Björn Halldórsson viðskiptafræðingur fæddist í Reykjavík 6. maí 1954. Hann lést á heimili sínu í Kópavogi 11. maí 2024.

Foreldrar Björns eru Sigríður Björnsdóttir húsmóðir, f. 22. október 1930, og Halldór Guðjónsson vélstjóri, f. 22. mars 1929, d. 26. apríl 2005. Bræður Björns eru Guðjón véltæknifræðingur og Sigurður vélstjóri.

Björn sleit barnsskónum í Sandgerði og í Hlíðunum í Reykjavík, en síðar flutti fjölskyldan í Kópavog og hefur búið þar síðan. Björn gekk í Hlíðaskóla en eftir grunnskóla lá leið hans í Menntaskólann við Hamrahlíð þaðan sem hann útskrifaðist vorið 1974 og hefði því orðið fimmtíu ára stúdent nú. Hann útskrifaðist viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands.

Útför Björns fer fram frá Digraneskirkju í dag, 28. maí 2024, klukkan 15.

Mig langar til að skrifa fáein orð um Bjössa vin minn til 50 ára.

Leiðir okkar lágu saman í gegnum skák og bridge. Við vorum jafningjar í bridge en í skákinni var hann talsvert öflugur meistaraflokksmaður. Bjössi var mjög vel lesinn í skák og bridge. Fáir voru jafn vel lesnir í standard-kerfinu. Hann las einnig mjög mikið af fræðibókum, skáldsögum og Biblíuna en Bjössi var mjög trúaður maður. Ekki veit ég um nokkurn mann með jafngott minni um skákir og bridge. Hann mundi skákir marga áratugi aftur í tímann. Þar sem ég þekkti flesta skákmenn sem tefldu á 7., 8. og 9. áratugnum hafði ég gaman af að spyrja hvort hann hefði teflt við þennan eða hinn og alltaf kom svarið strax. Hann mundi líka hversu margar skákir hann tefldi við viðkomandi sem ég nefndi, hvaða byrjanir, hvaða stöður komu upp og hver bauð jafntefli eftir hvað marga leiki o.s.frv. Til gamans má nefna að Bjössi fór fyrir Íslands hönd að keppa á heimsmeistaramóti stúdenta í skák árið 1976 í Karakas í Venesúela, þar var einnig Ásgeir Ásbjörns sem nefndur er hér á öðrum stað. Það hefur verið ævintýri fyrir unga menn á þeim tíma.

Við nokkrir félagarnir spiluðum gegnum árin í rúmgóðu herbergi hjá Bjössa. Þarna mættu oft mjög öflugir spilarar. Síðustu árin var ekki eins mikið spilað, en við og Hrólfur Hjalta og Ásgeir Ásbjörns tókum stöku sinnum slag okkur til gamans (Hrólfur aðstoðaði Bjössa með útréttingar í veikindum hans, sem var kærkomið).

Einnig var oft horft á enska boltann en Bjössi var mikill Liverpool-maður og Valsari. Móðir Bjössa, Sigríður, var og er einstök manneskja sem kom ávallt með eitthvað handa okkur til að hafa með kaffinu. Siggi bróðir Bjössa spjallaði oft við okkur. Siggi er mikið ljúfmenni og útsjónarsamur ef dytta þurfti að einhverju. Bjössi eignaðist tvær litlar frænkur sem búa á neðri hæðinni, dætur Sigga og Kötu, en Bjössi talaði mikið um þær og hjálpaði þeim með lærdóminn og var þeim sem afi að hans sögn.

Bjössi átti við veikindi (þunglyndi) að stríða mestan hluta ævinnar en það var lítil hindrun fyrir okkar vinskap. Hann spilaði gjarnan tónlist og átti stórt safn af geisladiskum. Músík var gjarnan spiluð með spilamennskunni. Ekki má gleyma að nefna að Bjössi var mikill húmoristi. Einnig er mér minnisstætt að hann var alltaf tilbúinn að aðstoða ef hann vissi að einhver átti í erfiðleikum.

Síðasta árið hallaði töluvert undan fæti hvað heilsuna varðar en hann hélt upp á sjötugsafmælið sitt 6. maí, þar mættu nokkrir vinir og ættingjar. Það eru ótal góðar minningar um Bjössa sem ekki komast að hér. Það er nokkuð víst að ef líf er eftir þetta líf þá ætti Bjössi nú að vera á góðum stað.

Bestu kveðjur til þín Bjössi.

Þórir Sigursteinsson.

Björn Halldórsson viðskiptafræðingur lést 11. maí 2024. Ég kynntist honum fyrir u.þ.b. 45 árum í gegnum sameiginlegt áhugamál, brids. Það var mikið spilað heima hjá Bjössa í Bræðratungunni og alltaf var eitthvað gott með kaffinu sem hann og móðir hans sáu um. Það var spilað mjög oft og margir góðir spilarar litu við og tóku slaginn. Talað var um Fimbulfálkafélagið „FFF“ og bridsinn sem þar var spilaður þótti í frekar háum gæðaflokki og oft var mjög glatt á hjalla. Ég spilaði mörg mót við hann og alltaf gekk okkur vel.

Hann var einstaklega þægilegur spilafélagi og kurteis með afbrigðum við spilaborðið, hastaði aldrei á nokkurn mann, hvorki makker né andstæðinga.

Hann hafði djúpan skilning á spilinu og sérstaklega vel lesinn í sögnum bæði í standard og precision og maður kom ekki að tómum kofunum ef maður þurfti að fá úrskurð um flóknari bridsstöður. Við fórum saman í sveit á bridsmót erlendis í Danmörku, Svíþjóð og Hollandi og náðum fínum árangri.

Hann hafði mjög mörg önnur áhugamál fyrir utan bridsinn og ber þar helst að nefna skákina þar sem hann náði frábærum árangri.

Hann var ótrúlega víðlesinn og vel að sér í mörgum hlutum. Hann hafði ótrúlega gott minni og var oft að rifja upp áratuga gömul spil sem hann mundi eins og gerst hefðu í gær og þannig var það líka með skákina.

Hann hafði einstaklega góðan húmor og alltaf var hann í góðu skapi þrátt fyrir að heilsan væri ekki alltaf upp á það besta.

Fallinn er í valinn drengur góður og votta ég fjölskyldu hans samúð mína og blessuð sé minning hans.

Hrólfur Hjaltason.