Sigurlína Björnsdóttir (Didda) fæddist 13. maí 1934 á Bæ á Höfðaströnd. Hún lést á hjartadeild Landspítalans við Hringbraut 11. maí 2024.

Foreldrar hennar voru Kristín Ingibjörg Kristinsdóttir, f. 8. janúar 1902, d. 9. október 1991, og Björn Jónsson, f. 20. desember 1902, d. 24 apríl 1989.

Systkini Sigurlínu voru sex og einn fósturbróðir: Jófríður, Jón Kristinn, Valgarð Þorsteinn og Geir Konráð sem eru látin. Eftirlifandi systkini eru Gunnar Sigurbjörn, Haukur og fósturbróðir, Reynir.

Sigurlína gekk í hjónaband með Adam S. Jóhannssyni, f. 17. júní 1927, d. 25. desember 1995.

Börn Sigurlínu og Adams eru: 1) Ester Jóhanna, f. 8. ágúst 1957, eiginmaður hennar var Guðmundur Hannesson, f. 1949, d. 2020. Synir þeirra eru Hannes, f. 1982, og Halldór, f. 1988. 2) Þorsteinn Kristinn, f 8. desember 1958, eiginkona hans er Aðalheiður Ósk Þorleifsdóttir, f. 1965. Börn Aðalheiðar eru Karen, f. 1989, Eyleif, f. 1996, Gísli, f. 1998. Barnabörnin eru fjögur. 3) Sólveig J., f 23. nóvember 1961, eiginmaður hennar er Hafsteinn Margeirsson, f. 1958. Börn þeirra eru Brynjar, f. 1987, og Agnes, f. 1990. Eiga þau eitt barnabarn. 4) Jóhann Björn, f. 27. febrúar 1963, eiginkona hans er Björg Solheim, f. 1965. Börn þeirra eru Anna Kristín, f. 1985, Jóhanna Marta, f. 1989, Adam Sigmar, f. 1992, Rebekka, f. 2000. Barnabörnin eru tvö. 5) Atli Frans, f. 12. mars 1965.

Sigurlína ólst upp á Bæ á Höfðaströnd, flutti til Reykjavíkur í kringum 1955 og bjó þar til æviloka. Hún starfaði í fyrstu sem ráðskona hjá Pálma Ísólfssyni.

Þegar ríkissjónvarpið var stofnað 1966 hóf hún störf þar sem ræstingakona og starfaði þar þar til hún lét af störfum. Einnig vann hún um stund í Jónsbakaríi sem systir og mágur Adams eiginmanns hennar áttu.

Útför Sigurlínu fer fram í Háteigskirkju í dag, 28. maí 2024, klukkan 13.

Heilsteyptari manneskju en hana móður mína er erfitt að finna. Alltaf var hún tilbúin fyrir okkur krakkana kvað sem bjátaði á. Hún saumaði t.d. öll spariföt á okkur þegar við vorum yngri og man ég eftir litlum snáða stoltum í jakkafötunum sínum ein jólin. Ég var heppinn að alast upp með þessum foreldrum sem ég var svo lánsamur að eiga. Ástin og umhyggjan milli ykkar pabba var einstök og smitaðist til okkar systkinanna.

Innilegar þakkir fyrir móttökurnar sem Ally og krakkarnir hennar fengu hjá þér við okkar kynni, strax var eins og þú hefðir þekkt þau öll frá fæðingu.

Að ferðast með þér í Skagafjörðinn í heimsóknarúnt og í Litla-Bæ voru að sjálfsögðu forréttindi.

Við gátum nú hlegið saman af litlu tilefni og alltaf var stutt í brosið. Þakka þér fyrir þetta ferðalag okkar saman sem þú ert búin að hlúa að alla tíð.

Mamma mín, nú er stundin komin sem við höfum oft talað um og það er rétt hjá þér að það er erfiðara þegar seinna foreldrið fer. Nú var kominn tími hjá þér í nýtt ferðalag þar sem þú hittir hann pabba minn og skilar innilegri kveðju frá mér.

Þú bliknuð mey við minnumst þín,

en mest er blessuð sólin skín,

þú varst sem broshýrt blóm á hól,

sem breiðir faðminn móti sól.

Ó farðu vel, þú fagra rós

til frelsarans, sem var þitt ljós.

Á þig ei framar skyggir ský

nú skín þú Drottins ljósi í.

Þorsteinn Kristinn Adamsson.

Kær frænka mín, Sigurlína Björnsdóttir, er fallin frá. Hún var alltaf kölluð Didda. Allt frá því að ég var smástrákur höfum við verið góðir vinir. Hún var fædd í Bæ á Höfðaströnd eins og ég og eftir að hún giftist honum Damma sínum og flutti til Reykjavíkur þá hlakkaði ég mikið til þegar hún kom norður í Bæ á sumrin með ört stækkandi fjölskylduna á flottum bíl því Dammi keyrði bara um á glæsikerrum. Þegar ég eignaðist síðar fjölskyldu og við eignuðumst okkar heimili í Hafnarfirði, þá vorum við alltaf velkomin í Álftamýrina. Við vorum boðin í mat á laugardegi og síðan var spiluð vist langt fram á nótt. Ekki leiddist dætrunum á heimilinu að passa krakkana okkar á meðan við spiluðum.

Á ákveðnum tímapunkti varð til Litla-Bæjar-gengið. Þetta voru krakkarnir frá Bæ, ég og Erla frænka og auðvitað makar. Við hittumst alltaf um vor og haust í Litla-Bæ þar sem við löguðum til og ekki síst áttum yndislegar stundir við veiðar og annað skemmtilegt. Hún Didda frænka elskaði þessar stundir. Var í essinu sínu við að smíða og mála og ekki síst við að elda silung ofan í alla. Uppáhaldsmaturinn var sem sagt silungur með kartöflum og smjöri. Endalaust góðar minningar um þessar Litla-Bæjar-ferðir enda samheldni stórfjölskyldunnar mikil og ekki síður skemmtileg.

Didda frænka var nýlega flutt á Hrafnistu og var mjög ánægð með vistina þar. Ánægð með herbergið sitt og ekki síður með starfsfólkið og allan aðbúnað. En nú er hún komin í sumarlandið, búin að hitta hann Damma sinn og aðra ættingja og vini sem fóru á undan.

Ég og mín fjölskylda munum sakna Diddu frænku. Hún var stóra frænkan mín.

Við fjölskyldan vottum börnum hennar okkar innilegustu samúð við fráfall hennar.

Konráð Jónsson (Konni frændi) og fjölskylda.