— Morgunblaðið/Ómar
Við Rauða borðið á Samstöðinni, fjölmiðli sósíalista, sátu nýverið saman forsetaframbjóðandinn Arnar Þór Jónsson og sósíalistaforinginn Gunnar Smári Egilsson. Merkilegt var að sjá að ekki gekk hnífurinn á milli þeirra félaga í skoðunum og tók…

Við Rauða borðið á Samstöðinni, fjölmiðli sósíalista, sátu nýverið saman forsetaframbjóðandinn Arnar Þór Jónsson og sósíalistaforinginn Gunnar Smári Egilsson. Merkilegt var að sjá að ekki gekk hnífurinn á milli þeirra félaga í skoðunum og tók frambjóðandinn undir hverja vangaveltuna, fullyrðinguna og ranghugmyndina af annarri sem sósíalistinn bauð upp á.

Augljós biturðin yfir því að almenningur skyldi ekki hafa fylkt sér að baki þessum mönnum varð enn meira sláandi þegar þeir jafnan töluðu í nafni alls almennings, sem þeir sögðu afar ósáttan við eitt og annað – sem að vísu sést aldrei í kosningum.

Samtaka sáu sósíalistinn og frambjóðandinn samsæri í hverju horni og kom ekki til hugar að ef til vill væri almenningur einfaldlega annarrar skoðunar en þeir og treysti ekki endilega slíkum popúlistum, en það voru þeir sannarlega báðir í þessum þætti.

En samsærin sem viðruð voru í þessum þætti mega sín þó lítils gegn samsærinu sem Arnar Þór hefur upplýst um á öðrum vettvangi því hann telur ýmislegt benda til að maðurinn hafi aldrei komið til tunglsins og telur ástæðu til að efast um þau afrek.

Vonsvikinn kjósandi.