á fullum krafti með þeim og líka með Starfsgreinasambandinu. Þetta eru fyrstu stóru hóparnir sem við erum vonandi að fara að ljúka samningum við áður en langt um líður,“ segir hún.

Viðræður sveitarfélaganna og SGS, fyrir hönd félagsmanna í starfsgreinasambandsfélögunum sem starfa hjá sveitarfélögunum, eru komnar í fullan gang og er ágætur gangur í þeim að sögn Ingu Rúnar.

Vilhjálmur Birgisson, formaður SGS og Verkalýðsfélags Akraness, tekur í sama streng um gang viðræðnanna milli SGS og Sambands íslenskra sveitarfélaga. „Ég get ekki séð annað en að okkur muni takast að ganga frá kjarasamningum fyrr en seinna. Það verður gert algerlega á grundvelli þess sem við lögðum upp með á hinum almenna vinnumarkaði að semja með nákvæmlega sama hætti,“ segir hann.

Fylgst með sveitarfélögunum

Spurður hvernig sveitarfélögin hafi staðið við loforð um að styðja við kjarasamningana á almenna markaðinum með því að stilla gjaldskrárhækkunum í hóf og að skólamálítíðir verði gjaldfrjálsar frá og með næsta hausti segist Vilhjálmur telja að þau mál séu öll í eðlilegum farvegi.

Hann segist hafa kallað eftir upplýsingum hjá Akraneskaupstað og komið hafi í ljós að þar hafi verið staðið við allt. Leikskólagjöld sem áttu að hækka um 7% hækka um 3,5%, fæðisgjöld sem áttu að hækka um 10% hækka um 3,5% o.s.frv.

„Þeir hafa staðið við það sem var lofað og síðan munum við fylgjast vel og ígrundað með því í haust að fæðisgjöld í grunnskólunum verði gjaldfjáls. Ég held að stéttarfélögin séu að fylgjast með sínum sveitarfélögum að þau séu öll að efna þetta loforð,“ segir hann. omfr@mbl.is