Agnar Hákon Kristinsson fæddist 28. maí 1954. Hann lést 24. mars 2024.

Útför hans fór fram 18. apríl 2024.

Agnar bróðir okkar er lést 24. mars sl. hefði orðið 70 ára í dag. Aðdragandinn að hans veikindum var ekki langur, lagðist inn á sjúkrahús á fimmtudegi og var látinn á sunnudeginum. Við sem eftir sitjum erum enn að átta okkur á að hann sé ekki lengur meðal okkar. En við eigum góðar minningar um kærleiksríkan bróður, heilsteyptan persónuleika; yfirvegaður, góður hlustandi og umhyggjusamur um allt og alla. Hann setti sjálfan sig sjaldan í forgang, nei þar voru Rósa hans og börn – að ekki sé talað um barnabörnin sem voru þeim báðum afar dýrmæt. Það var yndislegt að koma á Flyðrugrandann í heimsókn því þar var eins og að komast í tveggja tíma jógaslökun. Rólegt andrúmsloft umvafði alla sem komu þangað. Umræður snerust um heimsmálin aðallega og svo komu spurningar eins og hvað er að frétta af ykkur og krökkunum ykkar? síðan var boðið upp á kaffið. Já oft kemur þessi hugsun upp þegar maður fær heimsókn og fólkið varla komið úr skónum, þá hendist maður með kaffibollann á borðið.

Eins og áður segir voru Addi og Rósa alveg einstök. Agnar var nú ekki skoðunarlaus maður öðru nær. Svo gat hann nú verið frekar þrjóskur (köllum þetta ættarþrjóskuna) eins og þeir vita sem þekktu hann vel. Það koma margar skemmtilegar minningar upp í hugann frá tíma hans t.d. Svíþjóð og kynnum hans og Rósu en því hafa vinir hans frá þeim tíma svo sannarlega komið á framfæri í áður sendum minningargreinum þar sem farið er fallegum orðum um Adda og Rósu.

Minningarnar frá æskuslóðum á Hafnargötunni í Keflavík þar sem oft var kátt í höllinni, sex börn og öll með sínar skoðanir á öllum og öllu. Það er svo dýrmætt að eiga þessar góðu og fallegu minningar sem svo sannarlega eiga eftir að ylja okkur öllum um ókomna framtíð.

Við viljum þakka bróður okkar og mágkonu fyrir að hafa ávallt verið til staðar og gefið sér tíma til að ræða við og hlusta á okkur Spaghetti-fjölskylduna eins og við erum gjarnan kölluð saman komin.

Elsku Ragga, Tommi, Hrafnhildur, Krummi og fjölskyldur, erum endalaust þakklát fyrir ykkur öll.

Að lokum okkar kæri bróðir, til hamingju með daginn þinn, biðjum að heilsa fólkinu okkar í Sumarlandinu og sjáumst seinna.

Er sárasta sorg okkur mætir

og söknuður huga vorn grætir

þá líður sem leiftur úr skýjum

ljósgeisli af minningum hlýjum.

(HJH)

Fanney, Björn, Guðbjörg, Gylfi og makar.