Sverrir Júlíusson fæddist 27. október 1929. Hann lést 8. maí 2024.

Útför Sverris fór fram 16. maí 2024.

Sverrir Júlíusson var menntaður rekstrarhagfræðingur frá Noregi og stóð á fertugu þegar hann kom til starfa í fjármálaráðuneytinu 1970. Upphaflega var hann ráðinn vegna þekkingar sinnar á alþjóðlegri tollaframkvæmd en starfssvið hans varð mun víðtækara. Hvers kyns hagræðing í umsýslu skjala og eyðublaða varð hans aðalsmerki þegar fram í sótti. Hann beitti sér fyrir innleiðingu nýrra staðla í eyðublaðagerð. Þinglýsingarskjöl færðust úr Folio yfir í A4 og umslög tóku verulegum breytingum á þessum árum. Forsenda breytinganna var m.a. að auðvelda vélritun, losna við tvískráningar og draga úr villuhættu. Hélt Sverrir fjölmörg námskeið fyrir skrifstofufólk og háskólanema. Þannig lagði hann línur að samræmdri skjalagerð og varðveislu gagna. Nú á tímum, hálfri öld síðar, var þetta heimur sem skipti miklu máli í rekstri hins opinbera eða þar til rafrænar lausnir tóku við.

Í fjármálaráðuneytinu var Sverrir lykilmaður í frágangi við útgáfu ýmissa grundvallarrita ráðuneytisins. Áratugum saman lúslas hann prófarkir að fjárlagafrumvörpum og öðrum mikilvægum frumvörpum. Við útgáfu á álitsgerðum ráðuneytisins var þess gætt að allt væri eins og best mátti vera. Yngra fólki var leitt fyrir sjónir að skýr frásögn og vandaður texti skipti máli fyrir viðhorf lesandans til hlutaðeigandi málefnis.

Þegar Alþingi samþykkti ný lög um tekjuskatt og eignarskatt á árinu 1978 urðu grundvallarbreytingar á skattframkvæmd. Gera þurfti nýtt skattframtal og fjölmörg önnur eyðublöð samkvæmt lögunum. Var Sverrir þá lykilmaður í þeim breytingum svo og því sem síðar fylgdi í kjölfarið. Átti Sverrir drjúgan hlut í framsetningu þeirra breytinga. Rafræna framtalið, sem nú er notað, er byggt á hönnun Sverris. Dvaldi Sverrir löngum stundum á skrifstofu ríkisskattstjóra og var hann þá sem einn af starfsfólkinu.

Sverrir Júlíusson var nákvæmur, skarpgreindur og afkastamikill. Hann tók að sér ótal erfið verkefni og leysti á fumlausan og öruggan hátt. Hann leit á flókin viðfangsefni sem tækifæri en ekki vandamál. Við sem störfuðum með honum minnumst hans sem prúðmennis, góðs samstarfsfélaga, þægilegs og gefandi í samstarfi. Það var notalegt að eiga við Sverri tal, gamansemi hans var alltaf skammt undan og hann var góður sögumaður, hlýr og vinsamlegur og miðlaði öðrum af þekkingu sinni af hógværð.

Eftir að hann lét af störfum vegna aldurs var ætíð ánægjulegt að hitta hann á förnum vegi. Oft var það í kirkjunni hans, Hallgrímskirkju. Þegar Sverrir fór á eftirlaun tók hann að sér útburð á Morgunblaðinu í Suðurhlíðum. Í óveðri sem skall á borginni fyrir röskum áratug tók blaðburðurinn í það skiptið fimm klukkustundir, krefjandi fyrir mann nær áttræðan. Þetta rataði í fréttir og Sverrir viðurkenndi að veðrið hefði verið óvenju slæmt og síðustu eintökin af blaðinu hafi verið orðin deig af bleytu við lok útburðar. Þannig var Sverrir, hann lauk við það sem honum var trúað fyrir.

Sómamaður er nú genginn – hafi hann þökk fyrir allt og allt. Sonum hans og fjölskyldum þeirra er vottuð innileg samúð.

Magnús Pétursson,
Skúli Eggert Þórðarson.