Nöfnur Þórunn Þórðardóttir og barnabarnið Þórunn Bryndís Kristjánsdóttir við þyrluna sem flutti þær á Esjuna.
Nöfnur Þórunn Þórðardóttir og barnabarnið Þórunn Bryndís Kristjánsdóttir við þyrluna sem flutti þær á Esjuna.
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Í fjallgöngu nýtur maður hvers skrefs og því að komast á toppinn fylgir tilfinning um sigur. Að vera hins vegar flutt fljúgandi upp á fjall er allt öðruvísi,“ segir Þórunn Þórðardóttir, fyrrverandi fararstjóri hjá Ferðafélagi Íslands. Hún hefur um dagana mikið stundað útiveru og fjallgöngur og á að baki óteljandi Esjuferðir. Síðastliðinn sunnudag bar hins vegar nýrra við þegar hún fór á fjallið með þyrlu, en í ferðina var henni boðið í tilefni af 90 ára afmælinu sínu á síðasta ári.

Þyrlan sem Þórunn fór með var aðeins örfáar mínútur frá Reykjavíkurflugvelli á vestanverða Esjuna þar sem lent var. „Þarna var komið niður á hásléttu nærri fjallsbrúninni, sem er þverhnípt fram af. En þarna var upplifun að standa; sjá yfir höfuðborgarsvæðið og Reykjanesskagann. Veðrið var líka alveg frábært og skyggnið eins og best gat orðið,“ segir Þórunn, sem fór í flugferðina með dótturdóttur sinni, Þórunni Bryndísi Kristjánsdóttur.

Stóð fyrir Esjugöngum

Í starfi hjá Ferðafélagi Íslands fór Þórunn fremst í mörgum ferðum og stýrði áhugaverðum verkefnum. Í því efni rifjar hún upp að árið 1977, þegar FÍ var fimmtíu ára, stóð félagið fyrir reglulegum ferðum á Esjuna frá maí og fram í september. Þetta mæltist vel fyrir og var kannski upphafið að því sem síðar varð. Borgarfjallið er orðið útivistarparadís og þangað liggur leið margra – þó fæstra fjúgandi. Margir fylgjast líka vel með fjallinu og hafa þá stöðu til marks um veðrabrigði og tíðarfar almennt.

„Nei, á þessum árum voru Esjuferðir ekki jafn algengar og nú, en á þessu sumri sem ég nefndi voru þátttakendur samanlagt um 1.800. Ætli það sé ekki svipaður fjöldi og nú fer á Esjuna á góðum sumardegi. Á þessum árum voru fjallgöngur ekki jafn vinsælar og nú og alveg nýjar fyrir sumum,“ segir Þórunn – alsæl eftir flugferðina góðu.