Magnús Jóhannesson
Magnús Jóhannesson
Reynsla Katrínar og mannkostir eru slíkir að ég er þess fullviss að hún hefur alla burði til að verða frábær forseti allrar þjóðarinnar.

Magnús Jóhannesson

Fyrsta júní nk. göngum við Íslendingar til kosninga um embætti forseta Íslands. Í framboði eru tólf einstaklingar sem hlotið hafa tilskilinn stuðning þjóðarinnar til framboðs. Í þeim hópi eru nokkrir álitlegir frambjóðendur sem vafalaust gætu gegnt embættinu vel. Ég tel okkur hins vegar mjög lánsama að eiga þess kost að kjósa Katrínu Jakobsdóttur til forseta.

Embætti forseta Íslands er ekki valdastaða, en réttur einstaklingur á Bessastöðum getur haft mikil áhrif á þróun mála til góðs fyrir samfélag okkar. Tengsl forseta við ríkisstjórn og einnig forystumenn stjórnarandstöðu á Alþingi skipta miklu máli, en ekki síður góð tengsl forseta við þjóðina. Á þann hátt getur forseti orðið sterkur áhrifavaldur til góðs. Það er mikilvægt að forseti fylgist með og skynji hjartslátt þjóðarinnar á hverjum tíma. Myndist gjá milli meirihluta þings og þjóðar, þá er forseti Íslands tvímælalaust sterkasta röddin sem þjóðin hefur til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri.

Í stöðugt vaxandi samstarfi þjóða heims, hvort sem er í viðskiptum eða við lausn sameiginlegra vandamála veraldar, getur forseti verið sterkur liðsmaður við að fylgja eftir utanríkisstefnu ríkisstjórnar á hverjum tíma. Reynsla Katrínar á alþjóðavettvangi og kynni hennar meðal áhrifamanna erlendis hafa ekki farið fram hjá neinum. Við einkar óvenjulegar og erfiðar aðstæður í heiminum vegna ófriðar í Úkraínu og Palestínu hefur Katrín jafnan talað fyrir friðsamlegum lausnum og mannúð og er einlægur baráttumaður fyrir auknum mannréttindum.

Katrín Jakobsdóttir hefur öðlast einstaka reynslu, sem þingmaður, ráðherra og nú síðast sem forsætisráðherra og gjörþekkir því stjórnkerfi landsins. Þessi reynsla mun nýtast henni vel verði hún kjörin forseti Íslands. Starf hennar sem forsætisráðherra í stjórn þriggja mjög ólíkra stjórnmálaflokka í rúmlega eitt og hálft kjörtímabil, við oft á tíðum mjög erfiðar aðstæður, eins og heimsfaraldur og náttúruhamfarir, hefur sýnt okkur að hún er ekki aðeins öflugur stjórnandi, heldur einstakur mannasættir. Engin önnur þriggja flokka ríkisstjórn á Íslandi á lýðveldistímanum hefur náð að lifa af heilt kjörtímabil, hvað þá eitt og hálft. Framganga Katrínar við lausn kjaradeilunnar á vinnumarkaðnum nú í byrjun árs sýnir okkur vel að hún er bæði góður hlustandi og lausnamiðuð. Það er öllum ljóst að tungumál okkar, íslenskan, á nú undir högg að sækja og áhrif forseta í þeirri baráttu geta orðið málinu mikill liðstyrkur. Sama á við um hinar risavöxnu áskoranir sem við stöndum frammi fyrir í umhverfis- og náttúruvernd. Þekking Katrínar á sögu þjóðarinnar og reynsla hennar úr stjórnarráðinu (menntamálaráðuneytinu) kemur sér vel í baráttunni við vernd og þróun íslenskunnar og mun auðvelda henni að tala við þjóðina og sameina hana hana á erfiðum tímum. Góð þekking hennar á umhverfismálum mun einnig nýtast þjóðinni verði hún kjörin forseti.

Reynsla Katrínar og mannkostir eru slíkir að ég er þess fullviss að hún hefur alla burði til að verða frábær forseti allrar þjóðarinnar. Þess vegna kýs ég Katrínu.

Höfundur gegndi stöðu siglingamálastjóra, var ráðuneytisstjóri í umhverfisráðuneytinu og fyrsti framkvæmdastjóri Norðurskautsráðsins.

Höf.: Magnús Jóhannesson